Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur fyrr í dag var Landsnet sýknað af kröfu Landverndar um ógildingu kerfisáætlunar (raflínuáætlunar). Telur dómurinn kerfisáætlun, sem er áætlun um þróun flutningskerfisins til 10 ára, ekki beinast að ákveðnum aðilum eða hafa bindandi réttaráhrif og verði hún því ekki ógilt með dómi. Annað mál sé með framkvæmdir er kunna síðar að verða byggðar á henni. Landvernd skoðar nú dóminn með lögmönnum sínum og íhugar að áfrýja til Hæstaréttar, til að fá efnislega niðurstöðu, en Landvernd hefur talið kerfisáætlunina gallaða. Dómur héraðsdóms tók ekki á því atriði.
Hinsvegar viðurkenndi héraðsdómur í málinu rétt samtakanna til að fá mál sem þetta tekið efnislega fyrir dómi, en Landsnet hafði krafist frávísunar málsins frá dóminum sem ekki var fallist á. Landvernd fagnar þeim áfangasigri. „Þetta er afar mikilvægt skref fyrir umhverfis- og útivistarsamtök og þessu fögnum við“, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, framkvæmdastjóri Landverndar.
Forsenda þess að framkvæmdir, líkt og Sprengisandslína, fari í umhverfismat er að fyrir liggi lögmæt kerfisáætlun. Dómur héraðsdóms sagði ekkert um það efnislega og skoðun Landverndar um meinta galla á kerfisáætlun Landsnets hefur því í reynd ekki verið hnekkt.
Landvernd hvetur af þessu tilefni Landsnet til að hefja raunverulegt samtal við samtök almennings og aðra hagsmunaaðila um það hvernig megi standa að framkvæmdum í raforkuflutningskerfinu í sem mestri sátt.