Umsögn Landverndar vegna breytinga á raforkulögum

Landvernd hefur kynnt sér frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum nr. 65/2003 (raforkuöryggi) -130. Mál á 156. löggjafarþingi 2025 og fagnar því að afhendingaröryggi til almennings og samfélagslega mikilvægra innviða verði tryggt í lögum, í þeim tilvikum sem gæti þurft að grípa til skömmtunar rafmagns vegna ófyrirsjáanlegra eða óvænt.

Mikilvægt að fyrirbyggja skort

Landvernd tekur hins vegar undir með Neytendasamtökunum um að þótt mikilvægt sé að tryggja afhendingaröryggi til heimila og samfélagsinnviða komi til skorts og skömmtunar, þá er mikilvægara að fyrirbyggja slíkan skort, með því að skylda framleiðendur að hafa á hverjum tíma ákveðið hlutfall raforku tiltækt til ráðstöfunar til að tryggja öryggi almennings og lítilla fyrirtækja.

Réttlát græn umskipti

Raforkuöryggi verður að byggja á réttlæti og fyrirsjáanleika fyrir minni notendur, því þeir geta á engan máta keppt við stórnotendur sem kaupa 80% orkunnar til vöruframleiðslu, meðan almenningur, stofnanir og minni fyrirtæki treysta á raforku sem nauðsynlegan innvið í fjölbreyttri starfsemi og daglegu lífi. Til þess að hægt sé að tala um raunverulegt raforkuöryggi þarf það að byggja á stoðunum þremur, afhendingaröryggi, viðráðanlegu verði og sjálfbærni. Þannig verða til réttlát græn umskipti og þannig verður orkuskorti best afstýrt.

 

5% af framleiðslu til heimila og lítilla fyrirtækja

Landvernd styður heilshugar kröfu aðalfundar Neytendasamtakanna frá því í fyrra, um að stórir raforkuframleiðendur verði skyldaðir til að selja 5% af framleiðslu sinni til heimila og selja með takmarkaðri arðsemi og telur að ganga þurfi lengra og tryggja smærri fyrirtæki líka. Staða þeirra er ekki góð núna, þegar grænmetisbændur tala um að hætta ræktun yfir vetrartímann. Slík fyrirtæki þarf líka að tryggja, ef stjórnvöld ætla að standa við eigin stefnu um matvælaöryggi og matvælafullveldi.

Forgangsröðun í þágu samfélags og umhverfis

Landvernd ítrekar enn einu sinni að orkuskortur og orkueftirspurn eru ekki hliðstæð hugtök. Það er hvorki skortur né neyðarástand þótt ekki sé hægt að verða við allri eftirspurn eftir orku sem upp kann að koma. Það hlýtur að vera verkefni stjórnvalda á hverjum tíma að sjá til þess að tiltækri orku sé forgangsraðað í þágu samfélagsins og umhverfisins, en ekki gefinn út opinn tékki á allar auðlindir og náttúru landsins.

Fyrir hönd stjórnar Landverndar,
Þorgerður María Þorbjarnardóttir,
formaður.

Umsögnina má lesa hér í heild sinni.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd