Landvernd og Ungir Umhverfissinnar skiluðu í gær, 22. september, umsögn um þriðju uppfærslu aðgerðaráætlun í loftslagsmálum. Þrátt fyrir að samtökin fagni því að uppfærð aðgerðaráætlun hafi loks litið dagsins ljós, og fjöldi aðgerða sé talsvert fleiri en í fyrri áætlunum, þá eru ýmsir annmarkar á áætluninni. Eins og fyrri aðgerðaráætlanir hafa leitt í ljós, þá er ekki endilega samhengi á milli aukins fjölda aðgerða og auknum árangri, en heildarlosun Íslands hefur nánast staðið í stað undan farin ár. Þetta verður að breytast.
Hvernig á að fjármagna aðgerðirnar?
Það er mikið áhyggjuefni að mikill fjöldi þeirra aðgerða sem birtar eru í aðgerðaráætluninni skortir enn fjármögnun, en 66 (af 150) aðgerðum eru á hugmyndastigi og 82 (af 150) skortir fjármögnun. Nú þegar hefur mikill tími tapast við aðgerðarleysi og það er nauðsynlegt að aðgerðum sé úthlutað fjármagni, þannig að hægt sé að framkvæma þær sem allra fyrst. Eins er mikilvægt að framkvæmd sé ítarleg kostnaðar- og ábatagreining fyrir þessa uppfærðu aðgerðaráætlun, líkt og gert var sumarið 2022 fyrir aðgerðaráætlunina sem gefin var út 2020.
Þá benda samtökin á að fjöldi aðgerða er fjármagnaður með formi styrkja úr Orku- og loftslagssjóði, en ekki liggur fyrir hvort sjóðurinn megni að fjármagna allar þær aðgerðir sem honum ber að fjármagna. Eins er ekki að sjá í aðgerðaráætluninni að aukið fjármagn muni renna til málaflokksins, en það liggur í augum uppi að snarauka þarf fjármagn til þess að hægt sé að halda utan um og framkvæma allar þær aðgerðir sem þar koma fram.
Það vekur einnig furðu að stjórnvöld beinlínis niðurgreiði jarðefnaeldsneytisnotkun með því að veita flugfélögum gjaldfrjálsar losunarheimildir, þrátt fyrir yfirlýsingar á alþjóðaráðstefnum um hætta slíkum niðurgreiðslum. Með þessu er ljóst að ríkið verður af töluverðum tekjum, sem tilvalið væri að verja í mótvægisaðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Raunsæi á forsendum vísinda
Það er mikilvægt að vísindi og traust gögn séu undirstaða allra loftslagsaðgerða. Samkvæmt IPCC2 og UNEP3 þarf losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu að dragast saman um 40-50% til ársins 2030. Það þýðir að losun þarf að dragast saman um 7,5% á hverju ári, næstu 6 árin. Þar sem Ísland er auðugt land í forréttinda stöðu er sanngjarnt að árlegur samandráttur í losun verði hærri en 7,5%, þar sem geta okkar til þess er meiri en hjá efnaminni löndum, sem nú þegar eru farin að verða fyrir áhrifum loftslagsbreytinga.
Í uppfærðri aðgerðaráætlun er lítið um tölulegt mat á væntanlegum samdrætti, og því verður að teljast óljóst hvort áætlunin muni skila samdrætti í samræmi við þessi tilmæli vísindasamfélagsins. Samtökin telja það óásættanlegt að þær aðgerðir sem snúa að samfélagslosun séu þær einu sem metnar séu með tilliti til væntanlegs samdráttar, sérstaklega í ljósi þess að samfélagslosun Íslands nemur ekki nema rúmlega einum fimmta af heildarlosun landsins. Það er því með öllu óskiljanlegt að aðgerðir sem snúaa að þeim 80% sem eftir standa séu ekki metnar tölulega.
Rangar forsendur
Margar af þeim forsendum sem gefnar eru upp, eru ekki á rökum reistar. Þá er til dæmis gefið í skyn að aukin orkuframleiðsla muni sjálfkrafa draga úr losun. Þar benda samtökin á að með frekari orkuöflun fortíðarinnar, sem er um 20% aukning síðustu 15 árin, hefur losun Íslands svo gott sem staðið í stað. Nýting grænnar orku og lítil losun gróðurhúsalofttegunda virðist nefnilega alls ekki alltaf haldast í hendur. Á meðan ekki eru til staðar ferlar eða hvatar til þess að beina orku, hvort sem hún losnar við lok samninga eða er aflað með nýjum virkjunum, í orkuskiptaverkefninu, þá eru þessar forsendur verulega hæpnar. Tryggja þarf forgang orkuskiptaverkefna í áætluninni svo að forsendurnar verði trúverðugar.
Óheppilegt orðaval og skortur á trúverðugleika
Ráðherra fullyrðir að hér sé um raunsæja aðgerðaráætlun að ræða og hvetur alla sem bera ábyrgð á losun, stóra jafnt sem smáa, að vera hluti af þeim breytingum sem framundan eru. Samtökin benda á að þetta orðaval er einstaklega óheppilegt, þar sem ekki á að vera val um þátttöku í þessu risavaxna verkefni – heldur er það skylda okkar allra gagnvart komandi kynslóðum.
Almenningur þarf á skýrari og traustari skilaboðum að halda um að stjórnvöldum sé alvara um að hrinda öllum þessum aðgerðum í framkvæmd. Í samhengi við skýr skilaboð er einnig nauðsynlegt að lögfest markmið um kolefnishlutleysi sé skilgreint nánar. Þá þarf að vera skýr sýn varðandi hvaða samdrætti á að ná hvenær. Óskýr skilaboð og upplýsingaskortur í tengslum við markmið og aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum er einungis til þess fallinn að rugla fólk og draga úr vilja þess til að fylgjast með og taka þátt í þessari mikilvægu vegferð.
Þá benda samtökin einnig á mikinn skort á samráði við viðeigandi hagaðila. Atvinnulífið, sem er lykilhagaðili, var haft með í ráðum frá upphafi, en umhverfis- og náttúruverndarsamtök og önnur almannasamtök, voru ekki spurð álits í öllu tveggja ára ferlinu. Það er nauðsynlegt að félagasamtök sem starfa með hagsmuni náttúrunnar og almennings að leiðarljósi séu höfð jafn mikið með í ráðum, við svo ítarlegri uppfærslu á aðgerðaráætlun í loftslagsmálum..
Ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum
Það er ljóst að því minna sem dregið verður saman í losun til ársins 2030, því meir þurfa komandi kynslóðir að lifa við neikvæðar afleiðingar af völdum loftslagsbreytinga. Þá færist ábyrgð á samdræmtti í losun á milli kynslóða, og komandi kynslóðir munu þurfa að draga úr losun enn hraðar og nota mun meira fjármagn til aðlögunaraðgerða.
Árið 2030 nálgast óðum og illa hefur gengið að ná fram samdrætti. Það er ákaflega ósanngjarnt að varpa ábyrgðinni yfir á komandi kynslóðir. Samtökin binda miklar vonir við að tekið verði tillit til þessara athugasemda við uppfærða aðgerðaráætlun, þannig að hægt sé að koma í veg fyrir frekara ójafnrétti á milli kynslóða.
Lestu umsögnina í heild sinni hér.