Ungmenni kynnast dásemdum Hálendisins

Hvíld í Nýjadal. Ljósmyndari: Ósk Kristinsdóttir
Hér er frásögn af vel heppnaðri og fróðlegri ferð ungs fólks um Hálendi Íslands sumarið 2022, þar sem markmiðið var að skoða, upplifa og njóta.
Dagana 18.-20. ágúst fór hópur ungmenna á aldrinum 15-20 ára í ferð á vegum Landverndar, Skátanna og FÍ um Hálendi Íslands.
 
Markmið ferðarinnar var að skoða, upplifa og njóta Hálendisins og í framhaldinu miðla upplýsingum til almennings með fjölbreyttum leiðum sem þátttakendur völdu sjálfir, t.d. með miðlun á samfélagsmiðlum, með ljósmyndum,  greinaskrifum, ljóðagerð, teikningum eða öðru.
 
Með í för voru Tryggvi Felixson formaður Landverndar og Ósk Kristinsdóttir sérfræðingur í menntateymi Landverndar. 

Mannskapurinn vaknaði í þoku næsta morgun en um leið og nestið var klárt birti til. Ferðinni var heitið inn Nýjadalinn, að Kaldagili þar sem Tungnafellsjökull sýnir sig. Þar ræddu ferðalangarnir um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jöklana. Veðrið, félagsskapurinn og náttúran, allt var þetta upp á 10! Síðasta spölinn heim í skála rigndi hressilega, sem gerði gott kakó í skálanum enn betra. Um kvöldið kom landvörður Vatnajökulsþjóðgarðs í heimsókn og spjallaði við
áhugasöm ungmennin um starf sitt og svæðið.
 
Eins fallegt og útsýnið er víða á Hálendinu er víst ekki alltaf hægt að treysta á að  geta notið þess. Þoka var á þriðja degi og því heppilegt að ferðinni var heitið inn í Laugarfell, þar sem heita laugin beið. Þetta varð afslöppunardagur með bókalestri, spilum og einhverjir fengu sér kríu. Allir voru sammála um að þessar athafnir
væru betri uppi á Hálendinu. Eftir kvöldmat birti til og hópurinn fór í kvöldgöngu um svæðið. 
 
Fjórði dagurinn var heimferðardagur. En af hverju að keyra á malbiki þegar hægt er að njóta þess að aka Kjöl og dást að útsýninu? Hópurinn hélt í Skagafjörðinn í
blíðskaparveðri og þaðan suður Kjalveg. Stoppað var á Hveravöllum þar sem Eyvindarhellir heillaði ungmennin, sumir hefðu getað hugsað sér að eyða aukanótt
þar. Jöklarnir voru tignarlegir í blíðunni og fegurðin óútskýranleg við Hvítárvatn þar sem Norðurjökull og Suðurjökull blöstu við. Ferðinni var svo lokið með því að
heilsa upp á Sigríði í Brattholti og fossinn hennar. 
 
Ferðin var vel heppnuð í alla staði. Ungmennin fengu ómetanlega fræðslu frá Tryggva og hópurinn var virkilega áhugasamur og fróðleiksfús. 
 
Greinin birtist fyrst í ársriti Landverndar 2023

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd