Ungmenni til áhrifa – YOUth LEADing the world – Leiðtoganámskeið

Þátttakendur í youth leading the world fá leiðtogaþjálfun og stuðning við að valdefla ungmenni.
Vilt þú sækja þér leiðtogaþjálfun um sjálfbæra þróun og loftslagsmál? YOUth LEADing the world gerir ungu fólki kleift að finna sína eigin rödd og verða virkir þátttakendur í að skapa sanngjarnari og sjálfbærari framtíð.

Þjálfun sem eflir getu ungs fólks til að stuðla að breytingum í samfélaginu og leiða grasrótarstarf

YOUth LEADing the World (YLTW) er leiðtogaþjálfun um sjálfbæra þróun og loftslagsmál sem gerir ungu fólki kleift að finna sína eigin rödd og verða virkir þátttakendur í að skapa sanngjarnari og sjálfbærari framtíð.

Fyrir hvern? Leiðtoganámskeið fyrir fólk sem starfar með ungmennum og að æskulýðsstarfi, áhugafólk um valdeflingu ungmenna og ungmennin sjálf. 

Nú gefst Íslendingum einstakt tækifæri að taka þátt!

Valdeflum ungmenni og höfum áhrif

 

Í gegnum YOUth LEADing the World verður unga fólkið:

  • UPPLÝST um hnattrænar áskoranir og sjálfbæran lífsstíl
  • FRUMKVÖÐLAR í að þróa aðgerðaáætlanir fyrir jákvæðar félagslegar breytingar
  • TENGT ungu fólki um allan heim, sem fæst við sömu viðfangsefni

Kannanir hafa leitt í ljós að ungt fólk sem sækir námskeiðið eykur til muna eigin þekkingu á loftslagsmálum og sjálfbærri þróun. Jafnframt eykst sjálfstraust og frumkvæði til að takast á við áskoranir á þessu sviði um meira en helming, sem og sú tilfinning að vera hluti af virku samfélagi ungs fólks sem þráir breytingar, bæði innan eigin samfélags og á heimsvísu.

YOUth LEADing the World hefur fengið ýmsar viðurkenningar og verðlaun. Námskeiðið er þróað af umhverfisverndarsamtökunum OzGREEN í Bellingen í Ástralíu. Sue Lennox, meðstofnandi og forstjóri OzGREEN og hugmyndasmiður fyrir YLTW var valin NSW senior Australian of the year 2020.

Verkefnið er nú þegar til í nokkrum löndum utan Ástralíu. Á árinu 2020 hafa t.d. verið haldin alþjóðleg netnámskeið með þátttakendum frá ýmsum löndum.

Hægt að velja um námskeið fyrir leiðbeinendur eða námskeið fyrir ungmenni

Tvennskonar námskeið eru í boði, annars vegar námskeið fyrir leiðbeinendur og hins vegar fyrir unga fólkið.

Þátttakendur læra að skipuleggja ungmennaþing

Á námskeiði fyrir leiðbeinendur þjálfar OzGREEN nýja leiðtoga, sem geta síðan haldið ungmennaþing í sínu umhverfi. Þetta gæti t.d. verið mjög áhugavert fyrir kennara, grasrótarhópa, og alla aðra sem vinna með ungu fólki. Námskeiðið hentar einnig ungu fólki sem treystir sér í leiðtogahlutverk. Nú þegar er búið að þjálfa yfir 1.100 leiðbeinendur víðs vegar um heiminn. Guðrún Schmidt, starfsmaður Landverndar, er einn þeirra og mælir eindregið með þessu námskeiði. Hún segir jafnframt að það væri mjög jákvætt ef fleiri gerðust leiðbeinendur hér á landi, svo hægt sé að halda ungmennaþing sem víðast og efla þannig unga fólkið.

Valdefling ungmenna og unnið gegn loftslagskvíða

Ungmennaþingið er fyrir ungt fólk á aldrinum 12 til 25 ára. Þar fara þátttakendur í gegnum valdeflandi ferli sem miðar að því að minnka loftslagskvíða og færa unga fólkinu tól til að stuðla að uppbyggilegum breytingum í sínu umhverfi.

Vilt þú taka þátt?

Nú gefst okkur hér á Íslandi það einstaka tækifæri að taka þátt í og læra um YOUth LEADing the World. Þrír viðburðir fyrir fólk víðs vegar um heiminn hafa verið skipulagðir. Aðalleiðbeinandinn, Sue Lennox, er í Ástralíu (tímamismunur er 11 klukkustundir miðað við Ísland).

  • UPPLÝSINGAFUNDUR: Föstudagur 29. janúar kl 18:00-19:30.

Ókeypis aðgangur en fólk er beðið að skrá sig á upplýsingafund YOUth LEADing the world hér.  

  • YLTW NÁMSKEIÐ FYRIR LEIÐBEINENDUR: 26., 27. og 28. febrúar frá kl 18:00 til 21:00 hvern dag. Námskeiðið kostar $550 AUD á mann sem eru um 55.000 kr.

  • YLTW UNGMENNAÞING: 26., 27. og 28. mars frá kl 18:00 til 21:30 hvern dag. Þátttaka kostar $110 AUD á mann sem eru um 11.000 kr.

Við getum öll haft áhrif!

Heimurinn þarfnast öflugs grasrótarstarfs og þar er mikilvægt að unga fólkið leggi hönd á plóginn. Við hvetjum ungt fólk til að taka þátt á þessu mikilvæga og skemmtilega starfi.

Til greina kemur að niðurgreiða hluta þátttökukostnaðar, allt eftir fjölda þátttakenda.

Frekari upplýsingar veitir Guðrún Schmidt hjá Landvernd: gudrun(hjá)landvernd.is og í síma: 847-2939.

Sjá nánari upplýsingar á https://events.humanitix.com/youth-leading-the-world-global-online-congress-2021 og á https://www.ozgreen.org/yltw

YOUth LEADing the world - leiðtoganámskeið 2021

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd