Utanvegaakstur, leiðbeiningar um viðgerðir

Utanvegaakstur þarf að stöðva. Landvernd og Landgræðslan hafa gefið út leiðbeiningar um viðgerðir á skemmdum eftir utanvegaakstur, landvernd.is
Utanvegaakstur skemmir íslenska náttúru sem er einstaklega viðkvæm fyrir raski. Leiðbeiningarit frá Landgræðslunni og Landvernd.

Utanvegaakstur, leiðbeiningar um viðgerðir veitir leiðsögn um flokkun og viðgerðir á landskemmdum vegna utanvegaaksturs. Íslensk náttúra er sérlega viðkvæm fyrir raski og utanvegaakstur þarf að stöðva.

Landvernd og Landgræðslan hafa gefið út leiðbeiningar um flokkun og viðgerðir utanvegaaksturs. 

Höfundar eru Anna Sigríður Valdimarsdóttir, Kristín Svavarsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson. 

Ritið nýtist öllum þeim sem vilja leggja sitt af mörkum til að uppræta skemmdir eftir utanvegaakstur hvort sem um er að ræða landverði, þjóðgarðsverði eða almenning. 

Við vonum að ritið muni koma að góðum notum og biðlum til fólks að aka innan merktra slóða á ferðum sínum um landið.

Eiginleikar íslensks jarðvegs og samspil hans við ástand gróðurs gera það að verkum að íslensk náttúra er sérlega viðkvæm fyrir hvers kyns raski sem opnað getur gróðurþekjuna og sett af stað jarðvegsrof. Það á einnig við um rask af völdum átroðnings og umferðar, þ.m.t. aksturs utan vega. Hjólför og slóðar rjúfa gróðurhuluna og geta valdið rofi og miklum skemmdum, auk þess að vera lýti í landi.

Mikilvægt að koma í veg fyrir utanvegaakstur

Á mörgum svæðum er ástand gróðurs ekki gott, gróðurhula oft gisin með lítið rótarhald og jarðvegur mjög rofgjarn og skolast eða fýkur auðveldlega til. Það er því afar brýnt að koma í veg fyrir utanvegaakstur og að gera við skemmdir sem orðið hafa svo frekara rof eigi sér ekki stað. Áberandi hjólför freista margra til að aka utan vegar og geta haft mikil áhrif á sjónræna upplifun fólks. Rannsóknir sýna að ferðamenn á Íslandi telja mikilvægt fyrir upplifun sína að ekki sjáist ummerki aksturs utan vega.

Viðgerðum skal forgangsraða

Í ritinu riti eru leiðbeiningar um flokkun og viðgerðir á landi sem hefur skemmst af völdum utanvegaaksturs. Þó hér sé fyrst og fremst litið til utanvegaaksturs þá eiga sömu grundvallaratriðin við þegar um er að ræða rask á landi vegna t.d. gönguferða, hjólreiða eða hestaferða. Aðferðafræði til að meta ástand lands og alvarleika skemmda er lýst og byggir forgangsröðun viðgerða á því mati. Þá er fjallað um mismunandi aðferðir sem nota má til að gera við landskemmdir. Forgangsröðun viðgerða byggir fyrst og fremst á mati á rofhættu (flokkun rofhættu), en einnig er horft til sjónrænna áhrifa.

Ritið gagnast þeim sem vilja fyrirbyggja og lagfæra skemmdir eftir utanvegaakstur

Ritið er ætlað öllum þeim sem hafa áhuga á að laga eða koma í veg fyrir landskemmdir eftir utanvegaakstur og ætti að nýtast m.a. landeigendum, sveitarfélögum, opinberum stofnunum sem hafa umsjón með landi, sjálfboðaliðasamtökum og einstaklingum.


Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd