Varðliðar umhverfisins 2012

Á Degi umhverfisins útnefndi umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, Varðliða umhverfisins við hátíðlega athöfn. Nemendur Foldaskóla í Grafarvogi og nemendur í 7. og 8. bekk Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði hlutu útnefninguna Varðliðar umhverfisins árið 2012.

Nemendur Foldaskóla í Grafarvogi hljóta útnefninguna Varðliðar umhverfisins árið 2012 fyrir þátttöku sína í Norræna loftslagsdeginum árið 2010. Í tilefni dagsins ákváðu nemendur skólans að virkja nærsamfélag sitt til þátttöku í þágu loftslagsmála og búa til eitt stórt tré í skólanum til þess að minna á mikilvægi trjánna, m.a. í loftslagsmálum. Verkefnið fólst í því að nemendur dreifðu í hús upplýsingum um mikilvægi þess að hver og einn gerði sitt til þess að sporna við óheillaþróun í loftslagsmálum. Allir nemendur lituðu laufblað sem fylgdi með og átti viðtakandi þess svo að gera sér ferð með það í skólann og laufga með því grein á trénu sem kallaðist Virðing. Var það undir hverjum og einum komið að velja laufblaði sínu stað þar sem þótti viðeigandi. Heilu fjölskyldurnar komu saman í skólann og ræddu vel og lengi um hvaða grein ætti að verða fyrir valinu. Virðingin laufgaðist hægt og bítandi, enda gerast góðir hlutir hægt.

Nemendur í 7. og 8. bekk Stórutjarnaskóla í Ljósavatnsskarði hljóta útnefninguna Varðliðar umhverfisins árið 2012 fyrir vinnu sína að umhverfisþingi skólans. Síðastliðin þrjú ár hafa nemendur og starfsfólk Stórutjarnaskóla staðið fyrir umhverfisþingi og eru allir í skólasamfélagi skólans og nærsveitum boðnir þangað velkomnir. Á hverju þingi fyrir sig hafa einhver brýn málefni í umhverfismálum og málefnum sjálfbærrar þróunar í sveitarfélaginu verið tekin fyrir og utanaðkomandi sérfræðingar fengnir til þess að vera með framsögu.

Á þinginu í ár kynntu nemendur í 7. og 8. bekk rannsóknarniðurstöður sínar á sorpflokkun á heimilum í skólasamfélaginu. Verkefnið kalla þau Ert þú í rusli? Er rusl hráefni eða úrgangur? Um er að ræða könnun sem nemendurnir lögðu fyrir 114 heimili í skólasamfélaginu og fengu þeir svör frá um 96% heimilanna. Niðurstöðurnar settu nemendurnir fram í bæklingi ásamt leiðbeiningum þess efnis hvernig best sé að bera sig að við flokkun á sorpi í skólasamfélaginu. Bæklingurinn verður aðgengilegur á heimasíðu skólans en jafnframt verður honum dreift á hvert heimili í umdæmi skólans.

Nemendur úr Stórutjarnaskóla voru viðstaddir athöfnina í gegn um netið og notuðu nemendurnir úr skólunum tveimur tækifærið til að heilsast á óhefðbundinn hátt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd