Fjölbreyttur vistvænn ferðamáti er lykillinn af lausninni
Ávinningur af vistvænni samgöngu getur orðið margþættur og er minni losun gróðurhúsalofttegunda aðeins ein, en afar mikilvæg, hlið málsins.
Aðkoma almennings
Allur almenningur nýtir samgöngur og tryggja verður að eins góð sátt og hægt er ríki um þær leiðir sem farið verður til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum. Það varðar bæði eflingu fjölbreyttra ferðamáta og umgjörð fjárhagslegra hvata til þess að flýta fyrir rafvæðingu samgöngutækja.
Almenningur og samtök hans hefur ekki bara rétt til að taka þátt í ákvarðanatöku skv. Árósasáttmálanum heldur eru sjónarmið hans þegar á fyrstu stigum forsenda þess að ákvarðanatakan sé upplýst og að mikilvæg sjónarmið og gögn komi fram strax í byrjun vinnunnar. Það eru því mikil vonbrigði að umhverfisverndarsamtök séu ekki nefnd sem samráðsaðili í máli sem varðar umhverfi og náttúru eins ríkulega og þó kemur fram í texta. Stjórn Landverndar vonar að um handvöm sé að ræða og hvetur Innviðaráðuneytið til að leiðrétta það sem samtökin líta á sem mistök.
Umhverfisverndarsamtök hafa um langt ára bil haldið á lofti þeim sjónarmiðum sem fram koma verkefnalýsingunni. Þannig lagði Landvernd fram heilstæða tillögu að aðgerðaáætlun til að draga úr losun gróðruhúsalofttegunda á Íslandi árið 2006. Samtökin, sem tæplega 6.000 Íslendingar eiga aðild að, búa yfir víðtækri þekkingu á viðfangsefninu. Stjórn Landverndar telur því afar brýnt að umhverfisverndarsamtök fái að tilnefna aðila í stýrihóp til að tryggja að sú reynsla og þekking sem umhverfisverndarsamtök búa yfir komi að góðu gangi við þetta mikilvæga verkefni.