Fullt var út úr dyrum á málþingi Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Íslands um miðhálendið sem fór fram um helgina. Til máls tók fjölbreyttur hópur sérfræðinga og voru gestir fræddir um þau verðmæti sem felast í óbyggðum víðernum hálendisins.
Fyrri hluti málþingsins fjallaði um virði hálendisins. Þóra Ellen Þórhallsdóttir, prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands, ræddi um náttúrufarslegt virði svæðisins og nefndi að þar væru vistkerfi sem eru fágæt á heimsvísu. Þá lagði hún áherslu á að ein mestu verðmæti hálendisins lægju í einstöku upplifunargildi landslags og víðerna og að þau yrðu ekki varðveitt nema í stórum og víðáttumiklum heildum.
Sigurður Jóhannesson, hagfræðingur á Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, útskýrði að ekki væri einfalt að meta efnahagslegt virði miðhálendisins. Sigurður benti þó á rannsóknir Þjóðverjans David Bothe sem skoðaði í upphafi aldarinnar verðmæti lands sem fór undir Kárahnjúkavirkjun. Niðurstöður Bothe voru að landið væri að minnsta kosti 2 milljarða króna virði. Sigurður tók fram að almennt neysluverð hefði síðan hækkað um 100 %. Sigurður minntist einnig á athuganir Tryggva Felixssonar, hagfræðings, sem hefur bent á að allt hálendið, yfir 400 m.y.s., er um það bil 20 sinnum stærra en áhrifasvæði Kárahnjúkavirkjunar. Sigurður sagði að því mætti álykta, á meðan ekki lægju betri ágiskanir fyrir, að hálendið allt sé a.m.k. 80 milljarða virði.
Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, fór yfir hinn gríðarlega vöxt sem ferðaþjónustan hefur notið á undaförnum árum og benti á þá staðreynd að ferðaþjónustan byggir fyrst og fremst á íslenskri náttúru. Þá lagði hún áherslu á að náttúruvernd og náttúrunýting væru eitt aðalverkefni íslenskrar ferðaþjónustu og í því samhengi nefndi hún að hálendi Íslands væri einn mesti fjársjóður þjóðarinnar.
Páll Jakob Líndal, aðjúnkt við Sálfræðideild Háskóla Íslands, sagði frá því að sálfræðilegar rannsóknir hafi ítrekað sýnt fram á jákvæð andleg, líkamleg og félagsleg áhrif náttúrunnar og að umrædd áhrif endurspeglist sterkt í jákvæðum viðhorfum til náttúrunnar. Mun jákvæðari en til manngerðs umhverfis. Í því samhengi minnist hann á að 80% ferðamanna sem sækja Ísland heim koma vegna náttúrunnar og benti á að niðurstöður sálfræðilegra rannsókna hafa sýnt fram á að neikvæð viðhorf gagnvart umhverfinu aukast við aukna uppbyggingu umhverfisins.
Þórarinn Eyfjörð, formaður ferðafélagsins Útivistar, lokaði svo fyrri hluta málþingsins með því að fara yfir mikilvægi óraskaðs hálendis fyrir ferðafólk.
Seinni hluti málþingsins fjallaði um hvernig tryggja mætti verndum miðhálendisins. Heiða Guðný Ásgeirsdóttir, varaoddviti Skaftárhrepps ræddi um jákvæðar afleiðingar af stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir sveitarfélögin sem eiga aðkomu að stjórn garðsins. Lagði hún áherslu að þar hefðu myndast hagsmunatengingar á milli sveitarfélaganna og að þjóðgarðurinn væri mikilvægur vettvangur í að vinda ofan af þeirri hugsun að allt sem gerist innan hreppamarka sé einkamál þeirra sem þar búa.
Ásdís Hlökk Theodórsdóttir, forstjóri Skipulagsstofnunar, ræddi um mikilvægi heildstæðrar stefnumörkunar í skipulagsmálum og hvað væri í farvatninu varðandi þróun skipulagsmála hálendisins. Ásdís Hlökk nefndi m.a. að eðlilegt væri að meginábyrgð á skipulagsákvörðunum lægi sem næst borgurunum hjá lýðræðislega kjörnum aðilum í héraði, en tók einnig fram að það væri mikilvægt að til væri heildstæð skipulagsstefna fyrir stór svæði eins og miðhálendið og í því samhengi væri áframhaldandi efling og sameining sveitarfélaga mikilvægt skipulags- og náttúruverndarmál.
Peter Prokosch frá norsku umhverfisverndarsamtökunum Linking tourism & Conservation ræddi um gríðarhraðan vöxt náttúruferðamennsku í heiminum og hvernig sú tegund ferðamennsku styddi við þróun og aukningu verndaðra svæða. Prokosch lagði áherslu á að ef Íslendingar ætluðu að taka þátt í þeim vexti væri mikilvægt að auka verndun svæða á miðhálendinu og nefndi að heildstæð verndun svæðisins myndi hjálpa til við stýringu ferðamanna og fræðslu þeirra um umgengni við náttúru landsins.
Síðasta fyrirlesturinn hélt Edward Huijbens, sérfræðingur á Rannsóknarmiðstöð Ferðamála. Edward tók fram að miðhálendið værði meginuppistaðan í ímynd landsins sem áfangastaðar náttúruferða og meginástæða þess að fólk kemur til landsins. Þá tók hann saman helstu niðurstöður úr nýjustu könnunum meðal ferðafólks á hálendi Íslands og fór yfir hvernig öðlast má frekari skilning á gestinum, væntingum hans og hugmyndum um hálendið til að upplýsa stefnumótun og áherslur í uppbyggingu.
Í lokin fóru fram umræður meðal málþingsgesta um hvernig tryggja bæri verndun miðhálendisins.