Varðliðar umhverfisins, verkefnasamkeppni grunnskólabarna í 5. til 10. bekk er nú hafin. Með samkeppninni er ætlunin að hvetja börn og unglinga til góðra verka í umhverfisvernd og sjálfbærni, vekja athygli á sýn þeirra á umhverfismál og kalla eftir leiðsögn yngri kynslóðarinnar á því sviði.
Skilafrestur verkefna er til 26. mars 2021.
Hægt er að skila inn fjölbreyttum verkefnum
Verkefnin mega vera af fjölbreyttum toga, t.d. ljósmyndir, kannanir, samvinnuverkefni, ritgerðir, textílverkefni, ljóð, veggspjöld, bæklingar, vefverkefni, leikrit, myndbönd og hljóðverk og svo mætti lengi telja. Hægt er að setja þau fram á hvaða formi sem er – hér er um að gera að virkja sköpunargleðina. Lögð er áhersla á að frumkvæði nemenda sé sýnilegt bæði við undirbúning og úrvinnslu verkefnanna og mikilvægt er að gögn séu unnin af nemendum sjálfum.
Verkefnin geta tekið fyrir sjálfbærni og umhverfismál í víðum skilningi og er áhersla á að þau hafi góða tengingu við nám nemenda og þverfaglegt skólastarf. Þá styrkir það verkefnin ef þau leitast við að hafa jákvæð áhrif á hegðun fólks og viðhorf samfélagsins til umhverfisins, hvort heldur sem er innan skólans eða utan. Við hvetjum skóla jafnframt til að tengja verkefnin við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna með einhverjum hætti.
Skil og yfirferð
Þetta er í 14. sinn sem efnt er til keppninnar en að henni stendur Landvernd í samvinnu við umhverfis- og auðlindaráðuneytið og Miðstöð útivistar og útináms. Verkefnin skal senda á netfangið postur@uar.is eða í bréfpósti á umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Skuggasundi 1, 101 Reykjavík, merkt ,,Varðliðar umhverfisins”.
Þar sem keppnin féll niður í fyrra vegna kórónuveirufaraldursins verður að þessu sinni tekið á móti verkefnum sem unnin voru skólaárin 2019-2020 og 2020-2021.
Þriggja manna valnefnd skipuð fulltrúum þeirra sem standa að keppninni velur úr innsendum verkefnum og útnefnir Varðliða umhverfisins. Áhugi er á að gera þau verkefni sem hljóta verðlaun aðgengileg öðrum skólum. Haft verður samráð við skóla um framkvæmd birtingarinnar. Veitt verður viðurkenningaskjal fyrir öll innsend verkefni og verða valin verkefni verða verðlaunuð af umhverfis- og auðlindaráðherra á hátíðarathöfn í tengslum við Dag umhverfisins. Verðlaun eru ákveðin í samráði við verðlaunahafa en oft er um að ræða viðburð eða upplifun.
Fyrri varðliðar
Fyrir verðlaunaverkefni hafa t.d. verið þemaverkefni og nýsköpunarverkefni um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, rannsóknarverkefni um mismunandi eiginleika og birtingarform vatns, samvinnuverkefni nemenda og Krónunnar til að draga úr plastpokanotkun, ljósmyndaverkefni um náttúruna í Loðmundarfirði, umhverfisþema sem fól m.a. í sér tilraunir til lífsstílsbreytinga nemenda og áskorun til bæjarstjórnar um umhverfismál, mælingar nemenda á jökulsporði Sólheimajökuls, söfnun nemenda á smáraftækjum, leikrit um umhverfismál, opið umhverfisþing nemenda sem foreldrum, kennurum og öllum í nærsveitum viðkomandi skóla var boðið til, þátttaka í Norræna loftslagsdeginum, útgáfa bæklings um flokkun úrgangs og jaðrakanaverkefni nemenda í Grunnskóla Fjallabyggðar og svo mætti lengi telja
Nánar má lesa um verðlaunaverkefni á vefslóðinni www.stjornarradid.is/vardlidar
Nánari upplýsingar veita Katrín Magnúsdóttir hjá Landvernd (katrin (hjá) landvernd.is) og Anna Sigríður Einarsdóttir hjá umhverfis- og auðlindaráðuneytingu (anna.einarsdottir (hjá) uar.is).