Votlendi þekja um 3% af yfirborði lands en geyma um 30% af kolefni þess í jarðvegi sínum. Mjög hefur verið gengið á íslensk votlendi, sérstaklega á láglendi en framræst votlendi eru stærsti losunarliður gróðurhúsalofttegunda á Íslandi.
Friða þarf a.m.k. 30% landsvæða með tilliti til mikilvægra vistkerfa og endurheimta a.m.k. 30% af framræstu votlendi fyrir árið 2030.
Gera þarf áætlun um frekari endurheimt til 2050. Þetta er hornsteinn að því að ná markmiðum Kunming-Montréal samningsins sem Ísland hefur skrifað undir og miðar að því að friða a.m.k. 30% land-, haf- og strandsvæða fyrir 2030 sem og að endurheimta 30% af röskuðum svæðum.
Ofangreind ályktun var samþykkt á aðalfundi Landverndar 23. maí 2024.