
- This viðburður has passed.
Sköflungsganga Landverndar – Heiðar í háska – Mosfellsheiði

Fimmtudaginn 19. júní klukkan 18:00 🥾
Leiðarlýsing á upphafsreit gönguleiðar: Beygt er út af Suðurlandsvegi og Nesjavallavegur ekinn meðfram rörinu. Þrátt fyrir að við gerum ráð fyrir að flestir vilji fara á eigin bílum, væri gott að sameinast í bíla hjá Össuri á Grjóthálsi en þaðan verður farið í síðasta lagi kl.17:15.
Staðsetning: Mæting og upphaf göngu er kl 18:00 á bílastæði sem er merkt inn á eftirfarandi hlekk
svo rata megi auðveldlega: https://maps.app.goo.gl/iNgXsaXXVV6nV6Ls9
Lýsing gönguferðar: Lengd gönguleiðar er ca. 5 km fram og til baka. Gert er ráð fyrir að gangan taki allt að þrjár klukkustundir með nestisstund. Mikilvægt er til öryggis að taka með skjólgóðan fatnað og góða skó en annars er leiðin greiðfær og við flestra hæfi og auðvitað gerum við ráð fyrir góðu gönguveðri og stórkostlegu útsýni. ☺
Af Sköflungi er góð sýn yfir Mosfellsheiði, einnig til Þingvalla og síðast en ekki síst yfir áhrifasvæði fyrirhugaðra framkvæmda við vindorkuver.
Þetta er þriðja gangan undir merkjunum “Heiðar í háska” og voru hinar göngurnar fjölmennar og mæltust sérstaklega vel fyrir. Allir áhugasamir eru hjartanlega velkomnir og athugið að gangan er ekki aðeins fyrir félaga í Landvernd. Við hvetjum hins vegar auðvitað þátttakendur til að ganga til liðs við Landvernd auk þess að taka þátt í samstöðugöngu gegn þeim áformum sem uppi eru.
Áform eru uppi um þrjú vindorkuver á milli Lyklafells og Sköflungs á Mosfellsheiði.
Hæð vindorku mannvirkja á svæðinu eru áætluð frá 180 – 210 metra á hæð. Vindorkuverum á Mosfellsheiði er ætlað að rísa í flasið á útivistarlandi og náttúruparadís höfuðborgarbúa.
Mikil andstaða er við þessi áform enda hefðu fyrirhuguð iðnaðarver áhrif á náttúru, lífríki og upplifun og útivist á gríðarlega stóru svæði. Auk beinna samfélagslegra áhrifa hafa atvinnuflugmenn og áhugafólk um flug lýst yfir sérstökum áhyggjum af staðsetningu vindorkuvera á þessu svæði.
Stöndum saman og sýnum samhug í verki til varnar einstöku útivistarsvæði og heiðarlandi við rætur Hengils í bakgarði stór höfuðborgarsvæðisins og Þingvallasveitar.
Verið velkomin í meðmælagöngu með heiðarlandi í hættu.
Leiðsögumenn: Páll Ásgeir Ásgeirsson, Rósa Sigrún Jónsdóttir,
Andrés Skúlason og Kristín Helga Gunnarsdóttir.
Vinsamlega athugið að skráning í ferðina er æskileg og hægt að gera það á facebook viðburðinum hér: https://fb.me/e/4KlX8DBub
Nánari upplýsingar veita:
Kristín Helga Gunnarsdóttir, stjórnarfulltrúi í Landvernd – 896 9771.
Andrés Skúlason verkefnastjóri Landvernd – 8995899.