Frú Vigdís Finnbogadóttir verndari Landverndar, er 90 ára í dag. Henni til heiðurs mun Landvernd gróðursetja 90 bjarkir í Alviðru í vor þegar frost fer úr jörðu.
Bjarkirnar níutíu munu festa rætur í Vigdísarrjóðri, sem myndaðist við gróðursetningu þegar 75 ára afmæli Vigdís var fagnað. Vigdísarrjóður hefur verið skjól þeim sem sækja fræðslu og útvist í Alviðru, jörð í eigu Landverndar og Árnesinga við Sogið undir Ingólfsfjalli.
Frú Vigdís hefur um langt árabil verið verndari Landverndar; klettur sem stendur með samtökunum í blíð og stríðu. Hún hefur bæði hvatt til dáða og verið ráðagóð.
Stjórn og starfsmönnum Landverndar hefur hún veitt innblástur og stuðning, ekki síst þegar tekið hefur verið á erfiðum málum og ágjöfin er þung.
Landvernd óskar Vigdísi til hamingju með afmælið og þakkar samstarf og trausta liðveislu undanfarin ár.
„Hálendi Íslands á auðvitað að verða þjóðgarður“.
Vigdís Finnbogadóttir um hjarta landsins, miðhálendi Íslands.