Viljum við erfðabreytt matvæli?” er yfirskrift málþings sem haldið verður
laugardaginn 8. maí nk. kl 13:30 – 16:30 á Grand Hótel Reykjavík. Það eru
Verndun og ræktun – VOR – félag framleiðenda í lífrænum búskap,
Neytendasamtökin og áhugahópur neytenda sem standa að þessu málþingi.
Á undanförnum mánuðum hafa spunnist talsverðar umræður hér á landi um
erfðabreyttar lífverur og afurðir þeirra, m.a. vegna áforma um stórfellda
ræktun á erfðabreyttu lyfjabyggi. Á málþinginu gefst áheyrendum kostur á að
hlíða á framsöguerindi um ýmis álitamál sem Íslendingar standa nú frammi
fyrir í þessum efnum: Hvaða áhættur fylgja ræktun erfðabreyttra afurða og
hvaða heilsufarsáhætta kann að fylgja neyslu þeirra? Hvers vegna njóta
íslenskir neytendur ekki sömu lögverndar hvað merkingar erfðabreyttra afurða varðar eins og neytendur í nágrannalöndunum? Hver ber ábyrgð á tjóni sem erfðabreytt framleiðsla kann að valda þeim sem ekki vilja framleiða eða neyta slíkra afurða? Eru aðrir valkostir vænlegri fyrir íslenska bændur og neytendur?
Erfðabreytt ræktun matvæla hefur nú verið stunduð í Norður Ameríku um átta
ára skeið. Nú er reynslan af þessari framleiðslu að koma í ljós og
rannsóknum á umhverfis- og heilsufarsáhrifum hennar fjölgar jafnt og þétt.
Verið er að herða löggjöf um þessi mál austan hafs og vestan. Ísland þarf
að fylgjast grannt með þessari framvindu og flýta sér hægt ef tryggja skal
valfrelsi neytenda og hafa varúðarregluna að leiðarljósi í umhverfis- og
heilsufarslegum efnum.
Nánari upplýsingar veita: Guðfinnur Jakobsson bóndi í lífrænni ræktun (símar
486 6002 og 866 0881), Jóhannes Gunnarsson formaður Neytendasamtakanna (í símum 545 1203 og 897 5008) og Þórður Halldórsson formaður Vors – félags framleiðenda í lífrænni ræktun (símar 486 8983 og 891 8983).