Grein eftir Snæbjörn Guðmundsson, fyrrum formann Landverndar.
Íslendingar eru vörslumenn 42% af villtustu víðernum Evrópu. Víðerni Íslands eru einstök á heimsmælikvarða og þarfnast verndar, bæði náttúrunnar vegna og okkar sjálfra
Greinin er sú fyrri af tveimur um íslensk víðerni í alþjóðlegu samhengi og ábyrgð Íslendinga sem vörslumanna 42% af allra villtustu víðernum Evrópu. Víðerni Íslands eru einstök á heimsmælikvarða og þarfnast verndar, bæði náttúrunnar vegna og okkar sjálfra.
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum þann 15. febrúar 2019.
Maðurinn og víðernin
Maðurinn hefur frá alda öðli reynt að skilja sig frá náttúrunni og ná valdi yfir henni. Það er á margan hátt hluti af tilveru okkar sem dýrategundar að brjóta undir okkur gangverk náttúrunnar en síðustu aldir hefur valdið aukist í sífellu og nú eru afleiðingar þess að koma í ljós um víða veröld. Um leið eru menn að átta sig aftur á því að þeir eru hluti af náttúrunni og finna æ betur til aðdráttarafls hennar. Þar hafa óbyggðir og villt víðerni einna mesta gildið, bæði í sjálfum sér, sem lítt eða ósnortin náttúruleg kerfi, þar sem ferli náttúrunnar fá að þróast og vinda sér fram án afskipta mannsins, en einnig hafa óbyggðirnar sérstakt gildi fyrir okkur mannfólkið því við virðumst hafa meðfædda þrá eftir einveru og kyrrð ósnortinnar náttúru.
Í óbyggðum er hægt að njóta náttúrunnar án truflunar, til dæmis af umferð vélknúinna ökutækja og því eru þau afar mikilvæg fyrir náttúruupplifun mannsins. Það má kannski best merkja á því gríðarmikla aðdráttarafli sem óbyggð víðerni hafa fyrir náttúruferðamennsku út um allan heim. Og þar gildir að því ósnortnara eða villtara, þeim mun meira er gildi svæðanna fyrir ferðamenn. Á Íslandi kemur þetta fram í því að mikill meirihluti ferðamanna sem hingað koma nefna náttúruna sem aðalástæðu fyrir ferðalaginu.
Gengið hefur verið jafnt og þétt á villt og óbyggð víðerni, það sem kallað er „wilderness“ upp á ensku, í nútímanum. Óbyggð víðerni hafa þannig skroppið ógnvænlega saman síðustu áratugi um allan heim og er ástandið orðið svo alvarlegt víða um lönd að fá eða engin slík eru eftir í heilu þjóðríkjunum. Í Evrópu er verið að reyna að snúa þróuninni við með endurheimt óbyggðra og villtra náttúrusvæða en eðlilega mun taka langan tíma, jafnvel mannsaldra, að gera þau jafnvillt og þau hefðu verið frá náttúrunnar hendi. Sem dæmi um hve langt manngerving umhverfisins hefur gengið þá finnast nú fá ósnortin vatnsföll í Mið-Evrópu, sem ekki hafa verið stífluð eða umturnað á einhvern hátt. Og jafnvel á tímum vitundarvakningar um náttúruna fækkar þeim samt enn stöðugt ár frá ári í álfunni, sem og raunar um allan heim, einkum vegna ágangs og ásóknar iðnaðar í náttúruauðlindir. Þessari miklu óheillaþróun þarf að snúa við því án náttúrunnar og óbyggðra víðerna glötum við bæði stórum hluta af sjálfi okkar sem viti borinnar dýrategundar en einnig missum við frá okkur ótal auðlindir og tækifæri sem við getum aðeins sótt í óspillta og hreina náttúru.
Íslensk víðerni
Hér á Íslandi hefur náttúruvernd löngum snúist um hrein og klár viðbrögð við sókn orkufyrirtækja og annarra inn á ósnortin svæði þar sem vatnsföll og margs konar náttúruperlur liggja undir. Því miður hefur oft gengið erfiðlega að koma náttúruverndinni í það horf að vera fyrirbyggjandi, þar sem svæði eru friðlýst áður en sú hætta kemur upp að þau verði eyðileggingu að bráð. Mikilvægur hluti slíkra aðgerða væri að leggja til friðlýsingu stórra óbyggðra og villtra svæða, svokallaðra „óbyggðra víðerna“.
Samkvæmt 5. grein náttúruverndarlaga frá 2013 eru „óbyggð víðerni“ skilgreind sem „svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum.“ Friðlýsa má stór landsvæði þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum og á friðlýsingin að miða að því að varðveita einkenni svæðisins. Þetta á sér alþjóðlega skírskotun en óbyggð víðerni samsvara flokki Ib, óbyggðir (e. wilderness area), í flokkunarkerfi IUCN, Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna. Til flokks Ib teljast svæði sem venjulega eru stór og bera jafnan óveruleg sýnileg ummerki um umsvif mannsins. Þar er ekki varanleg eða umtalsverð búseta og verndun og stjórnun svæðanna miðar að því að varðveita náttúrulegt ástand þeirra. Samkvæmt gildandi íslenskum náttúruverndarlögum eru engar gildar ástæður fyrir því að óbyggð víðerni séu eingöngu í ríkiseign, líkt og meginreglan er með þjóðgarða, en stór landsvæði á Íslandi eru í einkaeign. Ekkert er því til fyrirstöðu að friðlýsa óbyggð víðerni í einkaeign.
Óbyggð víðerni á Íslandi sem uppfylla viðmið um lágmarksstærð eru um eða yfir 50 talsins en svæðin eru eðlilega verðmætari eftir því sem þau eru stærri. Stærstu óbyggðu víðerni landsins hafa frá upphafi byggðar verið á miðhálendinu enda hefur lítið verið þangað að sækja fyrir flesta og erfitt með samgöngur. Því hafa þau lítið spillst af ágangi mannsins. Hálendið hefur þó síðan um miðja síðustu öld verið klofið af vegaslóðum um Kjöl og Sprengisand, og síðustu áratugi hafa frekari vegagerð, stórvirkjanaframkvæmdir og raflínulagnir bútað víðernin þar enn frekar niður. Enn eru þó víðfeðm óbyggð víðerni á miðhálendinu, einkum umhverfis stóru jöklana fjóra, Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul.
Utan miðhálendisins eru hins vegar miklu færri og minni óbyggð víðerni. Þau umfangsmestu utan hálendisins liggja á Norðausturlandi, á heiðunum upp af Þistilfirði og Bakkaflóa, en næststærstu óbyggðu víðernin eru nyrst á Vestfjörðum, umhverfis Drangajökul og á Hornströndum. Þetta svæði er nefnt Drangajökulsvíðerni (kort 1) í nýútkominni skýrslu, sem ráðgjafastofan Environice tók saman fyrir náttúruverndarsamtökin ÓFEIGU. Samfelld óbyggð víðerni umhverfis Drangajökul norður um Hornstrandafriðland eru um 1.430 km2, eða 1,4% af flatarmáli Íslands.
Íslensk víðerni í alþjóðlegu samhengi
En vægi óbyggðra víðerna felst ekki bara í stærð einstakra svæða heldur er ekki síður mikilvægt að leggja einhvers konar mat á gæði þeirra, til dæmis hvað varðar fjölbreytileika náttúrugæða og mannlífsminja eða fjarlægð frá byggðum og umferðarþungum vegum. Því miður er vinna hér á landi við að kortleggja og meta á skipulegan hátt gæði íslenskra víðerna allt of skammt á veg komin og engin opinber íslensk gögn hafa verið gefin út um þetta mikilvæga atriði.
Sem betur fer má nýta alþjóðleg gögn í faglega og hlutlæga umfjöllun um íslensk víðerni. Árið 2013 kom út viðamikil skýrsla um óbyggð víðerni í Evrópu sem nefnist Wilderness register and indicator for Europe (Kuiters o.fl. 2013). Þetta er fyrsta samevrópska verkefnið þar sem tekið er saman heildaryfirlit yfir hversu villt Evrópa er. Öll Evrópa utan austasta hlutans (Rússlands, Hvíta-Rússlands, Úkraínu, Móldóvu og Kákasuslandanna) var kortlögð á samræmdan hátt og mat lagt á fjóra þætti sem saman gefa ákveðinn mælikvarða á hversu villt náttúran er á hverjum stað í álfunni. Þessir þættir eru (1) náttúrulegt ástand lands, (2) fjarlægð frá byggð og öðrum manngerðum þáttum, (3) aðgengi að viðkomandi landsvæði og (4) hversu greiðfært landslagið er. Landsvæði álfunnar var skipt upp í eins ferkílómetra reiti og fékk hver reitur stig eftir matsþáttunum fjórum sem svo var steypt í eina tölu á skalanum 0-100. Allt landsvæði Evrópu var metið, ekki aðeins óbyggð víðerni, en það var gert til að bera saman heildarþurrlendi álfunnar, bæði þau svæði sem þegar eru friðuð en líka til að draga fram svæði sem eru verðmæt en hafa ef til vill ekki enn verið friðuð.
Niðurstöður matsins sjást á kortum 2a og 2b (European Wilderness Continuum Map) og sést greinilega á þeim hversu villt Ísland er í samanburði við meginland Evrópu. Á fyrra Evrópukortinu táknar blái liturinn þau svæði sem eru metin hæst í álfunni en gráu svæðin þau sem eru metin lítið eða ekki villt.
Á seinna kortinu eru svo dregin fram þau svæði sem eru allra villtust í álfunni, þannig að dökkbleiku reitirnir tákna villtasta 1% af heildarlandsvæði álfunnar, millibleikir reitir tákna villtustu 5% og ljósbleikir reitir eru villtustu 10%.
Á Evrópukortinu sést mjög vel að Ísland er að stórum hluta í efstu prósentunum þegar kemur að greiningu villtra svæða í álfunni.
Þetta sést raunar enn betur ef Ísland er skoðað í hærri upplausn (kort 3a og 3b). Þessi samanburður bendir til þess að stór hluti allra villtustu víðernanna sé á Íslandi.
Náttúruverndarsamtökin ÓFEIG óskuðu eftir útreikningi á því hjá einum skýrsluhöfunda, hversu stórt hlutfall er um að ræða. Svarið er að af 56.810 km2 villtustu víðerna í Evrópu (svæðin sem eru dökkbleik á korti 2b og 3b, villtasta 1% Evrópu) eru 24.063 km2 á Íslandi (óbirt gögn frá dr. Steve Carver). Íslendingar hafa því í vörslu sinni rúm 42% af allra villtustu víðernum Evrópu. Það er því ærin ástæða til að staldra við og spyrja: Hvað ætlum við að gera með þau? Eru þau friðlýst? Hvernig stöndum við að varðveislu þeirra?
Þótt fullnægjandi kortlagning hafi ekki enn farið fram á stærð, einkennum og gæðum stakra víðernasvæða á Íslandi er augljóst að víðernin hljóta að vera jafnmismunandi og þau eru mörg. Og þá vaknar auðvitað spurningin, eru sum íslensk víðerni ef til vill mikilvægari en önnur?
Drangajökulsvíðerni
Engum sem les þessa grein blandast væntanlega hugur um að styr stendur um þá hugmynd að virkja Hvalá á Ströndum og að virkjunarframkvæmdir ógna Drangajökulsvíðernum. Hvalárvirkjun sjálf og eyðilegging víðernanna vegna hennar eru þó ekki viðfangsefni þessarar greinar, heldur þeirrar næstu. Hins vegar þarf að ræða umbúðalaust hvers virði Drangajökulsvíðerni eru í hinu stóra samhengi. Hvernig standast þau samanburð við önnur víðerni á Íslandi eða í Evrópu, eða jafnvel heiminum?
Eins og fyrr segir eru Drangajökulsvíðerni næststærstu víðerni Íslands utan miðhálendisins. Stærðin segir þó ekki nema hálfa söguna. Í fyrsta lagi eru Drangajökulsvíðerni gríðarlega fjölbreytt að náttúrufari. Þar má finna jökullendi og iðjagræna grasi vaxna dali, jökulár og tær bergvatnsföll, fossa á heimsmælikvarða, heiðavötn og auðnir, misgengi, bergganga og heitar laugar, sendnar rekafjörur, sjávarlón og jafnvel einhver mestu standberg jarðar. Þau hafa nánast allt sem Ísland hefur upp á að bjóða í jarðfræðilegu tilliti nema helst sjálfa eldvirknina sem einskorðast við miðbik landsins. Lífríki Drangajökulsvíðerna er einnig fjölbreytt. Refurinn á þar griðasvæði, fuglar og smádýr trítla um mela og móa, æðarfugl og selur lóna úti fyrir landi og í björgunum liggur svartfugl. Hvítabirnir heimsækja svæðið við og við, jafnvel haförn og ekki er óhugsandi að uppi á heiðunum finnist snæugla, sem hefur við og við sést til á Ströndum. Vistgerðir eru margs konar enda landsvæðið fjölbreytt og stórt. Jafnvel heiðarnar eins og Ófeigsfjarðarheiði, sem sumir segja sviplitlar og lítilsverðar, gegna sínu mikilvæga hlutverki í gangverki náttúrunnar og eru órjúfanlegur hluti þessara miklu víðerna.
En það sem Drangajökulsvíðerni hafa þó umfram öll önnur stærstu víðerni Íslands eru ummerki um aldalangt samspil mannlífs og náttúru. Á víðernum miðhálendisins eru eðlilega lítil ummerki um forna mannvist. Hvað þetta varðar er ekki að finna önnur óbyggð víðerni sambærileg Drangajökulsvíðernum nema ef til vill á utanverðum Flateyjarskaga og á Víknaslóðum. Þau svæði eru þó bæði miklu minni umfangs og aðgengilegri á ökutækjum. Lakara aðgengi fyrir vélknúin ökutæki eitt og sér gerir Drangajökulsvíðerni verðmætari á öllum víðernismælikvörðum. Því eru þau í raun einstök á Íslandi. Þau eru eyðibyggðir, öfugt við víðerni miðhálendisins sem aldrei hafa verið í byggð. Umsvif mannsins á Ströndum hafa hins vegar lítið sett mark sitt á landið vegna þess hve nútíminn staldraði þar stutt við, svo landið er mjög ósnortið þrátt fyrir mannlífsminjarnar. Vegna þessa hafa Drangajökulsvíðerni gríðarlegt verndargildi – mjög lítt snortið svæði en með mikla og óhemju sérstæða sögu byggðar og mannlífs.
Mannlífsminjar
Landslag er ekki bara hið náttúrulega. Landslag á hverjum stað mótast í raun af heildarupplifun þess sem fer um landið. Það breytist með árstíðum, veðri og vindum, snjóalögum og skýjafari. Og upplifun okkar af landslagi nær jafnvel lengra en það. Sagan sjálf er hluti af landslaginu. Fólkið sem bjó á hverjum stað, þjóðleiðir og hlaðnar vörður, gamlir garðar og sagnir um forn kotbýli. Ósköp venjuleg heiðalönd geta litið allt öðruvísi út fyrir okkur ef við vitum að um þau lá forn þjóðleið milli byggðarlaga. Hverjir fóru þar um og af hverju? Eru þjóðsögur tengdar þjóðleiðinni, fórst kannski einhver þarna á heiðinni? Landslagið tekur þannig til allra okkar tilfinninga og minninga, þjóðsagnanna, jafnvel munnmæla og sjálfra örnefnanna. Allt fléttast þetta saman, og á Ströndum greypist þetta djúpt í vitund allra sem fara um svæðið.
Sögur fólks, minningar, gamlar þjóðleiðir. Í raun felst öll byggðasagan frá landnámi í landslaginu og svæðinu. Þarna hafa Drangajökulsvíðerni ótvíræða stöðu sem stærstu og mikilvægustu óbyggðu víðerni landsins ef horft er til mannlífsminja. Greinarhöfundur getur líka nánast fullyrt að allir sem fara um Drangajökulsvíðerni skynji ákaflega djúpt hið sérstaka samspil manns og náttúru þar í gegnum aldirnar. Norðurhluti Stranda (norðan við núverandi byggð í Árneshreppi) og Hornstrandir eru í eyði en menningarminjarnar blasa þar við, til vitnis um mjög sérstæða lífshætti þar sem menn nýttu hlunnindi sjávar öldum saman meðan hefðbundnir landkostir til búskapar voru mjög rýrir.
Fegurð svæðisins felst í þessu öllu saman, hvernig fjölbreytt og mikilfenglegt landslagið fléttast saman í hinu náttúrulega og mannlega, sem nú er horfið en liggur ennþá svo djúpt í kjarna svæðisins.
Víðerni á heimsmælikvarða
Vegna stærðar sinnar og villtrar náttúru eru Drangajökulsvíðerni í raun óþrjótandi uppspretta kyrrðarstunda fyrir hvern sem heimsækir þau. Mannlífsminjarnar eru nýtt lag ofan á önnur einkenni svæðisins og að ofangreindu sögðu er ekki óvarlegt að halda því fram að Drangajökulsvíðerni og Hornstrandafriðland séu í raun með allra mikilvægustu samfelldu víðernum landsins.
Og ef við lítum til Evrópu eða jafnvel heimsbyggðarinnar, hvernig standast þau samanburð? Eins og fyrr segir er stór hluti af villtasta prósenti Evrópu einmitt á Íslandi, eða rúm 42%, og af þeim eru 1-2% innan sjálfra Drangajökulsvíðerna. Mikilvægi Drangajökulsvíðerna á alþjóðlegum kvarða hrópar á okkur, þó ekki sé nema bara vegna þessa. Eru þetta ef til vill með allra mikilvægustu villtu víðernum Evrópu ef horft er til stærðar, náttúru og mannlífsminja? Það væri í það minnsta fróðlegt að bera slíkar vangaveltur undir sérfræðinga erlendis á þessu sviði.
Það er nefnilega óþægilega margt sem bendir til þess að við hér á landi höfum ekki fyllilega áttað okkur á því hvað við höfum í víðernunum umhverfis Drangajökul og norður á Hornströndum. Það er sem betur fer alls ekki of seint að snúa af þeirri furðulegu óheillabraut sem hefur verið mörkuð með áformum um Hvalárvirkjun. Í stað þess að fórna þessu mikilvæga og merka svæði fyrir framtíðarhluthafa og viðskiptavini HS Orku, væri réttara skref að óska eftir tilnefningu svæðisins á heimsminjaskrá UNESCO. Sunnan Vestfjarðarkjálkans hefur annað svipað svæði, Breiðafjörður, verið á lista yfir möguleg svæði til tilnefningar á heimsminjaskrána. Árneshreppur og eyðibyggðir Stranda eiga ekki síður heima þar, sem samfellt menningarlandslag horfinnar byggðar og síðustu útvarða mannlífs sem enn búa á Ströndum. Svæðið myndi falla vel að flokki (v) í viðmiðunarlista heimsminjanefndarinnar, sem á við svæði sem eru „framúrskarandi dæmi um hefðbundna byggð manna, landbúnað þeirra eða sjósókn og einkennandi fyrir menningarsamfélag eða fyrir umsvif manna í umhverfi sínu, sérstaklega ef þeim umsvifum er hætta búin og þau á hverfanda hveli.“
Umheimurinn og ókomnar kynslóðir Íslendinga yrðu okkur vafalaust ævinlega þakklát fyrir björgun Drangajökulsvíðerna frá virkjun og eyðileggingu. Ábyrgð okkar sem ráðum örlögum svæðisins, hvort það verði eyðilagt með virkjun eða verndað til framtíðar, er mikil. Með friðlýsingu og jafnvel tilnefningu svæðisins til heimsminjaskrár mætti beina athygli ferðamanna að svæðinu svo um munar og yrði slíkt margfalt sterkari leikur í björgun byggðar í Árneshreppi heldur en virkjun gæti nokkurn tíma orðið.
Í seinni grein minni um þetta mál, mun ég fjalla um það hvort óbyggð víðerni útiloki fólk og mannvirki. Ég mun vonandi líka geta sagt frá jákvæðum viðbrögðum stjórnvalda við umleitan um að leggja aukinn þunga í að vernda íslensk óbyggð víðerni í samræmi við verðmæti þeirra í alþjóðlegu samhengi. Ég mun fjalla um málefnið fyrst og fremst út frá hugmyndum um Hvalárvirkjun á Ströndum, sem ógna verulega einhverjum allramerkilegustu óbyggðu víðernum landsins, og sýna fram á hver raunveruleg skerðing víðerna yrði af virkjuninni, út frá bestu fáanlegu upplýsingum.
Ég vil þakka dr. Steve Carver við Háskólann í Leeds fyrir gagnlegar upplýsingar við ritun þessarar greinar.
Höfundur er jarðfræðingur, höfundur bókarinnar Vegvísir um jarðfræði Íslands og stjórnarmaður í ÓFEIGU náttúruvernd.