Vindorkuver eiga heima í rammaáætlun

Vindorkuver
Markmið rammaáætlunar er að skoða hvort orkunýting á ákveðnu svæði er fýsilegri en vernd svæðisins. Vindorka er þar ekki undanskilin.

Öll orkunýting á erindi í rammaáætlun, enda er markmið laga um orkunýtingu og vernd landssvæða að skoða hvort orkunýting á ákveðnu svæði er fýsilegri en vernd svæðisins. Vindorka er þar ekki undanskilin þrátt fyrir að lögin hafi verið sett áður en vindorkukostir komu til tals á Íslandi.

Umhverfisáhrif vindorkuvera eru gífurleg

Mikilvægt er að þetta sé öllum ljóst og ekkert vafamál hvert gildissvið laganna er. Það hefur dregist hjá Alþingi að taka af skarið og breyta lögum 48/2011 þannig að skýrar sé kveðið á um þetta. Umhverfisáhrif vindorkuvera eru gífurleg og óafturkræf; á gróður, fugla, jarðveg, jarðmyndanir, landslag og ásýnd.

Hvar er stefnan?

Nýting vindorku á sér ekki langa sögu á Íslandi, og alls enga í formi stórra vindorkuvera eins og eru til umfjöllunar eru í rammaáætlun III og IV. Að mati stjórnar Landverndar er grunnforsenda þess að ráðast í uppbyggingu og þróun vindorkuvera á Ísland að heildarskipulag og viðmið eða reglur séu til staðar um hvar og á hverskonar stöðum ásættanlegt sé að reisa slíka ver, hvaða stærðir og fjöldi vindmylla séu ákjósanlegar við mismunandi aðstæður. Slíka stefnumörkun og lagasetningu skortir en þau myndi auðvelda verkefnisstjórn flokkun vindorkuvera.

Vindorkuver í biðflokk!

Að mati Landverndar er ekki forsvaranlegt að raða neinum vindorkuverum í orkunýtingarflokk á meðan ekki er til heildræn stefna um nýtingu vindorku í landinu. Skynsamlegt er að hugmyndir um vindorkuver verði settar í biðflokk á meðan sú vinna fer fram.

Alþingi verður að taka af allan vafa um gildissvið laga um orkunýtingu og vernd þegar kemur að vindorkuverum.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd