Virkjum og virkjum… grasrótina!

Niðurstöður könnunar sem gerð var meðal félagsfólks á árinu 2018, landvernd.is
Þetta fimmtugasta starfsár Landverndar hefur snúist mikið um að virkja grasrót samtakanna. Þó við glímum við máttuga risa getum við sem samtök með yfir 5000 félagsmenn veitt kröftugt aðhald og talað sterkri röddu fyrir náttúruna og komandi kynslóðir. Á liðnum vetri hefur markvisst verið unnið að því að leyfa rödd félagsfólks að heyrast.

Þetta fimmtugasta starfsár Landverndar hefur snúist mikið um að virkja grasrót samtakanna. Þó við glímum við máttuga risa getum við sem samtök með yfir 5000 félagsmenn veitt kröftugt aðhald og talað sterkri röddu fyrir náttúruna og komandi kynslóðir. Á liðnum vetri hefur markvisst verið unnið að því að leyfa rödd félagsfólks að heyrast.

Fyrst var send könnun á félagsfólk þar sem spurt var um forgangsröðun viðfangsefna og ánægju með starf og sýnileika samtakanna. Svarhlutfall var 17% sem gaf góða mynd af vilja félagsmanna. Bæði var um opnar spurningar að ræða og valmöguleikaspurningar. Aldurs- og búsetudreifing svarenda var í samræmi við aldurs- og búsetudreifingu félagsfólks.

Rúmlega helmingur þeirra sem svöruðu vildu virkari aðkomu að starfi samtakanna. Það eru frábærar fréttir enda næg verkin sem þarf að vinna við umhverfisvernd á Íslandi.

Yfirgnæfandi meirihluti var ánægður með starf samtakanna eða 83% en 1,6% voru óánægð. Þá kom fram í könnuninni að nokkrum þóttu samtökin ganga of hart fram og vera of kæruglöð en um 39% aðspurðra vildu þó að samtökin sinntu náttúruvernd með málssóknum og kærum. Félagsfólk var beðið um að velja tvö áhersluatriði af fimm sem það vildi helst að Landvernd beitti sér fyrir og má sjá niðurstöður á meðfylgjandi mynd.

Eftir úrvinnslu á niðurstöðum könnunarinnar héldu samtökin stefnumótunarfund með félagsmönnum þar sem megináherslan var á þau viðfangsefni sem samtökin skyldu sinna til næstu þriggja starfsára. Vel var mætt á fundinn en um 60 félagsmenn gáfu af tíma sínum þennan laugardag. Margar skemmtilegar hugmyndir komu fram og var merkilega skýr samhljómur meðal fundargesta. Eins og í spurningakönnun til félagsfólks var sterk áhersla á að samtökin sinntu fræðslu og vitundarvakningu. Í lögum félagsins er gert ráð fyrir að aðalfundur samþykki stefnu þess og verður niðurstaða stefnumótunarfundar 2019 því lögð fyrir aðalfund.

Á fundinum kom skýrt fram að margt Landverndarfólk hefur áhuga á að koma meira að starfi samtakanna og snéru margar tillögur stefnumótunarfundarins að því að setja á fót málefnahópa. Nú þegar hafa tveir slíkir hópar farið af stað, annars vegar aðgerðarhópur í loftslagsmálum og hins vegar hálendishópur. Þeir hafa báðir byrjað á sínum fyrstu verkum og eru opnir öllum í Landvernd. Á næsta starfsári verða fleiri málefnahópar settir á í samræmi við þá stefnu sem aðalfundur samþykkir til næstu þriggja ára.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd