Yfirlýsing aðalfundar Vina Þjórsárvera

Kjalölduveita á heima í verndarflokki rammaáætlunar

Aðalfundur félagsins Vinir Þjórsárvera, haldinn 24. nóvember 2025, kallar eftir því að ráðherra umhverfis-, loftslags- og orkumála beiti faglegum vinnubrögðum við framkvæmd rammaáætlunar.

Virkjunarhugmyndin Kjalölduveita (555 m.y.s.) hefur tvívegis verið tekin til umfjöllunar innan rammaáætlunar og í bæði skiptin verið talin eiga heima í verndarflokki þar sem svæðið sem um ræðir sé eitt hið verðmætasta á Íslandi og áhrif hugmyndarinnar í megin atriðum þau sömu og af Norðlingaölduveitu, sem Alþingi á sínum tíma setti í verndarflokk. Í tveimur lögfræðilegum greinargerðum hefur verið komast að þeirri niðurstöðu að matsferlið hafi verið í góðu samræmi við lög og vinnureglur rammaáætlunar.

Ráðherra hefur í samráðsgátt lagt til þá breytingu á tillögum verkefnisstjórna að Kjalölduveita verði enn einu sinni tekin til mats. Sú tillaga er ekki studd haldbærum rökum, hvað þá faglegum rökum. Gangi áform ráðherra eftir yrði það gengisfelling á rammaáætlun. Kjalölduveita hefur verið sett í verndarflokk í þrígang með haldbærum faglegum rökum. Ekkert nýtt hefur komið fram sem réttlætir aðra niðurstöð.

Ráðherra hefur í erindi sínu í samráðsgátt sagt að það sé  ekki lögbundin skylda hans að færa rök fyrir tillögum sínum. Það vekur furðu að ráðherra telji að hann þurfi ekki að færa rök fyrir tillögum sínum nema það sé tilgreint í lögum. Ráðherravaldi fylgir mikil ábyrgð og gera verður þá kröfu að fyrir tillögum og ákvörðunum ráðherra séu færð haldbær rök.

Tillagan að taka Kjalölduveitu úr verndarflokki virðist afleiðing pólitískrar þráhyggju og þrýstings frá orkugeiranum. Rammaáætlun byggir á faglegum og yfirveguðum vinnubrögðum að hálfu verkefnisstjórnar. Gera verður sömu kröfu til valdhafa. Að taka tillögu um Norðlingaölduveitu/Kjalölduveitu til fjórðu umfjöllunar og mats án þess að fyrir því séu færð haldabær rök er algjörlega á skjön við markmið rammaáætlunar um fagleg vinnubrögð.

Um áhrif Kjalölduveitu

Raungerist Kjalölduveita yrði árfarvegi Þjórsár raskað og röskun vegna virkjana sem fram til þessa hefur verið bundin við landið austan árinnar færist yfir á vesturbakkann. Í anddyri veranna yrði komið fyrir nýju gruggugu uppstöðulóni og vatn tekið af Dynk, einum glæsilegasta fossi landsins, og tveimur öðrum fögrum stórfossum Þjórsár, Gljúfurleitarfossi og Kjálkaversfossi (einnig nefndur Hvanngiljafoss). Með Kvíslaveitu og Kjalölduveitu yrði að meðaltali eftir um 27% af náttúrulegu rennsli um Dynk.  Það yrði því lítið eftir að ljóma og afli fossanna í efri hluta Þjórsár gangi áform Landsvirkjunar eftir. Minnkandi rennsli dregur einnig úr mætti Þjórsár við sauðfjárveikivarnir.

Upplifun á víðerni hálendisins vesta Þjórsár, norðan Sultartangalóns, yrði gjörbreytt. Stórkallaleg mannvirki munu blasa við og stór lónstæði fyllir hluta árfarvegar og inn á vesturbakka rétt við Eyvafen. Tækifæri til að vernda verðmæt víðerni glatast.

Því var lengi trúað að Landsvirkjun myndi ekki sækjast eftir mannvirkjum á vesturbakka efri hluta Þjórsár þegar búið var að veita heimild til að veita vatni af austurbakkanum með Kvíslaveitum. Annað hefur komið á daginn.

Dyrnar til að reisa frekari mannvirki vestan við Þjórsá verða opnaðar verði Kjalölduveita að veruleika. Reynslan og veruleikinn um framvindu virkjana á Þjórsársvæðinu er að ekki verður staldrað við þegar opnað hefur verið inn á vesturbakka efri hluta Þjórsár. Þá verður sagt „svæðið hefur þegar verið raskað og  því  er óhætt að taka meira vatn“.  Sóknin í frekari virkjanir tekur ekki enda við þetta áformaða skref. Þessa vegferð verður því að stoppa hér.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd