Úrskurðanefnd umhverfis- og auðlindamála var sett á í kjölfar innleiðingar Árósasamningsins. Hún á að tryggja almenningi og samtökum þeirra skýlausan kærurétt í málefnum umhverfisins. Nefndin er sjálfstæð og óháð stjórnvöldum og kæruleiðin kemur í stað dómstólaleiðar skv. Árósasamningnum. Annmarkar á umhverfismati framkvæmdaraðila eru fyrst kæranlegir við útgáfu leyfa.
Nýjasta útspil ríkisstjórnar Íslands og Alþingis að breyta lögum í kjölfar niðurstöðu úrskurðanefndarinnar er klár misbeiting valds. Lögum er breytt vegna hagsmuna tveggja fyrirtækja í miklum flýti án nokkurrar umræðu eða möguleika til umsagna. Með þeim gjörningi eru tvær stoðir Árósarsamningsins brotnar: réttur almennings til þátttöku í undirbúningi ákvarðana og skylda ríkja til að tryggja almenningi réttláta málsmeðferð í málum sem varða umhverfið.
Takmarkaðir möguleikar umhverfisverndarsamtaka til þess að tryggja að farið sé að lögum í málefnum umhverfisins hafa verið að engu gerðir í þessu máli. Verði þetta málalok er ljóst að fordæmi er komið sem löggjafinn getur nýtt sér í framtíðinni til að snúa við úrskurðum hinnar óháðu úrskurðarnefndar, sé þrýstingur annarra hagsmuna nógu mikill.
Á 100 ára afmæli fullveldisins er kominn tími til þess að Íslendingar taki náttúru- og umhverfisvernd alvarlega. Ein mesta ábyrgð fullvalda ríkja er að viðhalda og vernda eigin náttúru og auðlindir til þess að komandi kynslóðir geti notið ávaxta þeirra eins og þær sem nú ráða. Lágmark er að bera virðingu fyrir þeim lögum og reglum sem þó eru við lýði.
Það er við hæfi að enda þessa yfirlýsingu á tilvitnun í þáverandi framkvæmdastjóra Landverndar og Umhverfisráðherra núverandi ríkisstjórnar varðandi hliðstætt mál frá 2016: „Það sem að forsætisráðherra boðaði í gær, er í rauninni að fikta í löggjöfinni eftir á þannig að niðurstaða þessa óháða úrskurðaraðila sé líklegri til að henta málstað ríkisstjórnarinnar. Þetta er náttúrulega að okkar mati, með öllu ólíðandi í lýðræðisþjóðfélagi“