Ákvörðun um varanlega tæmingu Árbæjarlóns, inntakslónið fyrir gömlu Elliðaárvirkjunina, er umdeild ef marka má umræður. Málið hefur vakið sterkar tilfinningar og viðbrögð. Það er í sjálfu
sér fagnaðarefni að íbúar láti sig varða sitt nánasta umhverfi. Umræðan undirstrikar einnig hve mikilvægt það er að undirbúa vel, kynna og ræða ákvarðanir er varða umhverfis- og náttúruverndarmál, áður en til framkvæmda kemur. Aðgangur almennings og félagasamtaka að ákvörðunartöku er varðar náttúru og umhverfi er tryggður í Árhúsarsamningum, sem Ísland hefur undirgengist en stjórnvöld hafa tregast við að lögbinda þær skuldbindingar.
Fram hefur komið að það er ekki lengur þörf fyrir inntakslónið sem lengi vel veitti ljós og orku til Reykvíkinga og að sögufræg orkumannvirki verða varðveitt og gerð aðgengileg fyrir almenning.
Með tæmingu lónsins tekur umhverfið miklum breytingum fyrir mannlífið, en einnig fyrir búsvæði fugla. Breytingar í fuglalífi vekja eftirsjá og eðlilegar áhyggjur þeirra sem um langan tíma hafa fylgst með og notið þess sem verið hefur. Væntanlega koma nýjar tegundir fugla í stað þeirra sem hverfa. Bætt heilbrigði árvistkerfisins er þó ekki síður mikilvægt fyrir upplifun fólks og tengsl þeirra við staðinn, sem gefur okkur jafnframt tækifæri til að fylgjast með náttúrulegri framvindu svæðisins og því lífríki sem því fylgir.
Frá sjónarhóli Landverndar, landgræðslu- og náttúruverndarsamtaka Íslands, er það jákvætt að reynt er með þessari framkvæmd að endurheimta það sem má kalla náttúrulegt ástand svæðisins. Lífið í vatninu gæti þá færst nær upprunalegu ástandi. Það sem nú er verið að gera í Elliðaánum er í góðu samræmi við alþjóðlega strauma þar sem reynt er að færa ár í fyrra horf og endurreisa vistkerfi. Væntanlega eigum við eftir að sjá fleiri dæmi um þetta á Íslandi í framtíðinni.
Stjórn Landverndar