Sigurvegarar 2022 – Skoðaðu verkefnin – Umhverfisfréttafólk

Sigurverkefni Umhverfisfréttafólks 2022, landvernd.is
Ungt umhverfisfréttafólk miðlar fréttum og upplýsingum um umhverfismál á fjölbreyttan máta. Sigurvegarar í samkeppninni Umhverfisfréttafólks 2022.

Ári hverju býðst ungu fólki í grunn- og framhaldsskólum að taka þátt í samkeppni á vegum Landverndar.

Samkeppnin ber heitið Umhverfisfréttafólk og snýst um að koma umhverfismáli að eigin vali á framfæri við almenning með fjölbreyttum leiðum.

Fjölmörg verkefni bárust í keppnina, voru þau af ólíkum toga og komu frá skólum víðsvegar af landinu.

Dómnefndina í ár skipuðu Hólmfríður María Ragnhildardóttir blaðakona hjá Mbl, Aldís Amah Hamilton leikkona og Lóa Pind leikstjóri og framleiðandi sjónvarpsþátta.

Ungir umhverfissinnar og Landssamtök íslenskra stúdenta veittu einnig sérstök verðlaun fyrir flokkinn Val unga fólksins. Í þeirri dómnefnd voru Kolbrún Lára Kjartansdóttir, Varaforseti LÍS og Kolbrún Fríða Hrafnkelsdóttir Hringrásarhagkerfisfulltrúi UU.

Vegleg verðlaun voru veitt m.a. peningaverðlaun, gjafakort og umhverfisvænar vörur.

Framhaldsskólar

Í FYRSTA SÆTI

Borðspil

Grænópólý - Grænir puttar

Guðmundur Berg Markússon, Hjalti Freyr Hjaltason, Daníel Ingi Eyjólfsson, Ívar Patrick Lefort Steinarsson og Sigurður Kári Söndruson, Tækniskólinn. 

Umsögn dómnefndar

Í spilinu er húmorinn hafður að vopni til að vekja athygli á umhverfismálum. Höfundar taka Monopoly – táknmynd gróðahyggju og kapítalisma í spilaheiminum – og snúa því á haus sem er áhrifarík ádeila. Því það er gott og blessað að miðla fræðslu – en kúnstin er að fá fólk til að meðtaka boðskapinn – kúnstin er að fá fólk til að hlusta, lesa, horfa á – nú eða spila – það sem maður vill koma á framfæri. Það er ekki öllum gefið – en ykkur tókst það.

Verkefni hlaut einnig verðlaunin Val unga fólksins

 

Umsögn ungliðadómnefndar

Verkefnið er virkilega skemmtilegt, einstakt, og hressandi nýjung í umhverfis-umræðuna. Við teljum að það er vel hægt að þróa hugmyndina frekar. Það er ljóst að mikil hugsun og samvinna fór í að útbúa spilið m.a. við að útbúa spilið sjálft, spjöldin og textann sem fylgir þeim. Verkefnið fær sérstakt hrós fyrir að nota umhverfisvænt plast í þrívíddarprentara til þess að útbúa leikmennina, húsin og hótelin. Þessi endurgerð á hinu klassíska Monopoly sameinar skemmtun og fræðslu í nýrri og umhverfisvænni útgáfu. 

Í ÖÐRU SÆTI

Arna Maren Jóhannesdóttir, Júlía Maren Guðnadóttir, Sara Dögg Örvarsdóttir. Menntaskólinn við Sund

Umsögn dómnefndar

Höfundar vefsíðunnar taka á því stóra vandamáli sem fatasóun skapar í alþjóðasamfélaginu og leggja mikinn metnað í að kafa ofan í málið frá mörgum hliðum – auk þess að sýna okkur leiðir til að koma betur fram við fötin okkar og þar með jörðina. Vefsíðan er í senn upplýsandi og ítarleg. 

Þriðja sæti

Emilía Rós Guðjónsdóttir. Menntaskólinn á Egilsstöðum.

Umsögn dómnefndar

Vefurinn um matarsóun á heimilum er vel upp settur, fallega hannaður, fræðandi og lausnamiðaður. Vefurinn er hvetjandi fyrir almenning og aðgengilegur. 

Grunnskólar

Í fyrsta sæti

Una Sóley Gísladóttir, Hrafnhildur Anna Árnýjardóttir, Katla Mist Bragadóttir, Sara Sigurrós Hermannsdóttir , Meida Medvedevaitė. Vogaskóli.

Umsögn dómnefndar

Bókin hvetur almenning til dáða og er aðgengileg og áhrifarík. Hún sýnir okkur að það þarf ekki að vera flókið að breyta hversdagslegum gjörðum okkar til þess að stuðla að jákvæðum umhverfisáhrifum. Boðskapurinn er skýr, einfaldur og jákvæður. Aðalpersónu bókarinnar er auðvelt að tengja við og við erum örugglega öll Kalli stundum. 

Verkefni hlaut einnig verðlaunin Val unga fólksins

Umsögn ungliðadómnefndar

Bókin er fallega sett upp með sjónrænum vísbendingum um leiðir til að leiða umhverfisvænni lífstíl. Bókinni tekst að útskýra flókin umhverfisvandamál á einfaldan hátt með sögunni um Kalla. Bókinni tekst að vekja lesandann til umhugsunar.

Í öðru sæti

Maja Kornelia Cur, Embla Hrönn Halldórsdóttir og Fatima Secka. Vogaskóli.

Umsögn dómnefndar

Bókin varpar fram þeirri hugmynd að neysluhyggja sé samofin óhamingju. Hún hvetur lesanda til umhugsunar um það sem skiptir máli í lífinu og bendir á að mikilvægar stundir eru yfirleitt dýrmætari en peningar. Hún er hugvekjandi, snjöll og aðgengileg. 

Í þriðja sæti

Ingibjörg Erla Sigurðardóttir Garðaskóli.

Umsögn dómnefndar

Instagram vefurinn er mjög fallegur og vel upp settur. Stíllinn er grípandi og tekið er á gríðarlega stóru vandamáli þar sem almenningur getur sannarlega látið til sín taka. 

Taktu þátt á næsta ári!

Um leið og við óskum öllum vinningshöfum til hamingju með vel unnin verkefni þá má nefna að fjölmörg önnur frábær verkefni bárust í keppnina, þakkar Landvernd öllum fyrir þátttökuna. 

Grunn- og framhaldsskólar geta skráð sig til leiks fyrir næstu önn.

Horfðu á Uppskeruhátíðina 2022

Tengt efni

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd