Grænavatnsganga

Í tilefni af aldarminningu Sigurðar Þórarinssonar
Þann 8. janúar 2012 verða liðin 100 ár frá fæðingardegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins ástsælasta vísindamanns þjóðarinnar á síðustu öld. Á þessum degi ætla félög og samtök sem tengjast náttúruvísindum, náttúruvernd og útiveru að efna til blysfarar kringum Grænavatn í Krýsuvík. Dagskrá hefst kl. 15 við Grænavatn.
í tilefni af aldarminningu Sigurðar Þórarinssonar 8. janúar

Þann 8. janúar 2012 verða liðin 100 ár frá fæðingardegi Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins ástsælasta vísindamanns þjóðarinnar á síðustu öld. Á þessum degi ætla félög og samtök sem tengjast náttúruvísindum, náttúruvernd og útiveru að efna til blysfarar kringum Grænavatn í Krýsuvík. Dagskrá hefst kl. 15 við Grænavatn.

Farið verður með rútu frá skrifstofu Ferðafélags Íslands, Mörkinni 6, kl. 14, sunnudaginn 8. janúar. Fargjald er kr. 1000 og greiðist við brottför. Þeir sem fara á einkabílum greiða ekki gjald. Þátttakendum í gönguferðinni eru útveguð blys en fólk er einnig hvatt til að taka með sér eigin blys eða kyndla. Ekið er sem leið liggur úr Hafnarfirði eftir Krísuvíkurvegi, framhjá Kleifarvatni og Seltúni að Grænavatni sem er á vinstri hönd.

Það var haustið 1949 sem Sigurður flutti tímamótaerindi á fundi Hins íslenska náttúrufræðifélags, þar sem hann hvatti til þess að sett yrði löggjöf um náttúruvernd á Íslandi. Dropinn sem fyllti mælinn var umgengnin við Grænavatn sem hann sagði að notað væri sem ruslatunna vegna framkvæmda rétt hjá vatninu. Búið væri að fordjarfa þetta fallega og merkilega náttúrufyrirbæri.

Erindið vakti mikla athygli og þáverandi menntamálaráðherra, Eysteinn Jónsson hafði samband við Sigurð og bað hann að taka sæti í nefnd til að undirbúa löggjöf um náttúruvernd. Fyrstu lög um náttúruvernd á Íslandi tóku svo gildi árið 1956. Segja má því að upphaf formlegrar náttúruverndar hérlendis, eigi sínar rætur við Grænavatn í Krýsuvík.

Samtökin sem standa að blysförinni eru: Ferðafélag Íslands, Hið íslenska náttúrufræðifélag, Hraunavinir, Útivist, Jarðfræðingafélagið, Jöklarannsóknarfélagið, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands og Reykjanesfólkvangur.

Allir eru velkomnir í þessa blysför, Sigurði Þórarinssyni til heiðurs. Hér er ekki síst verið að heiðra frumkvæði hans í náttúruverndarmálum og minna á um leið, að þörfin er ekki síðri í dag en hún var um miðja síðustu öld.
Sigurður var með merkustu jarðfræðingum og naut virðingar á sínu sviði um allan heim. Grænavatn er á miðjum Reykjanesskaganum, en hann þykir með merkilegustu jarðfræðifyrirbærum. Hafa komið fram hugmyndir um að gera Reykjanesskagann að Eldfjallagarði. Fátt væri betur fallið til þess að heiðra minningu Sigurðar en Eldfjallagarður á Reykjanesskaga.

En Sigurður var ekki aðeins merkur vísindamaður. Hann unni landi sínu og var öllum minnisstæður sem persóna. Ljóðagerð hans var landskunn og kvæðin sungin, hvort sem ekið var í rútubíl í Þórsmörk eða safnast saman við varðeld og í skála á fjöllum. Þegar eldur braust úr jörðu, var Sigurður gjarnan mættur með fyrstu mönnum og með rauðu skotthúfuna. Það er því við hæfi að þátttakendur í blysförinni mæti með rauða húfu – helst skotthúfu.

Undirbúningshópur.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd