Tinna Hallgrímsdóttir formaður Ungra Umhverfissinna skrifar
Að alast upp í Grænfánaskóla
Ég var svo heppin að vera í Grænfánaskóla mest alla grunnskólagönguna í Snælandsskóla í Kópavoginum, en skólinn tók við fánanum árið 2001 undir handleiðslu Margrétar Rafnsdóttur.
Þegar ég fór að hugsa til baka til áranna sem ég var í Snælandsskóla voru umhverfismálin ekki það sem mér var efst í huga. En við frekari umhugsun áttaði ég mig á því að það er af góðri ástæðu. Umhverfismálin voru nefnilega svo alltumlykjandi og í raun órjúfanlegur partur af menningu skólans að ég tók því bara sem sjálfsögðum hlut. Fyrir mér snýst Grænfáninn því að miklu leyti um að setja viðmið, setja markið hærra: hvernig við hugsum, hvernig við hegðum okkur og hvaða tilfinningar við berum gagnvart umhverfinu.
Og þegar það er búið að setja viðmið, verða þau sjálfsagður partur af skólamenningunni, líkt og í Snælandsskóla þar sem mikill samhugur var um þær aðgerðir sem lagt var í.
Ég ólst upp við að flokka allt rusl, slökkva ljósin þegar ég var ekki að nota þau og ganga í skólann. Svo eru mér fersk í minni öll þau skapandi og skemmtilegu endurnýtingarverkefni sem við gerðum. Alls konar hlutir sem vanalega voru taldir vera úrgangur, voru allt í einu orðnir að skálum, pennaboxum, kertum, púðum, töskum, jóla- og páskaskreytingum og svo mætti halda lengi áfram.
Í skólanum var líka mikið lagt upp úr góðri raungreina- og náttúrufræðikennslu. Ég man t.d. eftir því þegar við hlustuðum á fuglahljóð í náttúrufræði, mér fannst það kannski ekki svo spennandi á sínum tíma en lærði að meta það mun síðar á ævinni þegar ég fór á Vestfirði og bar þar kennsl á hljóð ýmissa tegunda sem borgarbarnið hafði áður einungis heyrt úr geisladiskaspilara inni í kennslustofu.
Kennslan í skólanum náði svo einnig út fyrir veggi stofunnar en við bjuggum til fuglahús fyrir skólalóðina til að kenna okkur að bera virðingu fyrir dýrum, eða a.m.k. ákveðnum tegundum því auðvitað voru þau svo eftir allt saman ennþá á boðstólum í matsalnum.
Það sem stendur þó helst upp úr eftir Grænfánaskólagönguna er fremur mikilvægur atburður sem tengist endurvinnslu. Í Snælandsskóla var nær allur úrgangur flokkaður og ég skildi mikilvægi þess að flokka. Það skaut því skökku við þegar ég kom heim úr skólanum og öllu nema dósum var hent í sömu tunnuna, og mér fór að blöskra þessi ávani.
Ég sá mér því engan annan kost í stöðunni en að hreinlega neyða mömmu og pabba til að byrja að flokka ruslið heima fyrir. Aðspurð hef ég alltaf svarað því að ég hafi byrjað í umhverfisaktívismanum fyrir fjórum árum, þegar ég gekk til liðs við stjórn Ungra umhverfissinna, en ég uppgötvaði nýlega að þetta hófst víst allt í grunnskóla með endurvinnslunni. Mín fyrsta aðgerð sem sýndi að ég gæti haft einhver áhrif út fyrir sjálfa mig, því það er þannig sem þú valdeflist.
Ég á því Grænfánanum margt að þakka, en ég hefði ekki farið langt ef ég hefði einungis stoppað þarna. Stóra áskorunin er að halda áfram, að festast ekki einungis í endurvinnslunni eða öðrum aðgerðum sem við grípum til innan veggja heimilisins eða skólans. Gleymum ekki að umhverfisvandinn er kerfislægur og verður ekki leystur einungis með því að líta í eigin barm, við verðum að líta upp, horfa lengra, og krefjast stórra breytinga á samfélagslegum skala.
Grænfáninn spilar stórt hlutverk í að fræða og valdefla yngstu kynslóðirnar og gefa þeim þannig tól til að krefjast breytinga. Kennum unga fólkinu staðreyndirnar, hvert núverandi þróun er að stefna okkur en kennum þeim einnig að þrjóskast við að vera bjartsýn. Látum þau ekki festast í þeirri hugsanavillu fyrri kynslóða að róttækar kerfislægar og samfélagslegar breytingar séu óraunhæfar. Sköpum nýja framtíðarsýn og trú á að hægt sé að að gera hana að veruleika.
Hættum aldrei að berjast og hættum aldrei að vona – fyrir framtíð okkar og komandi kynslóða!
TINNA HALLGRÍMSDÓTTIR
FORMAÐUR UNGRA UMHVERFISSINNA OG MEISTARANEMI Í UMHVERFIS- OG AUÐLINDAFRÆÐI
Greinin birtist fyrst í Ársriti Landverndar 2022.
Grænfáninn fagnar 20 ára afmæli á Íslandi í ár, en Landvernd hefur haft umsjón með verkefninu á Íslandi frá upphafi.