Karlmaður í forgrunni, heldur á grænum atkvæðaseðli upp í loftið. Aðalfundur Landverndar er haldinn ár hvert.

Aðalfundur Landverndar 13. maí og Græðum Ísland hleypt af stokkunum

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Aðalfundur Landverndar verður haldinn 13. maí n.k. í Frægarði í Gunnarsholti og Græðum Ísland hleypt af stokkunum við Þjófafoss.

Stjórn Landverndar minnir á aðalfund samtakanna laugardaginn 13. maí n.k. kl. 10-14:30 í Frægarði í Gunnarsholti á Rangárvöllum. Eftir fundinn verður nýju sjálfboðaliðaverkefni Landverndar, Græðum Ísland eða CARE á ensku, hleypt af stokkunum við Þjófafoss í Þjórsá. Fundarmönnum er af þessu tilefni boðið að taka þátt í landgræðslu á svæðinu og þiggja grillaðar pylsur og léttar veitingar að því loknu.

Nauðsynlegt er að skrá sig hér á aðalfundinn í síðasta lagi 10. maí n.k. svo áætla megi stærð rútu og aðföng fyrir mat.

Dagskrá aðalfundar, samþykktir Landverndar og önnur fundargögn má finna hér að neðan. Boðið verður upp á rútuferð frá Reykjavík og leggur rútan af stað frá BSÍ kl. 8:00 og kemur aftur til Reykjavíkur að fundi og landgræðslustörfum loknum um kl. 18:45. Þau sem hyggjast sækja fundinn á eigin vegum geta áttað sig á staðsetningu Frægarðs í Gunnarsholti hér að neðan og í viðhengi.

Vakin er athygli á tillögu um sameiningu Landverndar og Framtíðarlandsins sem finna má í fundargögnum. Á fundinum verður auk almennra aðalfundarstarfa kynnt drög að stefnumörkun Landverndar um vindorkuver, fjallað um Hreinsum Ísland, nýtt strandhreinsiverkefni samtakanna og kynntar niðurstöður í hugmyndasamkeppni um framtíð Alviðru í Ölfusi. Eftir fundarslit mun Dr. Árni Bragason landgræðslustjóri flytja erindið Landgræðsla – hvert stefnum við?

Í stjórn Landverndar sita tíu manns. Formaður er kosinn í sérstakri kosningu. Á aðalfundi 2017 verður kosið um formann stjórnar og fjóra stjórnarmenn til tveggja ára. Allir kjörgengir félagsmenn geta boðið sig fram á fundinum. Þess skal getið að núverandi formaður samtakanna, Snorri Baldursson, hyggst ekki gefa áfram kost á sér. Þá hafa tveir aðrir stjórnarmenn ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu.

Kæru félagsmenn!

Við hvetjum ykkur til að mæta og hafa áhrif á stefnu og störf samtakanna. Þá minnum á að þau sem enn skulda félagsgjald verða að hafa greitt þau fyrir aðalfund til að tryggja sér atkvæðisrétt og kjörgengi á fundinum. Jafnframt hvetjum við ykkur til að taka nýja félaga með á fundinn. Hægt er að greiða félagsgjöld á fundinum.

Líkt og áður segir verður nýju sjálfboðaliðaverkefni Landverndar í landgræðslu Græðum Ísland (CARE) hleypt af stokkunum eftir fundinn við Þjófafoss í Þjórsá. Eru félagsmenn sérstaklega hvattir til að taka þátt í þeim viðburði og landgræðslustörfum á eftir.

Með von um að sjá ykkur sem flest,
f.h. stjórnar Landverndar,
Guðmundur Ingi Guðbrandsson,
framkvæmdastjóri Landverndar.

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Scroll to Top