Áhersla á orkuöflun umtalsvert meiri en á náttúruvernd

Urriðafoss er einn vatnsmesti foss landsins. Við endurskoðun 3. áfanga rammaáætlunar er lagt er til að hann fari í nýtingarflokk.

Umsögn Landverndar um skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um rammaáætlun

Landvernd hefur kynnt sér skýrslu um endurskoðun á lögum um rammaáætlun og sent inn umsögn í Samráðsgátt stjórnvalda.  Samtökin gera í fyrsta lagi athugasemdir orðalag sem fram kemur í röksemdum á aðalsíðu samráðsgáttar um málið í nánari lýsingar

„Skýrslan var unnin af starfshópi sem skipaður var af ráðherra til að gera tillögur um endurmat og endurskoðun á þeim lagaramma sem gildir um orkuöflun landsins til að tryggja skilvirka og ábyrga nýtingu og vernd landsvæða á Íslandi”

Landvernd getur ekki annað ályktað en út frá þessu að áherslan sé fyrst og síðast að finna leiðir til að auka orkuöflun og um leið að veikja verndarþáttinn þó hann fylgi með í niðurlagi eins og aukasetning.

Ítrekað birtist sami veikleiki í ráðuneyti sem ætlað er hvoru tveggja að vinna með umhverfi og orkumál að orkumálin verða yfirsterkust. Þá hljómar sú áhersla orkugeirans að náttúruverndinni og loftslagsmálunum sé best borgið með því að virkja sem mest. Fyrir vikið fá orkumálin alla athyglina á kostnað umhverfisins.
Svo augljóslega hallar á verndarsjónarmið í skýrslunni að segja má að vegið sé að verndarþættinum með markmiðum starfshópsins.

Niðurstaða Landverndar

Landvernd taldi ekki ástæðu til að gera athugasemdir við nema þau helstu atriði sem augljóslega brýtur á í þessum tillögum að endurskoðun.

Samantekt Landverndar – Helstu athugasemdir

  • Starfshópurinn hefur ekki nálgast verkefnið af því hlutleysi sem eðlilegt er og markast skýrslan af miklum tengslum við orkugeirann.
  • Starfshópurinn leggur alltof mikla áherslu á að bera Noreg saman við Ísland. Noregur er ekki fyrirmyndarríki þegar litið er til verndar- og orkunýtingar. Í Noregi ríkir hvað mest ósætti meðal almennings um óstjórn orkumála á öllum norðurlöndunum. Það er því ámælisvert hve starfshópurinn hefur lagt sig fram um að reyna að heimfæra stjórn orkumála frá Noregi til Íslands.
  • Jákvætt er að til er lagt að taka áhrif á vatnshlot með í reikninginn á fyrstu stigum málsins.
  • Markmið rammaáætlunar eru ekki einfölduð í tillögunum heldur flækt svo hægt verði að túlka þau eftir eigin höfði.
  • Landvernd gagnrýnir að ný Náttúruverndarstofnun sé ekki skrifuð inn sem fullgildur umsagnaraðili til samræmis við Umhverfis- og orkustofnun, Minjastofnun og Náttúrufræðistofnun.
  • Landvernd leggur áherslu á að ef umsagnarferlum verði fækkað þá hafi það þau áhrif að veikja aðhald og umsagnarrétt almennings og félagasamtaka samkvæmt Árósarsamningnum. Landvernd krefst þess að ef ferlum verði fækkað, eins og starfshópur leggur til, þá verði stjórnvöldum á móti gert skylt að svara efnislega með rökum þeim umsögnum og athugasemdum sem gerðar eru.
  • Stöðu nýsameinaðar stofnunar þ.e. Umhverfis- og orkustofnunar verður að skýra til fulls á grunni þeirra breytinga sem starfshópurinn leggur til með viðbótum inn í lögum um verndar og stjórnunaráætlun.  Hin nýja stofnun getur ekki leikið tveimur skjöldum eins og rökstutt er í athugasemdum Landverndar. Hún má ekki lögum samkvæmt vera umsagnaraðili yfir sjálfri sér. Armslengdarsjónarmið eru grundvallaratriði ef skapa á traust og gagnsæi
  • Sjónarmið starfshópsins er varðar vindorku og óútskýrð sérlög eru ekki til sátta fallin.

Hér má lesa umsögn Landverndar í heild sinni

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd