Umhverfisráðherra hefur fellt úr gildi þá ákvörðun Skipulagsstofnunar frá 25. mars 2009 að ekki skuli fara fram sameiginlegt mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar Suðvesturlína og öðrum framkvæmdum sem tengjast álveri í Helguvík. Málinu hefur verið vísað til stofnunarinnar á ný til efnislegrar meðferðar og úrlausnar.
Niðurstaða þessi beinir sjónum að því að ekki er búið að tryggja orku fyrir 360 þúsund tonna álver í Helguvík eins og lagt er upp með, og hvort skynsamlegt sé að ráðast í svo stórt álver. Einnig beinir niðurstaðan sjónum að þeim töluverðu náttúruspjöllum sem Suðvesturlína mun hafa í för með sér ef af verður, en línan á að flytja orku frá Hellisheiði til Helguvíkur. Frá sjónarhóli náttúruverndar, og til að eiga orku til framtíðar, telur Landvernd að mun minna álver í Helguvík væri skynsamlegri lausn.