Ákvörðun um rekstrarleyfi verður að byggja á umhverfismati – ályktun

Við ítrekum við þann alvarlega ágalla að mat á umhverfisáhrifum sé ekki tekið inn með beinum hætti í rekstrarleyfið.

Landvernd leggst gegn því að Fiskeldi Austfjarða fái rekstrarleyfi fyrir auknu sjókvíaeldi í Stöðvarfirði eins og rakið er hér fyrir neðan.

Eftirfarandi er textabrot úr athugasemd okkar vegna tillögu að rekstrarleyfi Fiskeldis Austfjarða til fiskeldis í Stöðvarfirði. Smellið á hnappinn neðst í greininni til þess að sjá athugasemdina í heild sinni.

Áhætta varðandi laxalús

Miðað við áhættumat Hafrannsóknarstofnunar má ætla að 5600 laxar sleppi við fyrirhugaða 7000 tonna framleiðslu Fiskeldis Austfjarða í Stöðvarfirði. Skipulagsstofnun telur að fiskistofnum Stöðvarár geti staðið hætta af laxalús frá eldinu vegna nálægðar við það og smæðar fiskistofna árinnar. Stöðvarfjörður er þröngur og því eru miklar líkur á því að lúsasmit valdi verulegum skaða á staðbundnum stofnum villtra laxfiska. Verulega skortir á rannsóknir á lífríki fjarðarins til þess að hægt sé að leggja sannfærandi mat á áhrifin af fiskeldi á svæðinu.

Ólýðræðislegt ferli

Skipulag haf- og strandsvæða hefur ekki verið lokið með fullri aðkomu samfélagsins. Ef sniðganga á hina lýðræðislegu leið sem skipulag haf- og strandsvæða felur í sér með samtali og samráði við samfélagið og aðra hagsmunaaðila á svæðinu, er fiskeldisfyrirtækjum gefin full heimild til að klára skipulagsgerð áður en öðrum hagsmunaðilum verður hleypt að borðinu. Slík vinnubrögð gagnvart samfélaginu brjóta gegn grundvallarreglum og um jafnræði þegar kemur að jafn stórum málum og hér um ræðir og varðar okkar sameiginlegu auðlindir.

Mat á umhverfisáhrifum ekki tekið til greina

Þá þykir Landvernd óeðlilegt að skilyrði sem sett eru fram í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum séu ekki tekin með beinum hætti inn í rekstrarleyfið. Landvernd telur að ef MAST ætli sér að gefa út rekstrarleyfi skuli skilyrði Skipulagsstofunar öll koma fram í því.

Óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu

Á hverjum degi drepst gríðarlegur fjöldi eldislaxa í sjókvíum. Iðnaðurinn gerir ráð fyrir því að fimmti hver fiskur drepist vegna aðstæðna í kvíunum. Opnar sjókvíar eru gróðrastía lúsa sem eitra þarf fyrir reglulega. Laxalús étur eldisdýrin lifandi í netapokanum á meðan villtur lax getur losað sig við lúsina þegar hann gengur í árnar, því lúsin þolir illa ferskvatn. Þá er einnig um að ræða aðra alvarlega sjúkdóma eins og hjartavandamál og vansköpun sem valda fiskunum þjáningu. Botndýralíf þurrkast út undir kvíunum því þar safnast þykkt lag af úrgangi og rotnandi fóðurleyfum.

Neikvæð sjónræn áhrif

Verði rekstrarleyfið veitt þá tapast ásýnd og ímynd fjarðarins um lítt snortna eða ósnortna náttúru. Sjókvíarnar, með öllu því sem þeim fylgja, mun spilla útsýni og upplifun þeirra sem vilja njóta náttúru og landslags við Stöðvarfjörð. Eldissvæðið verður sýnilegt frá þéttbýli, þjóðvegi 1, vinsælum gönguleiðum og ferðamannastöðum. Fiskeldið getur haft neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna. 

Við hvetjum til þess að fallið verði frá áformunum

Landvernd hvetur MAST eindregið til þess að falla frá áformunum og ítrekum við þann alvarlega ágalla að mat á umhverfisáhrifum sé ekki tekið inn með beinum hætti í rekstrarleyfið. Rétt er að velta upp spurningunni hvort sjókvíaeldi sé réttlætanleg aðferð við matvælaframleiðslu í ljósi þeirra neikvæðu áhrifa sem iðnaðurinn hefur almennt í för með sér. Er ekki tími til kominn að horfa til framtíðar?

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd