Þrír skólar fengu sérstaka viðurkenningu á ráðstefnu Skóla á grænni grein, Við getum öll haft áhrif, sem haldin var í Verzlunarskóla Íslands þann 7. febrúar s.l. Þetta eru leikskólarnir Norðurberg í Hafnarfirði, Álfheimar á Selfossi og Andabær á Hvanneyri. Allir hafa þeir fengið grænfánann afhentan átta sinnum og eiga tveir þeirra, Norðurberg og Álfheimar, von á sínum níunda fána nú í vor.
Norðurberg hóf þátttöku árið 2002, fyrstur leikskóla hér á landi. Frá upphafi hefur leikskólinn staðið sig með eindæmum vel í að takmarka þann úrgang sem frá skólanum fer og lagt sig fram við að minnka orkunotkun. Sérstaða leikskólans felst ekki síst í því að öll bleyjubörn hafa verið með taubleyjur frá árinu 2000. Þetta hefur vakið mikla athygli hér á landi og verið öðrum skólum hvatning. Norðurberg hefur einnig staðið sig vel í að valdefla börn í sínu umhverfisstarfi og þar fer fram öflugt útinám.
Álfheimar hóf þátttöku í Skólum á grænni grein árið 2003 en hafði fram að því verið þátttakandi í verkefni Landverndar „Vistvernd í verki“ vegna mikils áhuga á umhverfismálum. Skólinn hefur frá stofnun hans lagt mikla áherslu á útinám og hefur hann vakið sérstaka athygli fyrir verkefnið „Gullin í grenndinni” sem er samvinnuverkefni á milli leik- og grunnskóla sem snýst um útinám. Leikskólinn hefur moltað allan sinn úrgang frá upphafi og er nú með s.k. ánamoltu þar sem lífrænar leifar eru brotnar niður með hjálp ánamaðka. Börnin hafa alla tíð verið mjög virk í öllu umhverfisstarfi skólans.
Andabær hóf þátttöku árið 2004 og hefur frá upphafi lagt mikla áherslu á umhverfismálin. Sérstaða leikskólans felst ekki síst í valdeflingu leikskólabarna í gegnum verkefnið „Leiðtoginn í mér“ sem þau nýta vel í grænfánastarfinu. Leikskólinn er einnig í sérstaklega góðum tengslum við nærsamfélagið og vinnur að verkefnum í samstarfi við önnur skólastig á svæðinu. Jafnframt er leikskólinn í mjög góðum tengslum við foreldrasamfélagið t.d. í gegnum fataskiptamarkaði sem haldnir eru reglulega innan skólans. Hvort tveggja eru mikilvægir þættir í grænfánavinnunni.
Við óskum skólunum til hamingju með árangurinn og hvetjum þá til áframhaldandi góðra verka í umhverfismálum.