Forsendur aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum brostnar

Auður Önnu Magnúsdóttir
Losun verður meiri en stjórnvöld gera ráð fyrir. Með leiðréttingum vegna eldsneytisspár og stöðuskýrslu aðgerðaáætlunarinnar, ásamt losunartölum 2019 og 2020 má ætla að samdráttur í losun verði aðeins um 22% en ekki 35%.

Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Ungir umhverfissinnar sendu frá sér yfirlýsingu þann 4. október síðastliðinn þar sem skorað er á væntanlega ríkisstjórn að standa við Parísarsamkomulagið. Í yfirlýsingunni kemur fram að samdráttur sem stefnt er að í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar upp á 35% milli áranna 2005 og 2030 nái ekki fram að ganga.

Við teljum að samdráttur í losun verði langt undir þeim 35% sem stefnt er að. Ef aðgerðaáætluninn verður ekki uppfærð mun Ísland ekki standa við Parísarsáttmálann.

Aðgerðaáætlunin þarf að fela í sér beittari aðgerðir sem leggja hömlur á losun og gera miklu meiri kröfur á stóru atvinnuvegina.

Rétt fyrir alþingiskosningarnar komu fram tvö mikilvæg skjöl sem gera það að verkum að hægt er að rýna tölurnar í aðgerðaáætluninni með meiri vissu. Þetta eru ný eldsneytisspá og stöðuskýrsla aðgerðaáætlunarinnar. Þá liggja fyrir bráðabirgðatölur frá Umhverfisstofnun um losun gróðurhúsalofttegunda fram til 2020.

Losun verður meiri en gert er ráð fyrir

Með leiðréttingum vegna eldsneytisspár og stöðuskýrslu aðgerðaáætlunarinnar, ásamt losunartölum áranna 2019 og 2020 má ætla að samdráttur í losun til ársins 2030 miðað við árið 2005 gæti orðið í kringum 730 þúsund tonn. Það þýðir samdrátt um 22% en ekki 35% eins og aðgerðaáætlunin gerði ráð fyrir. Hér er um mikla óvissu að ræða en á meðan ekki er gripið til ákveðinna aðgerða verður samdráttur í losun mjög takmarkaður og markmiðin nást ekki.

Við skorum á nýja ríkisstjórn að taka loftslagsmálin föstum tökum og búa til alvöru aðgerðaáætlun sem skilar raunverulegum árangri á næstu 8 árum.

Mikilvægt er að ríkisstjórnin lögfesti markmiðin í loftslagsmálum, lýsi yfir neyðarástandi og geri loftslagsmálin að rauðum þræði í öllum ákvörðunum stjórnvalda. 

Ljós er að forsendur aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum eru brostnar.

Miðað við stöðuna eins og hún er núna munum við alls ekki ná þeim samdrætti sem lagt er upp með í aðgerðaáætluninni.

Ítarleg greining

Vegasamgöngur og fiskiskip

Samdrátturinn í flokkunum vegasamgöngur og skip og hafnir er mun minni samkvæmt nýútkominni eldsneytisspá en í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt aðgerðaáætlun á losun frá vegasamgöngum að dragast saman um 37% milli 2018 og 2030 en eldsneytisspá spáir hins vegar fyrir um 23.5% samdrátt í eldsneytisnotkun. Samkvæmt aðgerðaáætlun á losun frá skipum og höfnum að dragast saman um 25% milli 2018 og 2030, en eldsneytisspá spáir fyrir um 14% samdrætti í olíunotkun.

Þetta þýðir að samdrátturinn frá 2018 til 2030 verður eingöngu 64% af því sem aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir í vegasamgöngum og 56% frá skipum og höfnum.

Aðgerðaáætlunin hvílir á vafasömum forsendum, líkt og Landvernd benti á í umsögn sinni um hana en ekki hefur verið brugðist við þeim athugasemdum. Í heildina þýðir þetta að í stað þess að losun dragist saman um 161 þúsund tonn frá vegasamgöngum milli 2005 og 2030, verður samdrátturinn eingöngu 29 þúsund tonn og samdráttur í losun frá skipum verður 255 þúsund tonn í stað 320. Þarna vantar því talsvert uppá ef markmiðin eiga að standast.

Losun frá Jarðvarmavirkjunum

Ólíklegt er að föngun kolefnis gangi jafn hratt fyrir sig og haldið er fram. Losun frá jarðvarmavirkjunum hefur aukist undanfarin 3 ár. Gert ráð fyrir verulegum samdrætti vegna Carbfix verkefnisins en í stöðuskýrslunni 2021 kemur fram að aðrir jarðvarmaorkuframleiðendur en Orkuveita Reykjavíkur eru ekki með Carbfix búnað í undirbúningi. Hjá Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfyrirtækis Carbfix, er bara brot af þeirri losun sem frá virkjuninni á Hellisheiði kemur fönguð af Carbfix.

Fram kemur á heimasíðu Carbfix að frá 2014 hafa 72 þúsund tonn verið fönguð með Carbfix tækninni samanlagt í öllum verkefnum fyrirtækisins frá upphafi. Heildarlosun frá jarðvarmavirkjunum á Íslandi var 172 þúsund tonn árið 2020. Í ljósi þessa er afar hæpið að föngun kolefnis með Carbfix tækninni hafi náð 108 þúsund tonnum eftir bara 8 ár. Við gerum því ráð fyrir því að helmingur þess markmiðs náist.

Í flokknum jarðvarmavirkjanir og smærri iðnaður hefur þó þegar náðst mikill samdráttur vegna rafvæðingar fiskimjölsverksmiða. Við gerum því ráð fyrir að losun frá þessum flokkum verði 248 þúsund tonn milli áranna 2005 og 2030 en ekki 189 eins og aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir.

Kælimiðlar (F-gös)

Þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur gripið til til þess að hamla notkun F-gasa í kælimiðla er til mikillar fyrirmyndar og hafa nú þegar komist til framkvæmda. Landvernd telur því raunhæft að gera ráð fyrir þeim samdrætti í notkun F-gasa sem getið er um í aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum. Að vísu er ekki gert ráð fyrir samdrætti miðað við árið 2005 þar sem noktun á F-gösum hefur aukist töluvert síðan þá.

Landbúnaður

Einungis tvær aðgerðir eru fyrirhugaðar á sviði Landbúnaðar sem eiga með beinum hætti að draga úr losun frá landbúnaði: Bætt fóðrun búfjár til að draga úr iðragerjun og bætt nýting og meðhöndlun áburðar. Þróun og uppskölun á því að gefa jórturdýrum þörunga til þess að hamla iðragerjun er afar skammt á veg komin og mörg vandamál í veginum sem enn hafa ekki verið leyst. 

Enginn samdráttur er því í kortunum á næstu 8 árum vegna þessarar aðgerðar. Landvernd telur að hin aðgerðin, bætt nýting og meðhöndlun áburðar gæti skilað árangri en hún er hins vegar ekki hafin. Samdráttur í landbúnaði verður því líklega eingöngu um 5 þúsund tonn í flokki landbúnaðar milli 2005 og 2030 en ekki 30 eins og aðgerðaáætlunin gerir ráð fyrir.

Það eru mikil tækifæri fyrir ríkið að ná miklum samdrætti frá landbúnaði með því að breyta styrkjakerfi Landbúnaðarins. Nær ógjörningur er að ná samdrætti í losun frá Landbúnaði án fækkunar jórturdýra. Sá mikli samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda í sjávarútvegi sem átti sér stað á milli áranna 1990 og 2010 varð mestanpart vegna samdráttar í afla, um leið og heildarverðmæti tvöfaldaðist. Það sama þarf að gerast í landbúnaði að mati Landverndar.

Úrgangur og sóun

Þegar aðgerðaáætlunin kom út vorum miklar vonir bundnar við samdrátt í flokknum úrgangur og sóun. Samdrátturinn átti að vera 66% milli 2005 og 2030. Gert var ráð fyrir því í aðgerðaáætlun að það myndi nást með lögum um urðunarskatt og lögum um bann við urðun úrgangs. Það tókst þó ekki að lögfesta aðgerðirnar og ríkisstjórnin lagði ekki næga áherslu á að afgreiða þær. Losun frá þessum flokki jókst mikið árið 2020 sem bendir til þess að sá hægi samdráttur sem hefur verið í flokknum frá efnahagshruninu 2008 gæti hafa stöðvast. Það er nánast óhugsandi að samdrátturinn sem stefnt var að náist í þessum flokki miðað við þetta. Sér í lagi þegar ríkisstjórnin sem sjálf setur aðgerðaáætlunina kemur nauðsynlegum lagabreytingunum ekki í gegn.

Landvernd gerir því ráð fyrir því að losun í þessu flokki haldi áfram að dragast saman næstu 8 árin til 2030 með sama hætti og hún hefur gert síðastliðinn 10 ár. Það þýðir að samdráttur í losun verður 99 þúsund tonn frá úrgangi milli áranna 2005 og 2030 en ekki 217.

Losun CO2 ígilda í þúsund tonnum. Bláu súlurnar sýna ætlaðan árangur aðgerðaáætlunarinnar en rauðu sýna uppfærslu Landverndar miðað við nýjustu gögn.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd