Ályktun aðalfundar um orkuskipti

Borað eftir olíu á sjó. Orkuskipti næst á dagskrá. Olíuleitarskip. Landvernd kallar eftir jarðefnaeldsneytislausu Íslandi 2035.
Aðalfundur Landverndar 2022 kallar eftir orkustefnu og orkuskiptum þar sem náttúruvernd og loftslagsvernd haldast í hendur. Grænni samgönguinnviði, orkunýtni og orkuskipti ber að setja í algjöran forgang þar sem þetta er grundvöllur þess að Íslendingar axli ábyrgð í loftslagsmálum.

Ályktun aðalfundar Landverndar 20. maí 2022
Orkuskipti sem við getum verið stolt af

 

Aðalfundur Landverndar 2022 kallar eftir orkustefnu og orkuskiptum þar sem náttúruvernd og loftslagsvernd haldast í hendur.
Grænni samgönguinnviði, orkunýtni og orkuskipti ber að setja í algjöran forgang þar sem þetta er grundvöllur þess að Íslendingar axli ábyrgð í loftslagsmálum.

Besti og hagkvæmasti kosturinn til að draga úr orkunotkun í samgöngum er að stórefla fjölbreytta ferðamáta með bættum innviðum og bæði tæknilegum lausnum og fjárhagslegum hvötum til þess að styðja við gangandi og hjólandi vegfarendur, ásamt gagngerum umbótum í almenningssamgöngum.

Orku til orkuskipta ber að afla fyrst og fremst með betri nýtni og orkusparnaði. Raforkuframleiðsla Íslendinga er sú mesta í heimi á mann, og því er verulegt svigrúm til að bæta nýtni og til að forgangsraða til orkuskipta.

Samkvæmt nýlegum tillögum starfshóps um orkumál á stærsti hluti áætlaðrar nýrrar orkuframleiðslu að fara í orkuskipti vegna millilandaflugs. Losun á hvern Íslending vegna millilandaflugs er ein sú mesta í heimi og um 10 sinnum meiri en meðaltalslosun í flugi í heiminum. Þótt eðlilegt sé að flugferðir séu hlutfallslega tíðari í eyjarsamfélagi en á meginlandinu eru núverandi ferðavenjur okkar langt frá því að geta talist sjálfbærar.

Mikilvægt er að draga úr orkunotkun í flugi með fjölbreyttum hætti, t.d. með betri fjarfundabúnaði til þess að draga úr ferðaþörf og ‒ þegar fram líða stundir ‒ með rafferjum til meginlandsins. Úr losun má einnig draga með ráðstöfunum sem hvetja Íslendinga til að ferðast á umhverfisvænan hátt um eigið land frekar en erlendis.

Aðalfundur Landverndar gagnrýnir áróður orkugeirans um yfirvofandi orkuskort. Jafnframt gagnrýnir fundurinn hömlulausa sókn eftir frekari virkjunum og tilraunir til að sniðganga og gengisfella þær reglur sem eiga að tryggja að nýting orkuauðlinda landsins valdi sem minnstum náttúruspjöllum

Fundurinn kallar á Alþingi að ljúka umfjöllun um rammaáætlun 3 á faglegum forsendum. Sú áætlun skapar forsendur til frekari orkuöflunar ef hún telst nauðsynleg fyrir orkuskiptin.

Sýna verður varfærni við alla frekari orkuöflun þar sem afar verðmæt íslensk náttúra og víðerni eru í húfi. Vönduð og fagleg rammaáætlun og marktækt mat á umhverfisáhrifum eru verkfærin sem við höfum til þessa. Regluverkið verður að bæta þannig að framkvæmdir til aflaukningar og stækkunar, vindorkuver og allar jarðvarma- og vatnsaflsvirkjanir sem taldar eru geta valdið spjöllum á náttúru landsins falli undir rammaáætlun þar á meðal með því að endurskoða ákvæðið um að rammaáætlun nái ekki til virkjana með uppsett rafafl minna en 10 MW eða uppsett varmaafl minna en 50 MW.

Aðalfundur Landverndar kallar eftir orkuskiptum sem við getum verið stolt af sem þjóð.

 

Greinargerð
Orkugeirinn á Íslandi hefur í krafti fjármagns og afls haldið uppi umfangsmiklum áróðri um orkuskort og lýst því yfir að fram til 2040 þurfi að tvöfalda orkuöflun á Íslandi, og rúmlega það, til að ná markmiðum um orkuskipti og til annarra þarfa.
Á Íslandi er framleitt meiri raforka á hvern íbúa en í nokkru öðru landi í heiminum. Gangi áform orkugeirans eftir yrði raforkuframleiðsla á mann á Íslandi fjórfalt meiri en í því landi sem næst kemur, sem er Noregur.

Nýleg skýrsla starfshóps á vegum stjórnvalda um stöðu og áskoranir í orkumálum svarar ekki ákalli um hlutlæga greiningu og mat á stöðu og áskorunum í orkumálum Íslendinga. Þess í stað er skýrslan að verulegu leyti kokkuð upp úr málflutningi orkufyrirtækjanna og samtaka þeirra, sem undanfarin misseri hafa boðað orkuskort nema raforkuframleiðsla verði aukin til muna. Velsæld Íslendinga er sögð í húfi ef ekki fáist meira rafmagn. Skýrslan er einhliða og í henni kemur fram úrelt sýn um möguleika Íslands. Skýrslan er skýrt dæmi um ofurítök orkugeirans í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar. Hið sama gildir um nýlegar breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum og um tafirnar á afgreiðslu rammaáætlunar.
Nú eru um 18% af raforku framleidd til almennra nota, um 78% fara til stóriðju og annarra stórnotenda og um 5% er sóað. Það er því augljóslega mikið svigrúm til að bæta orkuöryggi til almennra nota án frekari virkjana. Ekki má heldur gleyma þeirri orkusóun sem felst í að framleiða rafmynt. Þar er orka sem auðveldlega má nýta til að efla orkuöryggi eða til annarra gagnlegra nota.

Náttúra landsins og víðerni eru undirstaða helstu útflutningsgreinar okkar, en eru einnig gríðarlega verðmæt til útivistar, bættrar lýðheilsu og aukinna lífsgæða. Ekki má gleyma því að náttúra Íslands er verðmæt í sjálfri sér, og vönduð náttúruvernd er einnig loftslagsaðgerð þar sem hún stuðlar að bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi.
Frekari orkuöflun til orkuskipta kann að vera nauðsynleg. Þar verður þó að fara fram með mikill varfærni. Reynslan sýnir að stjórnvöld taka afar oft ekki mark á niðurstöðu faglegs mats um áhrif einstakra framkvæmda fyrir náttúru og umhverfi.

Rammaáætlun veitir yfirsýn og á grunni hennar má bæta ákvörðunartöku og koma í veg fyrir verstu náttúruspjöllin. Alþingi hefur því miður ekki staðið sig við að ljúka við rammaáætlun 3 sem lögð var fram árið 2016.
Það verður alltaf gríðarleg eftirspurn eftir ódýrri orku – eftirspurn sem ómögulegt er að mæta. Loftslagsvandinn birtist okkur nú fyrst og fremst sem orkukrísa því á okkar tímum notar heimsbyggðin miklu meiri orku en hægt er að framleiða á sjálfbæran hátt.
Við hljótum að gera þær kröfur til íslenskra atvinnufyrirtækja að þau dragi úr orkunotkun og setji fram skýra stefnu um forgangsröðun orkunnar til almennings og til yfirstandandi orkuskipta. Markmiðið má alls ekki vera að belgja út orkugeirann, heldur fyrst og fremst að vinna að lausn loftslagsvandans með orkuskiptum.
Okkur er rétt og skylt að leggja af mörkum eins og unnt er til að slá á loftslagsvána. Ennfremur er það ein helsta skylda okkar sem þjóðar er að skila verðmætri náttúru landsins óspilltri til komandi kynslóða. Þetta á að fara saman og getur farið saman.

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd