Stjórnmálamenn og orkugeirinn eiga erfitt með að viðurkenna verndarsjónarmið rammaáætlunar um vernd og nýtingu landsvæða. Þrýstingur á meiri nýtingu en rammaáætlun leggur til hefur verið viðvarandi frá hagsmunaöflum sem vilja nýta en ekki vernda. Þetta kom skýrt fram á málþingi um reynsluna af rammaáætlun um helgina. Sterkt dæmi var þegar Landsvirkjun stöðvaði friðlýsingu Þjórsárvera á síðustu stundu. Virkjanahugmynd sem snertir svæðið heitir í dag Kjalölduveita og nú vill ráðherra orku og umhverfismála ekki fara að ráðleggingum rammaáætlunar um að sá kostur fari í vernd, þótt það hafi endurtekið verið lagt til af hálfu verkefnisstjórnar rammaáætlunar.
Hér hlekkur á málþingið. https://landvernd.is/malthing-um-rammaaaetlun-2025/
Eftirfarandi yfirlýsing var smíðuð í kjölfar málþingsins:
Í kjölfar fundar um rammaáætlun álykta náttúruverndarsamtök að stjórnvöld hafi kosið að vanvirða faglegan grundvöll rammaáætlunar um verndun svæða. Mikið og gott starf hefur verið unnið við gerð rammaáætlunar en stjórnvöld nálgast þá vinnu eins og vísindalegar niðurstöður af margvíslegum rannsóknum séu skoðun sem megi vera ósammála. Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra breytir flokkun virkjanakosta án haldbærs rökstuðnings.
Landsvirkjun hefur fullyrt að „… stór hópur þeirra sem setið hefur þar í verkefnisstjórninni, hefur bara úttalað sig um það að það væri búið að virkja nóg á Íslandi og þá spyr maður sig; er það rétta fólkið til að meta þessi verkefni?”
Engin nöfn nefnd, engin dæmi um ófagleg vinnubrögð.[1] Spyrja verður hvort forstjóri Landsvirkjunar hafi umboð ríkisstjórnar þegar hann vegur á þennan hátt að fræðimönnum á vettvangi rammaáætlunar?
Með slíkri framkomu er verið að draga úr trúverðugleika Rammaáætlunar og allra þeirra rannsókna sem unnar hafa verið á hennar vegum.
[1] Hörður Arnarson í viðtali við fréttastofu RÚV 20. mars 2023


