Ályktun um loftslagsmál

Loftmengun, reykur rís úr stóriðjustropmum. Landvernd.
Aðalfundur Landverndar 2022 skorar á ríkisstjórnina og á umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra og fjármálaráðherra sérstaklega, að beita sér fyrir fjárhagslegum hvötum og gjöldum til þess að atvinnulífið taki virkan og afgerandi þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Án raunhæfra aðgerða atvinnufyrirtækjanna er ljóst að losunarfyrirheit fyrir 2030 nást ekki.

Aðalfundur Landverndar 20. maí 2022
Ályktun um loftslagsmál

Aðalfundur Landverndar 2022 skorar á ríkisstjórnina og á umhverfis-, orku- og loftslagsmálaráðherra og fjármálaráðherra sérstaklega, að beita sér fyrir fjárhagslegum hvötum og gjöldum til þess að atvinnulífið taki virkan og afgerandi þátt í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Án raunhæfra aðgerða atvinnufyrirtækjanna er ljóst að losunarfyrirheit fyrir 2030 nást ekki.

Tíminn er naumur og þeir geirar atvinnulífsins sem mest losa búa eins og er við litlar sem engar hömlur á losun gróðurhúsalofttegunda.

Grípa verður til aðgerða sem hvetja til hraðra orkuskipta í sjávarútvegi, bættrar orkunýtni og minni losunar frá stóriðju.

Þá verður að flýta banni við innflutningi bensín- og díselbíla, breyta styrkjakerfi til landbúnaðar sem hvetja til minni losunar og finna leiðir til þess að hvetja ferðamenn til að dveljast lengur á Íslandi í hverri ferð og nýta fjölbreyttan ferðamáta í heimsóknum sínum, eins og almenningssamgöngur, raf- og metanbíla og rafhjól.

Greinargerð

Grænvangur hefur í skýrslu um aðgerðir í loftslagsmálum fyrir íslenskt atvinnulíf bent á að þörf er fyrir verulegar úrbætur eigi atvinnufyrirtækin að skila auknum ávinningi í loftslagsmálum. Það er ljóst að góður vilji nægir ekki til að ná fram nauðsynlegum breytingum. Reynslan er sú að hagkvæmustu breytingarnar á þessu sviði nást með réttum fjárhagslegum hvötum.

Samkvæmt Parísarsáttmálanum og reglum Evrópusambandsins um framkvæmd hans ber Íslendingum að draga úr losun með línulegum hætti, þ.e. ná ákveðnum árangri á tilteknum árum, á tímabilinu 2021‒2030. Stjórnvöld geta því ekki reitt sig á að aðgerðir skili mestu á árunum undir lok skuldbindingartímans. Ríkisstjórnir geta ekki frestað aðgerðum fram á kjörtímabil næstu stjórnar.

Ísland hefur skuldbundið sig til að draga saman losun gróðurhúsalofttegunda á beinni ábyrgð yfirvalda um 29% fyrir árið 2030 (miðað við 2005). Er þá átt við losun frá sjávarútvegi, vegasamgöngum, iðnaði sem ekki fellur undir stóriðju, landbúnaði o.fl. Þessi tala hækkar að öllum líkindum þegar Evrópusambandið lögfestir markmið um 55% samdrátt að meðaltali í ESB-ríkjum, sem hefur bein áhrif á Ísland og Noreg. Nú er þetta 29%-framlag lögfest en ónógar skyldur hvíla á fyrirtækjum um að halda sig innan þessa marka. Samkvæmt nýjustu spám Umhverfisstofnunar geta Íslendingar að óbreyttu náð að draga saman um 28%.

Yfirlýst stefna ríkisstjórnarinnar er 55% samdráttur fyrir 2030. Enn er ekki ljóst hver hin endanlega niðurstaða er af Íslands hálfu í samstarfinu við ESB og Noreg. Stjórnvöld verða því að ganga lengra og upplýsa um raunverulegan metnað sinn í þessum efnum. Norðmenn hafa þegar skuldbundið sig til að draga úr losun um 50–55% án tillits til niðurstöðunnar innan ESB. Þetta hefur ekki orðið hér.

Markmið Íslands um kolefnishlutleysi árið 2050 hefur verið lögfest litlar skyldur eða kvaðir eru settar á aðila vinnumarkaðarins. Ríkið lætur sér nægja að fyrirtæki heiti því að bæta frammistöðu sína í loftslags- og umhverfismálum, án lögbundinna skilyrða eða sérstaks stuðnings við nýsköpun og rannsóknir. Til þess að brúa bilið á milli 55% samdráttar og 28% samdráttar hvetur Landvernd íslensk stjórnvöld til aðgerða með því að setja á laggirnar hvatningu og sterkan ramma.

Með hvatningu er átt við það að efla og styrkja innleiðingu lausna sem og nýsköpun og rannsóknir í umhverfis- og loftslagsmálum. Íslenska ríkið fær miklar tekjur af umhverfisgjöldum. Tekjur íslenska ríkisins af ETS‒kerfinu og kolefnisgjaldi ættu að renna beint til aðgerða til að draga úr losun. Tekjur ríkisins fyrir árið 2020 voru 1,3 milljarður króna, frá ETS kerfinu og tekjur frá kolefnisgjaldi voru einnig umtalsverðar, og eiga eftir að aukast á næstu árum með væntanlegum breytingum á umfangi ETS-losunargreina.

Með bættum ramma er átt við mælanleg mörk, losunargjöld og markvissa beitingu mengunarbótareglunnar. Setja verður tímasett og magnbundið markmið í loftslagsmálum fyrir atvinnufyrirtækin þannig að þau geti mælt árangur sinn og gert áætlanir á þessu sviði. Þá þarf að skylda fyrirtæki að draga úr losun og/eða setja á losunargjöld, eins og bæði OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn mæla með. Setja þarf töluleg markmið um losun úrgangs og skylda fyrirtæki að draga úr úrgangi, sem dregur úr losun og eflir um leið hringrásarhagkerfið. Síðast en ekki síst verður að færa fram lögbundið bann við innflutningi bíla sem knúnir eru jarðefnaeldsneyti, svo sem til ársins 2025, líkt og í Noregi. Þá fjárfesta bílaleigur í rafbílum, sem leiðir til hraðari orkuskipta í samgöngum.

Kostir við þessar aðgerðir fyrir íslenskt atvinnulíf eru að fjárfestingar í nýsköpun umhverfislausna skila sér í betri frammistöðu, bættu orðspori og aukinni samkeppnishæfni á alþjóðavísu. Í nýlegri skýrslu OECD segir að sé vel á haldið geti slíkar aðgerðir ekki aðeins skilað samfélagslegum ávinningum heldur einnig fjárhagslegum ágóða. Fyrir Íslendinga skila þessar aðgerðir árangri með minni losun gróðurhúsalofttegunda og auka líkur á að Ísland nái markmiðum Parísarsáttmálans, að ekki sé minnst á hið lögfesta ‒ en áfangalausa ‒ kolefnahlutleysi árið 2040 og „sjálfstæða landsmarkmiðinu“ í stefnu ríkisstjórnarinnar um 55% samdrátt árið 2030.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd