Ár vitundarvakningar

Teigsskógur þar sem birki skógur vex í fjörunni við sjó, landvernd.is
Teigsskógur sýnir fágætt samspil náttúrlegs skógar og fjöru, ljósmynd: Margrét Hugadóttir
Stöndum saman, tökum djarfar ákvarðanir og verum öðrum til fyrirmyndar.

Ávarp formanns Landverndar á aðalfundi 30. apríl 2019

Þá er enn eitt starfsárið liðið. Árið 2018-2019 var ár breytinga og umbóta innan Landverndar og tímamótaár í sögu samtakanna. Ný forysta tók við eftir mikinn öldugang árið á undan. Nýr formaður tók við af starfandi stjórnarformanni, Lovísu Ásbjörnsdóttur og nýr framkvæmdastjóri, Auður Önnu Magnúsdóttir, tók við af starfandi framkvæmdastjóra, Salóme Hallfreðsdóttur eftir að fráfarandi framkvæmdastjóri tók við stöðu ráðherra umhverfis- og auðlindamála. Þá flutti skrifstofa samtakanna sig um set og hefur nú hreiðrað um sig í Guðrúnartúni 8 eftir farsæla dvöl í Þórunnartúni.

Umhverfismálum, náttúruvernd og ábyrgri stjórnun auðlinda vex ásmegin og hafa sennilega aldrei, í 50 ára sögu samtakanna, verið jafn umfangsmikil. Skiptir þá ekki máli hvar borið er niður þar sem þessi málefni snerta alla einstaklinga, fyrirtæki, stofnanir, félagasamtök og stjórnvöld, það er enginn undanskilinn.

Í hálfa öld hefur Landvernd staðið vörð um íslenska náttúru og verið virkur þátttakandi í stefnumótun, fræðslu og upplýstri ákvarðanatöku er varðar landnotkun, auðlindir og umhverfi. Því má segja að þörfin fyrir faglega og uppbyggilega umræðu og fræðslu um málefni umhverfisins hafi aldrei verið eins mikil og einmitt í dag. Hlutverk Landverndar er því mikilvægt og mun vaxa á komandi árum.

Með aukinni meðvitund og vitundarvakningu er mikilvægt að hafa skipulagið og forgangsröðina rétta til að tryggja fagmennsku og áframhaldandi árangur. Stjórn Landverndar lagði því mikla áherslu á að endurskipuleggja starfsemina og kortleggja áherslur svo samtökin séu í stakk búin að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem þau standa frammi fyrir.

Strax í upphafi starfsársins hittust stjórn og starfsmenn og fóru saman yfir stöðuna á vinnufundi, þar sem skoðað var hvað mætti betur fara og hvernig hægt væri að efla aðgerðir sem mest í þágu heildarinnar. Fjármál, ferlar og skipulag var eflt og var það einróma vilji starfs- og stjórnarmanna að eiga stefnumótandi fund með félagsmönnum og fá frá þeim skýrt umboð til frekari eflingar starfseminnar.

Á nýliðnu starfsári var í mörg horn að líta en mikilvægast af öllu var að halda umræðunni, fræðslunni og áhrifamætti samtakanna á lofti. Stjórnendur fóru nýjar leiðir þar sem fræðsla var höfð að leiðarljósi og upplýsingar um helstu þætti hvers viðfangsefnis fyrir sig var sett fram á margmiðlunarformi. Með því tókst Landvernd að ná til fleiri, auka skilning og síðast en ekki síst vekja fólk til umhugsunar.

Landvernd hefur unnið að fjölmörgum verkefnum og aðgerðum þar sem lagt hefur verið mat á aðgerðir, tillögur, reglugerðir og þingmál þar sem heildarhagsmunir eru hafðir að leiðarljósi. Landvernd lætur sig lagasetningar og stjórnvaldsaðgerðir varða eins og framkvæmda- og skipulagsáætlanir, hvetur til friðunar ósnortinna svæða og fræðir nemendur þessa lands um mikilvægi umhverfismála og náttúruverndar með hinu öfluga verkefni Skólar á grænni grein (Grænfánaverkefnið). Skólar á grænni grein er eitt mikilvægasta verkefni sem Landvernd sinnir, að öðrum ólöstuðum, og gerir það af kostgæfni. Vel menntaðir sérfræðingar stýra því með markvissum og faglegum hætti og leiða ungu kynslóðina inn í framtíðina þar sem þau læra að umgangast náttúruna að virðingu. 

Loftslagsváin sem mannkynið stendur frammi fyrir í dag er afleiðing vanrækslu gagnvart náttúrunni og taumlausrar neyslu sem á sér engin takmörk. Landvernd lætur sig málið varða og hefur undanfarin ár unnið verkefni þessu tengt með nokkrum sveitarfélögum. Landvernd hefur einnig staðið fyrir umfangsmiklu hreinsunarverkefni – Hreinsum Ísland – sem unnið er í samvinnu við Bláa herinn og hlaut það tilnefningu til Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs haustið 2018.

Árið 2019 er afmælisár Landverndar og fagna samtökin 50 ára starfsafmæli. Af því tilefni hafa samtökin staðið fyrir ýmsum uppákomum með fræðslu og fróðleik sem snertir umhverfis- og náttúruvernd með einum eða öðrum hætti. Viðtökur hafa verið mjög góðar og vonandi mun svo verða áfram út árið. Stefnt er að því að halda afmælisráðstefnu þann 25. október þegar afmælisdaginn ber upp.

Þekkingarauður Landverndar er mikill en án öflugra og vel menntaðra starfsmanna, sem búa yfir sérhæfðri menntun í umhverfisfræðum og miðlun þekkingar, væri það þrekraun að halda starfseminni jafn öflugri og raun ber vitni. Auðlindin okkar er fólkið og því mikilvægt hlúa vel að því og skapa aðlaðandi aðstæður og verkefni.

Ég vil þakka starfsmönnum og samferðamönnum mínum í stjórn Landverndar starfsárið 2018-2019 fyrir gott og árangursríkt samstarf á tímabilinu. Þá vil ég fyrir hönd samtakanna þakka fráfarandi stjórnarmönnum Snorra Baldurssyni, Guðmundi V. Björnssyni, Helgu Ögmundardóttur og Hugrúnu Geirsdóttur fyrir óeigingjarnt og atorkumikið starf í þágu Landverndar og náttúruverndar. Síðast en ekki síst þakka ég félagsmönnum, velunnurum, styrktaraðilum og samstarfsaðilum ómetanlegan stuðning við samtökin.

Um leið og ég vil óska landsmönnum öllum til hamingju með 50 ára afmæli Landverndar, vil ég að við hvetjum alla, þig og mig, til að vinna saman að bættri umhverfis- og náttúruverndarmenningu í landinu. Þannig getum við stolt verið meðal fremstu þjóða sem munu ná Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þannig takast að gera heiminn að betri stað fyrir komandi kynslóðir. Heimsmarkmiðin fá einmitt sérstakt vægi í þessari ársskýrslu en við umfjöllun um verkefni Landverndar er vísað til viðeigandi Heimsmarkmiða sem þau tengjast.

Stöndum saman, tökum djarfar ákvarðanir og verum öðrum til fyrirmyndar. 

Rósbjörg Jónsdóttir
formaður Landverndar 2018 – 2019

Lesa ársskýrslu

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd