Áramótakveðja til forsætisráðherra

Áramótakveðja stjórnar Landverndar til forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, 2019, landvernd.is
Opið bréf stjórnar Landverndar til forsætisráðherra um mikilvægi umhverfisverndar. Þar er einkum fjallað um eitt mikilvægasta úrlausnarefni samtímans, hættulegar breytingar á loftslagi af mannavöldum, sem sífellt fleiri nefna hamfarahlýnun. Í bréfinu er einnig vísað til aðgerða til bæta orðspor Íslendinga í loftslagsmálum. Það eru tillögur sem félagar í Landvernd hafa tekið saman á árinu sem er að líða.

30.12.2019

Opið bréf frá stjórn Landverndar

Ágæti forsætisráðherra

Við þökkum þér, Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fyrir heillaóskir á 50 ára afmælisfundi Landverndar þann 25. október sl. Það er augljóst að þú hefur sett náttúru- og umhverfisvernd í forgang hjá ríkisstjórn þinni. En það eru margar hindranir fyrir sókn í þessum málum. Hugmyndafræði, sérhagsmunir, vani og hræðsla við umskipti standa í vegi nauðsynlegra breytinga. Ríkisstjórn þín getur og verður að gera enn betur á þessu sviði svo ná megi ásættanlegum árangri.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að þú hefur verulegar áhyggjur af hættulegum breytingum á veðurfari af mannavöldum. Okkur virðist sem ríkisstjórn þín sé að leggja upp í vegferð þar sem gera á betur á mörgum sviðum en áður til að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. En lykiltölur sýna að það gengur ekki vel. Betur má ef duga skal. Annað er ekki valkostur.

Ísland hefur allar forsendur til að vera fyrirmynd í loftslagsmálum. Þú hefur mælt fyrir því að við verðum þessi fyrirmynd, en nú um stundir erum við það ekki. Þjóðin er því sem næst heimsmeistarar í losun á hvern íbúa. Það er titill sem við erum ekki stolt af og þurfum að losa okkur við.

Ómarkviss markmið í  loftslagsmálum undanfarin ár eru enn ekki farin að skila í samdrætti á losun. Staðfestum markmið með lagasetningu eins og Danir gerðu nýlega. Setjum lög sem skuldbinda stjórnvöld og fyrirtæki að vinna með skipulögðum hætti að þessu markmiði, og að skila reglulega skýrslu um framgang og framvindu. Lausnir eru fyrir hendi. Nýtum þær.

Stjórn Landverndar telur að setja þurfi skýrt markmið um að notkun jarðefnaeldsneytis á Íslandi verði hætt. Það er augljóst að Ísland getur verið sjálfbært um orku og því ætti það að vera sjálfsagt mál að setja þjóðinni slíkt markmið.

Ísland er eyja sem flytur inn allt sitt jarðefnaeldsneyti.  Það er samfélagslega hagkvæmt fyrir okkur að draga úr þessum innflutningi og skipta yfir í innlenda orkugjafa þar sem það er hægt.  Við eigum næga, endurnýjanlega orku til almennra nota, en seint verður hægt að metta eftirspurn eftir ódýrri orku til stóriðju og gröft eftir „bit-coin“. Notum orkuna af skynsemi og notum hana rétt, án þess að spilla náttúru landsins. Notum innlenda orku til þess að losna við bensín- og dísilreykinn sem veldur okkur skaða og spillir heilsu.

Að endurheimta votlendi, græða upp örfoka land og rækta skóg er nauðsynleg  og góð viðbót. Margt jákvætt hefur verið gert í þeim málum, en það þarf að gera enn betur og ná markvissum árlegum samdrætti í losun og bindingu. Endurnýting eða niðurdæling kolefnis lofar einnig góðu en leysir ekki vandann.

Það þarf kjark og útsjónarsemi til þess að vera fyrirmynd; til að taka erfiðar en til lengri tíma litið, fyrir kynslóðir framtíðarinnar, skynsamlegar ákvarðanir.

Félagar í Landvernd tóku saman á árinu sem nú er að líða yfirlit um mögulegar aðgerðir sem á fáeinum árum munu leiða til þess að verulega dregur úr losun gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Þær munu einnig bæta lífið í landinu til lengri tíma litið. Við hvetjum ríkisstjórn þína til að fara vel yfir þær; útfæra og koma til framkvæmda sem fyrst. Yfirlit yfir þessar aðgerðir er að finna hér.

f.h. stjórnar Landverndar

Tryggvi Felixson, formaður

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd
Scroll to Top