Árangursríkt fyrsta ár og stefnir í stærra annað ár

Offset your carbon footprint by rewilding Iceland, landvernd.is
14.000 tonn af koltvíoxíði bundin til framtíðar. Alls unnu um 250 manns við áburðargjöf, gróðursetningu birkis og fræsöfnun. Um 16.000 birkiplöntur voru gróðursettar á um 40 hektara svæði sunnan við Þjófafoss í Hekluskógum og áburði dreift á það svæði.

Græðum Ísland, eða CARE-Rewilding Iceland eins og verkefnið kallast á ensku, er sjálfboðaliðaverkefni í landgræðslu þar sem hópum gefst kostur á að leggja sitt af mörkum í að bæta gróður- og jarðvegsauðlind landsins. Verkefninu var hleypt af stokkunum á aðalfundi Landverndar þann 13. maí 2017 með athöfn og gróðursetningu í Hekluskógum við Þjófafoss. Um 60 manns tóku þátt, bæði félagsmenn Landverndar og nemendahópar frá Bandaríkjunum og Þýskalandi. Aðstandendur verkefnisins tóku fyrstu skóflustungur við Þjófafoss, en verkefnið er unnið í samstarfi við Hekluskóga og Landgræðslu ríkisins.

Mikil og vaxandi þátttaka

Verkefnið var prufukeyrt árið 2017 og var þá styrkt sérstaklega af Bandaríska sendiráðinu á Íslandi til að efla menningartengsl landanna sem og að styðja náttúruvernd og mótvægisaðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Markmið þess árs var að fara í sex ferðir með hópa af sjálfboðaliðum.Verkefnið gekk vonum framar en samtals voru farnar 11 ferðir árið 2017. Styrkir frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, Ferðafélagi Íslands og WOW air gerðu Landvernd kleift að taka á móti öllum þeim hópum sem höfðu áhuga. Á árinu 2018 eru 20 ferðir áætlaðar.

14.000 tonn af koltvíoxíði bundin til framtíðar

Alls unnu um 250 manns við áburðargjöf, gróðursetningu birkis og fræsöfnun. Um 16.000 birkiplöntur voru gróðursettar á um 40 hektara svæði sunnan við Þjófafoss í Hekluskógum og áburði dreift á það svæði. Ef miðað er við meðalkolefnisbindingu birkis, jarðvegs, lífræns efnis og annars gróðurs, dreifingu birkis og meðallíftíma þess, þá verða bundin 14.000 tonn koltvíoxíðs á svæðinu sem unnið var á árið 2017.

Þróun verkefnisins til langtíma

Þrír starfsnemar úr Umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands voru fengnir til að vinna verkefni við þróun Græðum Ísland. Anna Balafina gerði spurningalista fyrir þátttakendur til að kanna hvað þeim fannst um sjálfboðavinnuna, skipulagið hjá Landvernd og fræðslugildi ferðarinnar. Edite Fiskovica vann könnun meðal fyrirtækja og ferðaþjónustuaðila til að fá upplýsingar um áhuga einkageirans á að bjóða upp á þátttöku í sjálfboðavinnu. Dominika Skwarska gerði spurningalista fyrir landeigendur á ógrónum svæðum, þar sem ekki er hægt að nota hefðbundin tæki til landgræðslustarfa, til að kanna áhuga á að leyfa landgræðslu með sjálfboðaliðum á sínu landi. Einnig fór Guðmundur Ingi Guðbrandsson í könnunarferðir til að meta möguleg ný svæði hjá Landgræðslunni til að útvíkka verkefnið. Farið var í Hítardal á Mýrum, Sauðafell sunnan Jökulsárgljúfurs, Ássand norðan Jökulsárgljúfurs og Leiðvöll á Meðallandi. Sauðafellssvæðið verður prufukeyrt í ár.

Fræðslugildi einn mikilvægasti þáttur verkefnisins

Verkefnið felur ekki bara í sér vinnu við landgræðslu heldur einnig fræðslu um sögu landeyðingar og uppgræðslu á Íslandi og fræðslu um vistheimt, lífbreytileika og loftslagsbreytingar, en farið er með hópa í Sagnagarð, fræðslusetur Landgræðslunnar, þegar tími gefst. Fræðslubæklingur fyrir þátttakendur var gerður fyrir árið 2018 til að styðja við fræðslu á vettvangi, en hann var unninn með sérfræðiaðstoð frá Kristínu Svavarsdóttur hjá Landgræðslunni.

Svör aðspurðra þátttakenda sýna fram á mikilvægi fræðslunnar, enda gerir hún vinnuna þýðingameiri:

“Love all the amazing facts and knowledge I’ve learned, especially from the soil conservation! It was really nice as well to know that we were giving back to the environment that we damaged from our trip over to Iceland.”

“I learned a lot from the soil conservation area in regards to what the problem is and how to fix it!”

“Very eye-opening experience, thank you!”

 Hópur bandarískra nemenda eftir gróðursetningu á vegum Græðum Ísland ásamt Guðmundi Inga Guðbrandssyni þáverandi framkvæmdastjóra Landverndar

 

CARE hleypt af stokkunum, landvernd.is

Frá vinstri: Snorri Baldursson (fyrrverandi formaður Landverndar), Jill Esposito (Chargé D’Affaires, Bandaríska sendiráðinu á Íslandi), Caitlin Wilson (verkefnisstjóri Græðum Ísland), Sveinn Runólfsson (landgræðslustjóri 1972-2016 og verndari Græðum Ísland), Hreinn Óskarsson (Skógrækt ríkisins), Árni Bragason (landgræðslustjóri), Snæbjörn Guðmundsson (formaður Landverndar), og Guðmundur Ingi Guðbrandsson (þáverandi framkvæmdastjóri Landverndar).

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd