Landvernd starfar um allt land, landvernd.is

Ársskýrsla Landverndar 2012-2013

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Í ársskýrslu Landverndar 2012-2013 er stiklað á stóru um starf Landverndar á árinu.

Lesa ársskýrslu Landverndar 2012-2013

Leiðari

Landvernd um allt land

Leikvangur Landverndar er landið allt. Það fer ekki á milli mála þegar verkefni samtakanna eru sett upp á myndrænan hátt, eins og á meðfylgjandi korti. Skólar á grænni grein eru 210 og starfsfólk verkefnisins hélt 58 kynningarfundi um allt land á liðnu ári auk þess sem það vann 70 úttektir og afhenti 70 Grænfána. Vöxtur hefur orðið í Bláfánaverkefninu og nú hafa sjö hafnir og baðstrendur sótt um að fá að flagga fánanum. Í Jarðhitaverkefninu er unnið að fræðslu og kynningu vestan frá Reykjanesi austur að Mývatni. Á sviði náttúruverndar er unnið að fjölda verkefna um land allt, ýmist í formi ferða, umsagna, áskorana, umræðu í fjölmiðlum, samskiptum við sveitarstjórnir, ráðuneyti og Alþingi o.s.frv. Það má því með sanni segja að Landvernd sé landssamtök á sviði umhverfisverndar.

Landvernd vinnur um allt land, segja má að samtökin séu landssamtök á sviði umhverfisverndar, landvernd.is

Umhverfisverndarfólk hefur unnið mikilvæga sigra á undanförnum árum. Þannig skrifuðu t.d. rúmlega 45.000 manns undir kröfu Umhverfisvina um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar árið 1999. Um 15.000 manns tóku þátt í Jökulsárgöngu niður Laugaveginn gegn stóriðjustefnunni árið 2006 og 30.000 gestir sóttu Náttúrutónleika í Laugardal árið 2008.

Þannig getur náttúruverndarhreyfingin tekið glæsilega spretti. En því miður skortir stundum nokkuð á úthaldið. Þrátt fyrir að herferðir, undirskriftasafnanir og viðburðir hafi mikið að segja þá verður umhverfisverndarbaráttan aldrei unnin í eitt skipti fyrir öll með slíkum aðferðum. Fjarri kastljósinu þarf að sinna síður spennandi verkefnum, en nauðsynlegum. Það þarf að fylgjast með fyrirætlunum orkufyrirtækja, stóriðju og sveitarfélaga. Hafa auga með því hvaða leyfi stofnanir veita og gæta að því hvaða framkvæmdir eru á leið í mat á umhverfisáhrifum. Veita Alþingi og ráðuneytum aðhald. Skrifa umsagnir og álit um áætlanir, skipulag og frumvörp. Umhverfisverndarbaráttan er því langhlaup fremur en spretthlaup.

Starfsemi umhverfisverndarhreyfingarinnar er borin uppi af áhugasömum einstaklingum í sjálfboðavinnu sem eru reiðubúnir til að leggja á sig mikla vinnu en sem neyðast svo til að hverfa frá baráttunni til að sinna vinnu og fjölskyldu. Hinumegin átakalínunnar vinnur vel launaður hópur sérfræðinga við að undirbúa næstu framkvæmdir. Þegar liðskipanin er svo ójöfn er hætt við að fari líkt og segir í ljóði Jóns úr Vör, að hamingjan búi í baráttunni, en vonbrigðin á vegarenda. Íslensk náttúra verður ekki varin af áhuga einum saman. Baráttan krefst skipulags, fjármagns og sérfræðiþekkingar.

Eitt mikilvægasta verkefni Landverndar er að búa svo um hnútana að hamingjan búi ekki bara í baráttunni, heldur einnig á leiðarenda.

Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landverndar

Share on facebook
Share on twitter
Share on email
Scroll to Top