Ársskýrsla Landverndar 2013-2014

Græna gangan var vel sótt, landvernd.is
Í ársskýrslu Landverndar 2013-2014 er stiklað á stóru um starf Landverndar á árinu.

Lesa ársskýrslu Landverndar 2013-2014

Leiðari

 

Þáttaskil í starfsemi Landverndar

Það starfsár sem senn er á enda hefur markað þáttaskil í starfsemi Landverndar. Frá stofnun samtakanna árið 1969 voru þau lengst af samtök félaga og fyrirtækja og ekki er nema rétt rúmur áratugur síðan einstaklingar fengu að gerast félagar. Lengi vel voru félagsmenn um 500 talsins og í lok síðasta starfsárs voru þeir um 750. En á því starfsári sem nú er að ljúka hefur félagsmönnum fjölgað svo um munar og eru nú um 2.500. Það er um 230% fjölgun á einu ári, fimmföldun á tveimur árum.

Þó að þetta sé mikið fagnaðarefni þá eigum við enn langt í land. Ef við miðum Landvernd við norræn systursamtök og setjum okkur það markmið að félagsmenn verði sama hlutfall af þjóðinni og hjá stærstu náttúruverndarsamtökunum í Svíþjóð og Danmörku þá þyrftu félagsmenn í Landvernd að vera á milli 6.500 og 8.000. Það er verðugt markmið sem við skulum stefna að á næstu misserum og árum.

Nokkrar ástæður eru fyrir miklum vexti Landverndar að undanförnu, en miklu skipti að í kjölfar Alþingiskosninga í vor boðaði ný ríkisstjórn strax á fyrstu dögum sínum stórfelldar stóriðjuframkvæmdir, eignarnám á landi fyrir háspennulínur, virkjun háhitasvæða á Reykjanesskaga, virkjun Urriðafoss í Þjórsá, virkjanaframkvæmdir í Skaftárhreppi og að miðhálendið yrði opnað fyrir virkjanaframkvæmdum. Orri Vigfússon, formaður Verndarsjóðs villtra laxastofna í Norður-Atlantshafi, skrifaði þá: ,,Ég varð þó órólegur við nýjustu fréttir um hvernig stýra ætti umhverfismálum. Í þeim efnum er boðað sama fagleysi og eftirlitsleysi og áður ríkti í bankakerfinu.” Orri var ekki einn um að vera órólegur yfir stefnumörkun nýrrar ríkisstjórnar því að nokkur þúsund manns tóku þátt í grænni göngu náttúruverndarhreyfingarinnar 1. maí og á útifundi Landverndar við Stjórnarráðið 28. maí. Nokkur hundruð manns skráðu sig í Landvernd við það tilefni.

Senn verður ár liðið frá kosningum og sókn virkjanaiðnaðarins, stjórnvalda og stofnana í náttúruperlur og víðernin herðist enn. Landsnet undirbýr háspennulínu yfir Sprengisand, atvinnu- vegaráðherra hefur heimilað eignarnám lands á Reykjanesskaga fyrir suðvesturlínu, friðsamir mótmælendur voru handteknir í Gálgahrauni, Landsvirkjun undirbýr virkjanir m.a. við Mývatn, Gjástykki, á miðhálendinu og við Þjórsárver og Orkustofnun hefur lagt fram tillögu að 91 virkjanasvæði fyrir verkefnisstjórn rammaáætlunar, þar af eru 19 svæði sem áður hafði verið raðað í verndarflokk. Til að bæta gráu ofan á svart hafa landeigendur og stjórnvöld vegið alvarlega að almannaréttinum – rétti almennings til frjálsra ferða um náttúru Íslands – með gjaldtöku við náttúruperlur og tillögu um náttúrupassa.

Allt þetta hefur vakið mikla reiði meðal þeirra sem sjá skynsemina og sóknarfærin í því að vernda náttúruperlurnar og víðernin – meiri reiði en ég hef áður orðið vitni að í náttúruverndarbaráttunni. Ágústínus frá Hippo taldi að reiði út í ríkjandi ástand væri önnur af tveimur forsendum fyrir því að við gætum haldið í vonina um breytingar. En reiðin ein færir okkur engar umbætur, því hugrekkið til að sætta okkur ekki við ríkjandi ástand er hin forsendan fyrir voninni um bjartari tíð. Það eru ærin verk sem bíða náttúruverndarsinna, að minnsta kosti næstu þrjú árin. Í þeirri baráttu þurfum við að vanda okkur við að virkja reiðina til góðra verka og gefa fólki tækifæri til að sýna hugrekki í baráttunni um náttúru Íslands. Vonandi eru þó átök lögreglu við friðsama Hraunavini í Gálgahrauni þann örlagaríka dag 21. október 2013 ekki forsmekkurinn af því sem koma skal.

Guðmundur Hörður Guðmundsson formaður Landverndar

 

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd