Áskorun: Höfnum risavöxnu vindorkuveri á Fljótsdalsheiði

Ég skora á norska orkufyrirtækið Zephyr AS að falla frá áformum um að reisa risavaxið vindorkuver í landi Klaustursels á Fljótsdalsheiði. Jafnframt skora ég á sveitarstjórn Múlaþings að hafna öllum slíkum hugmyndum.

Vindorkuverið Klausturselsvirkjun á Fljótsdalsheiði er áætlað allt að 500 MW sem myndi gera það að næststærstu virkjun landsins. 

Gert er ráð fyrir 70 -100 risamöstrum sem hefðu í för með sér gríðarlega eyðileggingu á landslagi og víðernum, óafturkræft jarðrask og eyðingu votlendissvæða.

Af orkuverinu hlytist mengun, truflun og ógn við gróður, fugla og spendýr á svæðinu, m.a. hreindýr, himbrima, álftir og gæsir.

Þeir sem vilja njóta svæðisins yrðu óhjákvæmilega fyrir truflun og óþægindum. 

SKRIFAÐU UNDIR

Með því að skrifa undir veitir þú Landvernd leyfi til að afhenda forsvarsmönnum Zephyr AS og sveitarstjóra Múlaþings undirskrift þína.

Landvernd hefur sent Skipulagsstofnun umsögn þar sem fjöldi athugasemda er gerður við matsáætlun um vindorkuver í landi Klaustursels á Fljótsdalshéraði.

Svæðið

Virkjanasvæðið er á Fljótsdalsheiði, fremur lítt snortnu heiðarlandi, þar sem er viðkvæmt vatnasvið og vistkerfi, m.a. viðkvæm votlendissvæði, og farleiðir mikilvægra fuglastofna. Ásýndarmengun vegna framkvæmdanna yrði séstaklega mikil á þessu viðkvæma svæði: Vindorkuver með 70-100 risamöstrum hefði í för með sér gríðarlegt jarðvegsrask á stóru svæði, algerlega óafturkræft. Virkjunin myndi eyða víðernum og  raska votlendi svæðisins varanlega.  Bæði víðerni og votlendi njóta verndar náttúruverndarlaga. 

Ef af verður yrðu tvær stærstu virkjanir landsins hlið við hlið á hálendi Austurlands – á stórum svæðum sem áður voru nær ósnortin. Virkjanasvæðið yrði alls 41 km2 og á nálægu svæði er Hálslón, manngert lón Kárahnjúkavirkjunar sem er alls 57 km2

Framkvæmdasvæðið yrði á stærð við hálft Þingvallavatn eða jafn stórt og 5.756 fótboltavellir lagðir saman – og slagar upp í Hálslón, eins og áður segir. Sjónmengun vindorkuversins næði yfir miklu stærra svæði því mannvirkin myndu sjást vel frá þjóðgarðinum og öllum heiðum og fjöllum í nágrenninu, m.a. Snæfelli og víða úr Vatnajökulsþjóðgarði. Þannig skerðast víðerni svæðisins og upplifunin af þeim.

Fljótsdalsheiði er um 600 m yfir sjávarmáli og þaðan er því víðsýnt til allra átta. Það eitt og sér myndi gera vindorkuverið afar áberandi. Virkjanasvæðið er í grennd við náttúruperluna Stuðlagil sem er í dag mest auglýsti og vinsælasti áningastaður ferðamanna á Austurlandi. Einnig sæjust mannvirkin vel frá mjög vinsælum áfangastöðum eins og Hengifossi og Skriðuklaustri í Fljótsdal. 

Mannvirkin

Hvert mastur yrði allt að 250 m að hæð, eða tæplega 3 Hallgrímskirkjur. Spaðarnir sem knýja hverja vindtúrbínu yrðu allt að 80 m að lengd hver, sem þýðir 160 m þvermál spaðanna á fullri ferð.  Við hvert mastur þarf 1.200 fm mikið styrktan pall undir krana sem notaðir eru til að koma möstrunum á sinn stað. Undir hvert mastur þarf auk þess 120 fm öfluga undirstöðu. Þessu öllu til viðbótar þarf öflugan a.m.k. 6 m breiðan veg að hverju mastri sem þolir mikla þungaflutninga, bæði til að koma hlutum mastursins á staðinn og til að færa kranana sem reisa möstrin. Gríðarlega umfangsmikil jarðvegsskipti þarf til að  að koma fyrir öllum þessum vegum sem gætu orðið tugir km að lengd. Og þessu öllu til viðbótar þarf að grafa upp allt að 12 m breitt belti fyrir jarðvegsstrengi um langan veg.

Í ljósi umfangs vindorkuversins yrði  óhjákvæmilegt að opna nýjar og stórar efnistökunámur – þannig yrði lítt snortinni náttúru í raun breytt í iðnaðarsvæði. Þá er ótalið  rask vegna tengivirkja vindorkuversins ef af verður. Allar þessar framkvæmdir kalla því á óafturkræf náttúruspjöll á viðkvæmum heiðarlendum.

Mengun og áhrif á menn og dýr

Spaðarnir sem notaðir eru í vindorkuver nútímans innihalda ýmis óæskileg spilliefni sem fylgja trefjaplastframleiðslu – og auðvitað slitna þeir með árunum. Afleiðingin er hætta á  örplastmengun í nálægum vistkerfum, sem getur haft ófyrirséðar afleiðingar.  Ending spaðanna ræðst almennt af veðurfari, t.d. veðurhæð og margvíslegri úrkomu eins og rigningu, snjókomu, hagléli, slyddu eða sandfjúki.

Vegna efnasambanda í spöðunum er ekki hægt að endurvinna töluverðan hluta þeirra; því miður er því enn verið að urða spaða sem er með öllu óforsvaranlegt.  Þrátt fyrir að nú standi yfir tilraunir með endurvinnslu á spöðum þá virðist langt í land með að vindorkuiðnaðurinn nái ásættanlegum árangri í þeim efnum.

Hljóð- og ljósmengun fylgir öllum vindorkuverum, misjafnlega þó eftir gerðum og stærðum en í öllu falli er um mikil og neikvæð umhverfisáhrif að ræða. Á möstrunum eru blikkandi ljós sem valda óþægindum og verulegri truflun um langa leið, auk verulega neikvæðra áhrifa á upplifun fólks af t.d. norðurljósum, sólarupprás og sólarlagi.

Sveiflukenndur þytur frá spöðum vindorkuvera veldur hljóðmengun af ýmsum toga. Áhrif lágtíðnihljóða sem berast mjög langt eru nú til sérstakrar rannsóknar, m.a. áhrif þeirra á dýralíf og fólk.

Þekkt er að vindorkuver eru skaðræði fyrir fugla. Á svæðinu eru fálkar, rjúpa, heiða- og grágæsir, álftir og himbrimar, sem eru á válista. Vindorkuverið yrði alveg við mikilvægt fuglasvæði á Jökuldalsheiði þar sem fálkar, heiðagæsir og himbrimar verpa. Farleiðir heiðagæsa þarf að rýna nánar á þessu svæði.

Framkvæmdaaðilar

Zephyr Ísland, dótturfélag hins norska Zephyr orkufyrirtækis,  stendur fyrir áformunum um Klausturselsvirkjun, næststærstu virkjun landsins upp á 500 MW. Félagið áformar 9 önnur vindorkuver á Íslandi.

Móðurfélagið Zephyr er í eigu þriggja norskra orkufyrirtækja, eitt þeirra er í eigu norskra sveitarfélaga og fylkja. Á heimasíðu félagsins lýsir það sér þannig: „Endurnýjanlegt orkufyrirtæki í norskri eigu með norrænan metnað.“

Fyrirtækið hefur lent í harðvítugum deilum við norsk samfélög þar sem það hefur farið fram með offorsi gegn íbúum, m.a. þegar það setti upp vindorkuver á hið stórbrotna fjall í Haramsøy í óþökk íbúa.

 Samfélag

Virkjanaáform Zephyr Ísland hafa nú þegar valdið usla í Múlaþingi.  Margir íbúar hafa leitað liðsinnis Landverndar um upplýsingar og möguleg viðbrögð, en samtökin starfa á landsvísu að náttúruvernd og veita leiðbeiningar og ráðgjöf um leiðir til að efla vernd náttúru, landslags og víðerna Íslands.

Austurland þarf síst á því að halda að efnt sé til óvinafagnaðar með virkjanaáformum að umfangi sem er óboðlegt íslenskri náttúru og samfélögum. Auk þess liggja ekki fyrir lög og reglur um vindorku og því er ótímabært að leggja upp í vegferð af þessu tagi. Þá hefur ýmislegt komið í ljós um áhrif vindorkuvera sem ætti að vera sveitarfélögum víti til varnaðar að leggja upp í slíka för með fjárfestum sem hafa hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi.

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd