Landvernd leggst gegn því að Artic Sea Farm fái rekstrarleyfi fyrir auknu sjókvíaeldi í Arnarfirði. Í stuttu máli er ólýðræðislegt að stækka sjókvíaeldi þegar skipulagi fyrir haf- og strandsvæði er ólokið, taka verður fullt mark á mati á umhverfisáhrifum og áhrifin af sjókvíaeldi eru verulega neikvæði og takmarka aðra nýtingu.
Neðangreindur texti er brot úr athugasemd okkar til MAST, smelltu á hnappinn neðst í greininni ef þú vilt lesa athugasemdina í heild sinni.
Ólýðræðislegt ferli
Nú stendur yfir vinna við skipulag haf og strandsvæða á Vestfjörðum. Skipulag haf- og strandsvæða hefur ekki verið lokið með fullri aðkomu samfélagsins. Ef sniðganga á hina lýðræðislegu leið sem skipulag haf- og strandsvæða felur í sér með samtali og samráði við samfélagið og aðra hagsmunaaðila á svæðinu, er fiskeldisfyrirtækjum gefin full heimild til að klára skipulagsgerð áður en öðrum hagsmunaðilum verður hleypt að borðinu. Slík vinnubrögð gagnvart samfélaginu brjóta gegn grundvallarreglum og um jafnræði þegar kemur að jafn stórum málum og hér um ræðir og varðar okkar sameiginlegu auðlindir.
Mat á umhverfisáhrifum ekki tekið til greina
Þá þykir Landvernd bæði óeðlilegt og varhugavert að skilyrði sem sett eru fram í áliti Skipulagsstofnunar á umhverfisáhrifum séu ekki tekin með beinum hætti inn í rekstrareyfið. Sérstaklega í ljósi þess að nú hefur verið áréttað að burðarþolsmat sé háð ákvæðum laga um umhverfismat.
Óboðleg aðferð við matvælaframleiðslu?
Á hverjum degi drepst gríðarlegur fjöldi eldislaxa í sjókvíum. Iðnaðurinn gerir ráð fyrir því að fimmti hver fiskur drepist vegna aðstæðna í kvíunum. Opnar sjókvíar eru gróðrastía lúsa sem eitra þarf fyrir reglulega. Laxalús étur eldisdýrin lifandi í netapokanum á meðan villtur lax getur losað sig við lúsina þegar hann gengur í árnar, því lúsin þolir illa ferskvatn. Þá er einnig um að ræða aðra alvarlega sjúkdóma eins og hjartavandamál og vansköpun sem valda fiskunum þjáningu.
Botndýralíf þurrkast út undir kvíunum því þar safnast þykkt lag af úrgangi og rotnandi fóðurleyfum. Stækunin kemur til með að hafa neikvæð áhrif á rækjustofninn í firðinum ef ítrekað þarf að nota lyf gegn laxalús. Afar líklegt er að slík lyf séu notuð.
Aukning sjókvíaeldisins hefur gífurlega neikvæð áhrif á ásýnd og landslag fjarðarins. Strokulax getur haft bein áhrif á erfðamengi villtra laxastofna. Að auki getur sjúkdómasmit frá eldislaxi haft bein áhrif á villta laxastofna. Í reglugerð um fiskeldi (540/2020) er lagt bann við því að stunda sjókvíeldi með minna en 5 km fjarlægð frá slíkum svæðum. Gæta þarf þess að framlagðar tillögur brjóti ekki á gildandi verndunarákvæðum.
Neikvæð sjónræn áhrif
Sjókvíarnar, með öllu því sem þeim fylgja, mun spilla útsýni og upplifun þeirra sem vilja njóta náttúru og landslags við Arnarfjörð. Eldiskvíarnar verða sýnilegar öllum þeim sem aka Ketildalaveg og þeim sem ganga út á Vaðalinn við Hvestu. Hvestufjaran er einstök og hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og þá sem búa í Ketildölum. Fólk fer um svæðið á kajak og sjósund hefur einnig verið stundað við fjöruna.
Umhverfisvænt eða ekki?
Atric Sea Farm segir „áformin byggja á því að framleiðslan og afurðir verði umhverfisvænar og framleiddar í sátt við vistkerfi framleiðslusvæða“. Auðsýnilega er þessi staðhæfing langt frá því sanna eins og álit Skipulagsstofnunar sýnir.
Skipulagsstofnun telur stækkunina hafa neikvæð áhrif á botndýralíf, villta laxastofna og ásýnd og landslag fjarðarins. Auk þess er talið líklegt að stækkunin hafi neikvæð áhrif á rækjustofninn ef ítrekað þarf að nota lyf gegn laxalús. Afhverju stendur til að veita leyfi þegar svo margt mælir gegn því? Hvers vegna sættum við okkur við þetta?
Ekki réttlætanlegt að veita leyfi
Landvernd telur ekki réttlætanlegt að veita rekstrarleyfi fyrir auknu sjókvíaeldi í Arnarfirði. Við hvetjum MAST eindregið til þess að falla frá áformunum þar til vinnu við skipulag haf og strandsvæða á Vestfjörðum er lokið. Enn fremur telur Landvernd rétt að velta upp spurningunni hvort sjókvíaeldi sé réttlætanleg aðferð við matvælaframleiðslu í ljósi þeirra neikvæðu áhrifa sem iðnaðurinn hefur almennt í för með sér. Er ekki tími til kominn að horfa til framtíðar?