Landvernd hefur birt athugasemdir vegna draga að tillögu að matsáætlun Vestfjarðavegar (60) milli Bjarkalundar og Melaness í Reykhólahreppi.
Breiðafjörður er einstakt svæði og innan þess er stór hluti af fjörum, leirum og sjávarfitjum á Íslandi. Leirur og sjávarfitjar njóta sérstakrar verndar samkvæmt 37. gr. náttúruverndarlaga nr. 44/1999 og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Fjörur á svæðinu njóta auk þess verndar samkvæmt lögum 54/1995 um vernd Breiðafjarðar. Landvernd leggur ríka áherslu á að fullt tillit sé tekið til þessara laga við umbætur í vegasamgöngum við Vestfjarðaveg.
Landvernd leggur áherslu á að spornað sé við frekari þverunum eða eyðileggingu á leirum og sjávarfitjum og leitað leiða til að komast hjá því að fara um óraskað land. Landvernd telur að Vegagerðinni beri að fjalla um fleiri kosti í frummatsskýrslu en gert er ráð fyrir í drögum að matsskýrslu. Mikilvægt er að matsáætlun geri ráð fyrir því að skoðaðir séu sem flestir mögulegir kostir, þannig að finna megi hvaða leiðir eru líklegar til að hafa minnst umhverfisáhrif. Mat á umhverfisáhrifum á þannig að nýtast sem samanburður á mismunandi kostum framkvæmda.