Austur-Reykjadalir eru staðsettir norðan við Hrafntinnusker innan Torfajökulsöskjunnar og er þar að finna mikið hverasvæði. Um dalina leggur fjöldi göngufólks leið sína ár hvert en þeir liggja um hinn víðfræga Laugaveg og eru því mikilvægur hluti af heildarásýnd svæðisins. Á Torfajökulsvæðinu er jarðhita helst að finna í sjö þyrpingum, þ.e. við Landmannalaugar, Blautukvísl, Vestur- og Austur- Reykjadali, Ljósártungur, Jökultungur og Kaldaklof. Ná jarðhiti og jarðhitamerki á svæðinu yfir um 200 km2, en öll svæðin í Friðlandi að Fjallabaki eru utan laga um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ekki stendur til að virkja á svæðinu.