Bætum samgöngur um Vestfirði í sátt við náttúruna

Teigsskógur er einstakt svæði þar sem náttúrulegur birkiskógur mætir fjöru, landvernd.is
Fuglavernd, Landvernd, Náttúruverndar- samtök Íslands og Náttúruvaktin hvetja Alþingi til þess að taka af skarið með lagasetningu eða þingsályktun

Áskorun frá Fuglavernd, Landvernd, Náttúruverndarsamtökum Íslands og Náttúruvaktinni.

Fuglavernd, Landvernd, Náttúruverndarsamtök Íslands og Náttúruvaktin hvetja Alþingi til þess að taka af skarið með lagasetningu eða þingsályktun og sjá þannig til þess að Vestfjarðarvegi verði valin ný veglína með göngum undir Hjallaháls og Gufudalsháls. Þar með væri fallið frá vegagerð í gegnum Teigsskóg um mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar, sbr.úrskurð umhverfisráðherra Jónínu Bjartmarz. Við blasir að göng undir hálsana eru besti kosturinn m.t.t. náttúrufars, umferðaröryggis, styttingar leiðar, lágmörkunar kostnaðar og hámörkunar arðsemi. Sú leið var hinsvegar ekki skoðuð sem valkostur í mati á umhverfisáhrifum og því átti umhverfisráðherra þess ekki kost að gera ráð fyrir göngum undir hálsana í úrskurði sínum.

Göng undir Hjallaháls og Gufudalsháls myndu:
• bæta umferðaröryggi á Vestfjarðavegi,
• koma í veg fyrir skemmdir á Teigsskógi,
• koma í veg fyrir að tveim gjöfulum arnarhreiðrum verði ógnað,
• vernda leirur Djúpafjarðar sem eru mikilvægar fyrir vaðfugla,
• tryggja áframhaldandi þangskurð í fjörðunum
• stytta leiðina um Barðastrandarsýslu um 20 km og a.m.k. 8 km umfram leið B.
Með gangaleið getur langþráður draumur íbúanna um láglendisveg um Gufudalasveit orðið að veruleika.

Teigsskógur, sem er víðáttumesti náttúrulegi birkiskógurinn á Vestfjörðum og með þeim stærri á landsvísu, yrði fyrir miklum skaða ef vegagerðin yrði framkvæmd á grundvelli úrskurðar umhverfisráðherra. Um er að ræða upprunalegan birkiskóg með reynitrjám og blómlegum undirgróðri sem á sér fáa líka. Teigsskógur er á náttúruminjaskrá og nær væri að huga að því að gera verndun hans hærra undir höfði, t.d. með stofnun friðlands og gerð fræðslustíga, fremur en að rýra hann með vegagerð.

Djúpifjörður og Gufufjörður eru hluti af Breiðafjarðarfriðlandi sem er alþjóðlegamikilvægt fuglasvæði, sbr. Birdlife International skrá um IBA-svæði, þar eru sjávarfitjar og leirur sem ber að vernda. Leiðin ógnar tveim gjöfulum arnarsetrum og gæti gert að engu möguleika Reykhólasveitar á tekjuskapandi náttúruskoðun svo sem með arnarfræðslu- og skoðunarsetri.

Ekki hefur verið lagt mat á umhverfiskostnaðinn sem myndi hljótast af vegagerðinni. Allt frá 2001 hefur OECD, Efnahags- og framfarastofnun Evrópu, bent Íslendingum á mikilvægi kostnaðar/ ábatagreiningar við ákvörðunartöku þar sem náttúruverðmæti eru í húfi.

Vestfirðir eru í mikilli sókn sem ferðamanna- og útivistarsvæði og munu því bættar samgöngur til Vestfjarða með gangagerð nýtast ekki einvörðungu Vestfirðingum heldur landsmönnum öllum.

Greinargerð:

Víðsvegar á Vestfjörðum mætti bæta samgöngur til muna og auka umferðaröryggi með gangagerð undir snjóþunga og oft á tíðum torfæra hálsa. Kostnaður við jarðgangagerð hefur farið lækkandi á undanförnum árum. Gangagerð er vel til þess fallin að bæta samgöngur með minni umhverfisáhrifum en t.d. landfyllingar fyrir firði og víkur. Jafnframt má með gangagerð stytta vegalengdir, auka umferðaröryggi og minnka landlýti vegna náma. Það er því full ástæða til þess að horfa í ríkari mæli til gangagerðar sem valkosts í vegagerð þegar leiðir eru bornar saman í mati á umhverfisáhrifum.

Afar bagalegt er að göng undir Hjallaháls og Gufudalsháls voru ekki tekin til athugunar í mati á umhverfisáhrifum. Ein meginrót vandans liggur í því að skv. lögum um mat á umhverfisáhrifum er það í höndum framkvæmdaaðila að leggja fram valkosti og eru valkostirnir oft á tíðum sýndarkostir til þess að uppfylla form laganna en ekki raunverulegir kostir sem teknir eru til raunverulegrar, efnislegrar umfjöllunar og samanburðar til þess að velja megi besta kostinn. Um þetta má nefna fjölmörg dæmi víðsvegar á landinu, og til þess að vinna bug á þessum vanda þarf breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

Vegstæði með jarðgöngum undir hálsana og nýjum vegi um Ódrjúgsháls er mun umhverfisvænni kostur en sá sem gert er ráð fyrir í úrskurði umhverfisráðherra. Gangagerð myndi einnig auka mikið umferðaröryggi og stytta leiðina um 20 km og rúmlega 8 km miðað við leið B án þess að því fylgi aukinn kostnaður. Með því að velja gangaleið opnast möguleikar á að meta samhliða leið og kostnað við jarðgöng undir Klettsháls sem er langversti farartálminn milli Vesturbyggðar og Reykhólasveitar. Annar kostur þessarar leiðar er að bæirnir í Gufudal Djúpadal myndu haldast í byggð, en vegstæðið sem úrskurður ráðherra gerir ráð fyrir myndi gera þessa bæi mjög afskekkta. Vegstæði skv. úrskurði ráðherra kallar á langar heimreiðar að Djúpadal, Brekku og sumarbústöðum í Djúpafirði.

Allt bendir því til þess að leið með göngum undir hálsana sé best m.t.t. til náttúruverndar, umferðaröryggis, styttingar vegalengda og kostnaðar eins og meðfylgjandi gögn frá Gunnlaugi Péturssyni sýna. Jafnvel vegur með göngum undir Hjallaháls eingöngu er réttlætanlegur hvað varðar kostnað.

Hvað varðar rekstur og viðhald jarðganga í samanburði við fjallvegi er rétt að halda því til haga að í jarðgöngum verður sjaldan eða aldrei hálka og snjómokstur er óþarfur. Ætla má að viðhald og rekstur stuttra jarðganga sé ódýrara en viðhald mun lengri vegar með ströndinni um brattar hlíðar. Einnig má leiða líkur að því að göng undir umrædda hálsa verði lögð hvort sem er þegar fram líða stundir.

Í úrskurði ráðherra eru tilgreindar mótvægisaðgerðir um að rækta annan skóg annars staðar á Vestfjörðum. Í þessu samhengi er rétt að benda á að verndargildi Teigsskógar er ekki síst fólgið í því þeirri landslagsheild sem skógurinn er í ofan við strandlengjuna að Breiðafirði, sem er friðaður. Þá er skógurinn náttúrulegur birkiskógur. Vandséð er að ræktaður skógur á öðrum stað bæti tjónið sem myndi fylgja vegagerðinni.

Gangaleiðin er ekki bara umtalsverð vegabót heldur opnast nýir og áður vannýttir möguleikar í atvinnuþróun á svæðinu. Mikil verðmæti eru fólgin í náttúru á svæðinu og hafa verið sett sérlög til að stuðla að verndun Breiðafjarðar, einkum landslags, jarðmyndana, lífríkis og menningarminja. Einmitt í þessari sérstöðu eru fólgin einstök tækifæri í þróun náttúru- og útivistartengdrar ferðaþjónustu. Verði gangaleiðin farin gerir það sveitarfélaginu kleift að reisa Arnarskoðunarsetur sem á sér vart sinn líka í heiminum og mun draga að fólk frá öllum heimshlutum jafnt vísindamenn til rannsókna, fuglaskoðara og skólabörn. Áhrif ránfuglasetra á afskekktar byggðir, s.s. eyjuna Mull á Skotlandi, eru gríðarleg. Á aðeins örfáum árum hafa tekjur af arnarskoðun á Mull greitt fyrir nýtt íþróttahús í þorpinu og jaðaráhrifa gætir hvarvetna. Arnarskoðunarsetur getur skapað mikla möguleika í Reykhólahreppi.

Ljóst er að það er hægt að bæta samgöngur til um Vestfirði án þess að valda því tjóni á náttúru Íslands sem hér stefnir í. Leiðin sem hefur verið valin er í andstöðu við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun því finna ber leiðir til að ná markmiðum án þess að eyðileggja náttúruna og það er auðgert í þessu tilfelli. Taki nú Alþingi af skarið!

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd