BRAS – menningarhátíð barna og ungmenna á Austurlandi er haldin í fjórða sinn í haust um allt Austurland.
Þema BRAS í ár er náttúru- og umhverfisvernd.
Landvernd er einn af nokkrum samstarfsaðilum BRAS í ár.
Guðrún Schmidt, sérfræðingur Landverndar á Austurlandi verður ásamt listakonunni Írisi Lind Sævarsdóttur með framtíðarsmiðjuna
«Svona viljum við hafa það – Valdefling á tímum loftslagshamfara»
í Menntaskólanum á Egilsstöðum. Fjallað verður um loftslagsmálin, heimsmarkmiðin og sjálfbæra þróun á áhugaverðan, fjölbreyttan og áhrifamikinn hátt og verða og málin sett í samhengi við daglegt líf.
Mikilvægt er að tala opinskátt um þessi ógnvekjandi og yfirþyrmandi mál og gefa nemendum tækifæri að vinna úr sínum tilfinningum og framtíðarhugmyndum á uppbyggilegan hátt.
Ýmsir leikir og verkefni munu stuðla að hæfni nemenda til virkra þátttöku, gagnrýninnar og þverfaglegrar hugsunar, samkenndar og getu til aðgerða.
Sérstaklega verður stuðlað að valdeflingu nemenda m.a. með því að þeir vinna á skapandi hátt úr sínum hugmyndum um sjálfbærari framtíð og geta síðan komið sínum skilboðum á framfæri á sérstöku ungmennaþingi.
Hugmyndafræði verkefnisins byggist að hluta á áströlsku verkefni YOUth LEADing the World sem má lesa meira um hér.