Séð frá Teigsskógi yfir Breiðafjörð.

Breiðafjörðinn þarf að vernda. Vindorkuver eru skaðleg fuglalífi.

Stjórn Landverndar telur að bíða eigi með skipulagsbreytingar vegna stórra vindorkuvera þar til þau hafa farið í gegnum mat rammaáætlunar og ljóst er að þörf er á aukinni orkuframleiðslu. Hætta af vindorkuverum á mikilvægum fuglasvæðum eins og Breiðafirðinum er sérstaklega mikil.

Endurskoða þarf breytingar á Aðalskipulagi Dalabyggðar- Vindorkuver Hróðnýjarstaðir og Sólheimar – sent Skipulagsfulltrúa Dalabyggðar 21. janúar. 2021.

Sveitarstjórn hefur auglýst tvær tillögur að breytingum á Aðalskipulagi Dalabyggðar 2004-2016 vegna vindorkuvera í landi Hróðnýjarstaða og í landi Sólheima. Um er að ræða skilgreiningu á um 400 ha iðnaðarsvæði á hvorri jörð til vindorkunýtingar.

Stjórn Landverndar hefur kynnt sér efni máls og gerir eftirfarandi athugasemdir við áformuð Vindorkuver að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum í Dalabyggð, hér lagt fram í sameiginlegri umsögn.

Í lýsingu á markmiðum fyrirhugaðra breytinga er leitast við að færa rök fyrir framkvæmdunum með ýmsum hætti. Því miður verður ekki séð áformaðar virkjanir haldist með neinum hætti í hendur við framtíðarmöguleika eða tækifæri Dalabyggðar. Því skortir haldbær rök fyrir framkvæmdainni í inngangi greinargerða um aðalskipulagsbreytingar þessar. Um mjög stórtæk áform er að ræða og miklar breytingar á aðalskipulagi sem sveitarstjórn Dalabyggðar hefur lagt fram með í þessum tveimur umfangsmiklu verkefnum. Í ljósi umfangs þessara gríðarmiklu áforma sem eru kynnt í einni sömu auglýsingu, tvö aðskilin verkefni frá sitthvorum framkvæmdaðilum, má spyrja að hve miklu leyti sveitarfélagið hafi yfirsýn og eða haft tök á að meta samanlögð heildáráhrif. Vegalengd milli þessara áformuðu tveggja risavindorkuvera er aðeins 10 km og er áhrifasvæði þeirra mjög víðfemt. Áhrifa vegna þessara gríðarmiklu áforma mun gæta með margvíslegum og ófyrirséðum hætti. Það er því rík ástæða að stíga varlegar til jarðar.

Í upphafi skal endinn skoða

Landvernd telur að markmið framkvæmdanna byggi á veikum grunni, svo vægt sé til orða tekið. Eins og staðan er í dag eru mjög litlar líkur á aukinni orkuþörf á Íslandi á komandi árum. Hver er það sem á að kaupa þá orku sem vindorkuverin framleiða?

Landvernd benti á í umsögnum um Kerfisáætlun Landsnets 2020-2029 að miklar líkur eru á að töluverður hluti raforku sem seldur er á Íslandi dragist saman á næstu árum frekar en að hann aukist. Sömu viðhorf koma fram í viðtali við Bjarna Bjarnason forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur.1 Fyrirhugaður samdráttur Rio Tinto, lokun kísilvera og samdráttur hjá gagnaverum ræður þar mestu. Landvernd hefur einnig ítrekað bent á að raforkuspá er ekki góður grunnur til að áætla orkueftirspurn komandi ára, bæði vegna þess að hún gerir m.a. ráð fyrir allt of mikilli aukningu í stóriðju á Íslandi og því að hún er unnin eingöngu af fulltrúum orkugeirans sem hafa beina hagsmuni af því að spá fyrir um aukna raforkunotkun.

Auk þessa má geta þess að þrátt fyrir að bæði íbúum og íbúðum fjölgi jafnt og þétt á Íslandi sem og fyrirtækjum þá hefur framleiðsla á öllum tækjabúnaði tekið stórstígum orkusparandi framförum þannig að heimili og fyrirtæki taka mun minna til sín af raforku en áður var. Síðast en ekki síst er vert að halda því á lofti að á undanförnum misserum hafa tækniframfarir leitt til þess að þegar starfandi virkjanir hafa náð að stórauka afköst með uppfærslu og umbótum á búnaði.

Landvernd fagnar öllum slíkum úrbótum þar sem framtíðin má ekki að byggjast á áframhaldandi orkusóun, heldur hinu gagnstæða að nýta betur þá orku sem við eigum sem sýnt hefur nú verið fram á að hægt er að gera með því hagnýta sér tækiframfarir öllum til hagsbóta í þegar gerðum orkumannvirkjum.

Um þessar mundir er hinsvegar víða verið að mynda innistæðulausan þrýsting ekki síst frá einkaaðilum sem hafa á síðustu misserum verið að hasla sér völl í orkugeiranum. Það að tala upp eftirspurn og orkuþörf sem er ekki til staðar er óábyrgt í öllu falli og ennþá verra er að slíkir sérhagsmunaaðilar afvegaleiða fulltrúa sveitarfélaga og landeigendur til að ráðast í stórtækar skipulagsbreytingar og landspjöll fyrir jafn áhættusaman og stórtækan iðnað og hér um ræðir í þessu tilfelli vindorkuver af áður óþekktri stærðargráðu.

Þau vindorkuverkefni sem kynnt eru í greinargerðum Sólheima og Hróðnýjarstaða eru af þeirri stærðargráðu að þau hafa ekki ekki aðeins neikvæð umhverfisáhrif heldur munu þau leiða til enn frekari umframorku á kerfinu sem er vandséð hverjum er til hagsbóta. Landvernd hafnar því með öllu þeim rangfærslum sem fulltrúar viðkomandi vindorkufyrirtækja hafa farið fram með á kynningarfundum.

Framkvæmdaaðila og sveitastjórn Dalabyggðar er því bent á að ef markmið framkvæmdarinnar er að mæta aukinni orkunotkun á Íslandi er líklega best að salta hugmyndirnar í nokkur ár og bíða þess að um þessar hugmyndir hafi verið fjallað í rammaáætlun.

Rammaáætlun

Stjórnvöld fyrirhuga að gera lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun (rammaáætlun) skýrari þannig að ekki verði neinum vafa undirorpið að vindorkuver falla undir lögin. Áhrif vindorkuvera á land eru óumdeild, þeim fylgir feiknamikið jarðrask þar sem gera þarf vegi, undirstöður og kranapall við hverja myllu. Því er það útúrsnúningur þegar talað er um að lög um um verndar- og orkunýtingaráætlun eigi ekki við um vindorkuver vegna þess að vindurinn, ekki landið, er virkjaður.

Stjórn Landverndar telur að tillögu um vindorkuver í Dalabyggð beri skilyrðislaust að meta á grundvelli laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Rammaáætlun nær til landsvæða þar sem er að finna virkjunarkosti til orkuvinnslu, jafnt innan eignarlanda sem þjóðlenda, og metið er hvort beri að friðlýsa svæði gagnvart vinnslu eða kanna frekar. Andi og tilgangur laganna er skýr; allar virkjanahugmyndir sem fara yfir tiltekin stærðarmörk bera að meta í rammaáætlun áður en lengra er haldið í ákvörðunarferlinu. Rammaáætlun var komið á laggirnar til að fá vandaðri umfjöllum og betri yfirsýn yfir virkjunarhugmyndir, og flokka eftir áhrifum og gæðum ganga. Eitt markmið hennar var að stuðla að ríkari sátt í samfélaginu um virkjanir. Þess eru of mörg dæmi að reynt sé með lagaflækjum og rangfærslum að komast hjá þessu grundvallar atriði. Í þessum tveimur tilfellum er bæði faglegum rannsóknum og samfélagssátt mjög ábótavant og myndu bæði verkefni hagnast á því að fara í gegnum faglegt ferli rammaáætlunar.

Stjórn Landverndar telur því algjörlega ótímabært að hefja undirbúning að skipulagsbreytingum vegna þessara tveggja vindorkuvera og hvetur alla viðkomandi aðila til að halda að sér höndum þar til hugmyndirnar hafa verið lagðar fram, metnar og raðað á grundvelli laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ekki er raforkuskortur í landinu og því kalla ekki brýnir hagsmunir á framleiðslu á frekari raforku.

Rétt er að taka fram að verði ekki farið að lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun við undirbúning að vindorkuverum áskilja samtökin sér eftir atvikum rétt til að leita til dómstóla um lögmæti þess.

Líftími vindorkuvera

Á kynningarfundum í Dalabyggð hafa fulltrúar bæði Storm orku og QUIR komið inn á að líftími vindorkuvera er á bilinu frá 20 – 25 ár eftir því hvaða búnaður er nýttur. Að teknu tilliti til þessa má telja að nauðsynlegt sé að mun ítarlegri rannsóknir fari fram á þoli vindorkuvera miðað við íslenskar aðstæður sem er á engan hátt hægt að líkja saman við svæði þar sem vindmyllur þurfa m.a. ekki að þola ísingar og stórtæk veðrabrigði eins og hér er að finna á heiðum uppi. Mjög skortir á að gerð sé fullnægjandi grein fyrir hvernig staðið verði að niðurrifi og förgun eftir að líftíma vindorkuveranna er lokið. Þá er sömuleiðis erfitt að greina í stefnu fyrirtækjana hvort stefnt sé að endurnýjun á búnaði eftir að líftíma er lokið og hvort ætlun sé að halda starfsemi áfram. Ef því er svo hins vegar farið að líftími á jafn gríðarlega stóru vindorkuveri og hér eru áætlanir um í Dalabyggð er ekki lengri en raun ber vitni og fyrirhöfnin jafn mikil, þá hljóta að vakna mjög áleitnar spurningar um ávinning af slíkum rekstri þar sem þarf að greiða upp jafn stóra framkvæmd á svo skömmum líftíma orkumannvirkja.

Áhrif á samfélag

Það er mat Landverndar að þróun byggðar og samfélags í sveitarfélaginu Dalabyggð standi alls ekki og falli með slíkum framkvæmdum og lagt er uppi með að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum. Að komast að slíkri niðurstöðu er beinlínis langsótt, bæði af hálfu framkvæmdaaðila og sveitarstjórnar.

Í greinargerðum sem liggja fyrir með aðalskipulagsbreytingum, skortir meðal annars verulega á að tíundað sé staðbundinn ávinningur, t.d. hversu mörg störf munu verða til í samfélaginu að loknum framkvæmdum. Aukin tímabundin samfélagsáhrif vegna framkvæmda eru helst tíunduð í tengslum við þarfir verktaka á þjónustu við þá á

framkvæmdatíma. Að framkvæmdatíma loknum kemur hinsvegar ekkert haldbært fram í greinargerðum sem styður við samfélag eða beinan ávinning sé um að ræða. Framleiðslan sjálf hefur heldur engin áhrif í þá átt að styrkja eða styðja við staðbundin verkefni því engin orkuskortur er á svæðinu. Á heimasíðu Stormorku er sérstakur linkur sem ber nafnið „Samfélagsleg áhrif – rök fyrir byggingu“ 2Hér er ekki vikið einu orði að jákvæðum áhrifum á nærsamfélag.

Landvernd hefur ekki einvörðungu kynnt sér ítarlega einstök gögn og greinargerðir þessara vindorkuverkefna heldur einnig fylgst með hvernig samfélagið á svæðinu hefur brugðist við eftir því sem að mál hafa þróast frá því að skipulagslýsing var fyrst kynnt. Opnir íbúafundir með framkvæmdaaðilum hafa meðal annars verið haldnir um málið í Dalabyggð um þau tvö vindorkuver sem eru hér til umfjöllunar að Sólheimum og Hróðnýjarstöðum.

Á þeim íbúafundum sem haldnir hafa verið hefur einmitt opinberast djúpstæður ágreiningur í samfélaginu sem allir aðilar máls ættu að taka alvarlega hafi þeir íbúalýðræði og velferð Dalabyggðar að leiðarljósi. Í greinargerðum um þessar aðalskipulagsbreytingar í Dalabyggð er gert umtalsvert mikið úr jákvæðum áhrifum á samfélagið. Svo virðist sem hvorki framkvæmdaaðilar né meirihluti sveitarstjórnar meti neikvæða upplifun fjölmargra íbúa í samfélaginu með sama hætti og aðra þætti; það er að verkefni sem mögulega kann að hafa mjög tímabundin jákvæð áhrif á mjög afmarkaða þætti við verslun og þjónustu á svæðinu virðast teknir fram yfir mjög neikvæð langtímaáhrif á umhverfi og samfélag. Að halda slíku á lofti og neita að horfast í augu við mjög neikvæðar samfélagslegar afleiðingar til langframa mun geta haft mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélagið í heild. Því hefði átt að taka núllkost til frekari skoðunar þegar fyrir liggur að verulegur hluti þeirra sem byggja nú þegar nærsvæðið líður vel með svæðið eins og það er. Jafnhliða liggur fyrir að ýmir hagsmunaaðilar sjá einmitt kosti þess að vinna með atvinnuskapandi hætti með svæðið óraskað eins og það er. Framkvæmdaðilum og sveitarstjórn ætti að vera ljóst að umbreyting á landbúnaðarsvæði í iðnaðarsvæði með slíkri ásýndarmengun sem nær langt út fyrir þeirra afmörkuðu landareignir, getur ekki verið prívatmál þeirra sem hyggja á slíka og stórgerða mannvirkjagerð. Öllum þeim sem bera ábyrgð á vindorkuverkefnunum tveimur að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum hefur verið ljóst frá upphafi umræðunnar, hve mikill og víðtækur andbyr er innan samfélagsins vegna áformanna og hvað áformin rista djúpt á sálarlíf nærsamfélagsins. Það hlýtur því eðli máls að hafa mjög afdrifarík áhrif á nærsamfélagið að skynja að upplifun, líðan og viðhorf þeirra sem næst búa sé raunverulega ekki mælt þegar kemur að því að meta samfélagsleg áhrif. Af viðbrögðum að dæma er ljóst að áhrif af áformum um vindorkuver í landi Hróðnýjarstaða hafa sýnu verri áhrif á nærsamfélagið vegna nálægðar við byggð heldur en sem varðar Sólheima á Laxarádalsheiði, þó þau síðarnefndu hafi sannarlega vakið upp neikvæða upplifun m.a. frá íbúum og sveitarfélaginu sjálfu í Húnaþingi vestra.

Auk mikillar andstöðu sem opinberast hefur á íbúafundum hefur býsna stór hópur hagsmunasamtaka íbúa sent inn harðorðar athugasemdir á öllum stigum máls bæði hvað varðar Hróðnýjarstaði og Sólheima. Auk þessa geta umdeild verkefni í litlu byggðarlagi valdið átökum og ágreiningi sem heggur skarð í samfélagið og deilir því upp í tvær ólíkar fylkingar.

Skipulagsmál

Nokkuð virðist vanta upp á varðandi samráð við íbúa af hálfu sveitafélagsins vegna skipulagsgerðar fyrir svo stór verkefni eins og hér um ræðir. Það að skrifa undir viljayfirlýsingu vegna gríðarlega umfangsmikilla og umdeildra vindorkuvera við einkaðila sem sveitarfélagið hefur enga burði til að bakgrunnskoða, er áhyggjuefni. Sveitarfélagið þarf að leggja sig mikið fram við að eiga samtal við samfélagið áður en lagt er upp í skipulagsferli. Sveitarstjórnin virðist hafa látið viðkomandi fyrirtækjum alfarið eftir að stýra skipulagsferlinu allt frá kynningu skipulagslýsingar. Á þeim kynningarfundum sem haldnir hafa verið hefði sveitastjórn þurft að stíga skýrt fram og gera grein fyrir því í hverjar raunverulegar skyldur og hlutverk hennar væri og svara spurningum íbúa sem lúta að ábyrgð hennar eins og þeim sem komu fram á kynningarfundi.

Þá miðluðu fulltrúar sveitarfélagsins engum upplýsingum um hver hin raunverulega stefna sveitarstjórnar væri í vindorkumálum og hvernig sveitarstjórnarstigið leitaðist við að vinna með jafn stór mál og hér um ræðir. Það er eitt að eiga samtal, taka vel á móti gestum sem hafa margvíslegar hugmyndir um uppbyggingu, annað að fela óskyldum aðilum það hlutskipti að taka við stjórninni og láta leiða sig út í skipulagsferli án þess að sveitarfélagið sjálft hafi hugsað hvert það gæti leitt. Landvernd metur það svo eftir að hafa rýnt ferli þessara stórtæku áforma að sveitarstjórn Dalabyggðar hafi ekki náð að stíga inn í þessi mál með nægjanlega skýrum hætti gagnvart samfélaginu og hefur því lagt af stað í skipulagsferli með tvö gríðarstór og lítt undirbyggð mál.

Hætt er við því að framkvæmdaraðilar nýti sér fámenni lítilla sveitafélaga og litla yfirbyggingu sveitastjórna sér til framdráttar. Þannig hafa framkvæmdaaðilar orðið vísir að því að telja sig geta séð um skipulagsgerð eigin hugmynda vegna þess að bolmagn minni sveitastjórna til þess að standa í flóknum skipulagsmálum getur verið lítið. Á þessu þurfa öll minni sveitafélög að gæta sín.

Fulltrúar þeirra nýju orkufyrirtækja á markaði sem nú sækja af hörku inn á markaðinn sjá einmitt tækifærin mest í að hagnýta sér veika stöðu alltof marga sveitarfélaga í þessum efnum. Niðurstaðan getur verið sú að viðkomandi sveitarfélög séu dregin inn í stór verkefni þar sem þau missa yfirsýn og fyrir vikið sitja þau uppi með að hafa mögulega tekið áhættusamar og dýrkeyptar ákvarðanir þar sem óskyldir sérhagsmunir hafa verið teknir fram yfir heildarhagsmuni samfélagsins sjálfs með tilheyrandi neikvæðum langtíma afleiðingum.

Benda verður á að aðalskipulag sveitarfélaga er stefnumarkandi stjórntæki sem sveitarstjórnir eiga að styðjast við 10 – 20 ár fram í tímann og vönduð vinnubrögð því afar brýn. Hvorki er að finna í aðalskipulagi sveitarfélagsins né í svæðisskipulagi, um stefnu og uppbyggingu stórtækra vindorkuvera á viðkomandi svæðum með tilheyrandi og víðtækum landnotkunarbreytingum. Það er mat Landverndar að þegar um svo stóra efnislega stefnubreytingu í skipulagi er að ræða, þá sé það beinlínis skylda sveitarstjórnar að taka slíkar stefnubreytingar til víðtækrar umræðu í sveitarfélaginu samhliða heildarendurskoðun á Aðalskipulagi. Það er nægir ekki að fjalla um málið á afmörkuðum fundum þar sem tvö stórtæk áform um vindorkuver eru sett á dagskrá og íbúum m.a. á nærsvæði gert að verja sig með takmarkaðan tíma til að vinna í málum meðan skipulagsferlið rennur áfram á ábyrgð sveitarstjórnar. Nauðsynlegt er því að þegar svo stór áform og stefnubreyting er sett fram, þá verði að meta umfangið í tengslum við aðrar áætlanir með mun víðtækari hætti en hér liggur fyrir og það verður ekki gert nema við heildarendurskoðun á Aðalskipulagi með aðkomu alls samfélagsins þar sem allir þættir eru vegnir og metnir með hliðsjón af áformunum. Aðeins með heildarendurskoðun aðalskipulags er því að mati Landverndar hægt að vega og meta heildstæða sýn og vilja íbúana hvernig þeir vilja að þróun og uppbygging verða til nánustu framtíðar.

Fuglalíf

Laxárdalsheiðin og land Sólheima eru mjög mikilvægt fuglasvæði samkvæmt rannsóknum Náttúrufræðistofnunar Íslands. Hróðnýjarstaðir falla undir sama hatt að mati Landverndar vegna nálægðar svæðanna. Ljóst er að fuglalíf í nálægð vindorkuvera á mjög undir högg að sækja og hvað þá ef yrði inn á takmörkuðum og mjög viðkvæmum bússvæðum og farleiðum íslenska hafarnarstofnsins sem er einstakur á heimsvísu og á válista. Hér ætti vart að þurfa að rekja í nánar gildi þess að hinum friðlýsta hafarnarstofni verði ekki ógnað með þessum hætti. Þau áform sem nú eru uppi um vindorkuver í Dalabyggð í nálægð við Breiðafjörðinn ætti í öllu falli að vera nægileg rök fyrir því að kröfur væru gerðar um að uppbyggingu vindorkuvera væri með öllu hafnað í nálægð eða á farleiðum hafarnar. Landvernd áréttar að þessi þáttur einn og sér er þess eðlis að stjórn Landverndar leggst alfarið gegn þesskonar uppbyggingu í nálægð við helsta búsvæði hafarnar á Íslandi. Áformin eru því mikil ógn við hafarnarstofinn íslenska og hefur einnig áhrif á fjölda annarra fuglategunda sbr. himbrima og margar aðrir tegundir. Það að áforma þrjú stór vindorkuver við Breiðafjörð ef vindorkuver við Garpsdal er tekið með er því stórkostleg ógn við fuglalíf á svæðinu þar sem haförninn er eins og áður segir í langmesta áhættuhópi. Til áréttingar má benda á rannsóknir í Noregi og áhrif vindorkuvera á haförn sjá tilvísun hér undir.

„Þegar staðreyndaskoðun var birt var fjöldi dauðra hafarna Smøla kominn yfir 100, samkvæmt norsku náttúrufræðistofnuninni (NINA). Alls hafa vísindamennirnir skráð yfir 500 dauða fugla við vindorkuverið í Smøla . Um 200 rjúpur, þrír gullernir og nokkrar gerðir af fálkum hafa verið skráðir látnir. Að auki er hefur mikill fjöldi algengari fugla svo sem álftir, gæsir og krákur bæði særst illa eða drepist af völdum vindorkuvera.“

Náttúrulegar aðstæður á Smøla, sem er eyja suðvesta við Þrándheim, eru líklega ekki óáþekkar ástæðum við Breiðarfjörð.

Í skýrslum Náttúrufræðistofnunar Íslands kemur fram að farleiðir hafarna eru í árekstrarhæð á framkvæmdasvæði áformaðra vindorkuvera í Dalabyggð.

Rannsóknaraðferðir ófullnægjandi

NÍ hefur gert alvarlegar athugasemdir við sjálfsstæðar rannsóknaraðferðir sem viðkomandi fyrirtæki, QID og síðar QUIR hefur beita á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði í landi Sólheima. Þessari sjálfstæðu aðferðarfræði við rannsóknir sem ekki eru viðurkenndar á umferð og farleiðum fugla um svæðið hafa fulltrúar fyrirtækisins á hinn veginn kynnt á opnum kynningum meðal íbúa á svæðinu.

Quir styðst við ónothæfa tækni til að meta umferð fugla um svæðið, þar með talið hafarnar Í áliti Skipulagsstofnunar er kallað eftir haldbærum upplýsingum um flug arna um framkvæmdasvæðið og nágrenni þess, því verður eðli máls að mæta með vísindanlegum hætti með viðurkenndri aðferðarfræði sem stenst skoðun. Telur stofnunin því réttilega þörf á að fyrirtækið hafi samráð við Náttúrufræðistofnun Íslands um hvernig verði staðið nánar að rannsóknum, að því sögðu mun Skipulagsstofnun í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands leggja mat á hvort þær niðurstöður gefi fullnægjandi upplýsingar um ferðir arna um svæðið. Þá vekur það furðu, að á íbúafundi í Dalabyggð þann 3.júní 2020 í kynningu Tryggva Þórs Herbertssonar talsmanns vindorkuvers að Sólheimum, er ekki vikið einu orði að þeirri fuglategund sem stafar langmest hætta af stórum vindmyllum þ.e. haferninum. Í stað þess að koma inn á þær staðreyndir sem liggja fyrir um farleiðir hafarnar um svæðið, kýs viðkomandi að vitna áðurgreindrar sjálfstæðrar rannsóknar sem fyrirtækið gerði með tækjabúnaði sem ekki er viðurkenndur., Fulltrúar fyrirtæksins virðast því hafa orðið á alvarleg handvömm við mat og kynningu á áhrifum á haförninn.. Það er því niðurstaða Landverndar að sú ógn og óvissa sem er verið að leiða yfir hafarnarstofninn ætti að öðru ótalið að vera fullnægjandi forsenda að hafna öllum áformum um vindorkuver við Breiðafjörð.

Ásýnd – hljóðvist

Vindorkuver hafa í eðli sínu hvar sem þau eru staðsett gríðarlega mikil áhrif á allt nærsvæði – þau skera sjónlínur, draga niður ásýnd nærliggjandi landslags og hafa þeim mun víðtækari sjónræn áhrif eftir því sem ofar dregur í landslagi og sjást því frá mörgum sjónarhornum í margra kílómetra fjarlægð og hávaðamengun er auk þess veruleg. Varðandi ásýnd má meðal annars benda á athugasemdir frá skipulags- og umhverfisráði Húnaþings vestra þar sem áhrifasvæði Sólheimavindorkuvers nær inn í nærliggjandi hrepp.

Í þeim athugasemdum frá Húnaþingi kemur fram að ásýnd á fyrirhugað vindorkuver í Dalabyggð nær í allt að 40 km fjarlægð. Að sama skapi má segja að áhrif vindorkuvers Hróðnýjarstöðum hafi sumpart enn alvarlegri afleiðingar vegna sjónmengunar þar sem hvorutveggja eru ásýndaráhrif mikil vegna hæðar vindorkumannvirkja í landslagi, en þá allra helst vegna sýnileika frá byggð sem komið hefur fram í mjög alvarlegum og endurteknum athugasemdum frá landeigendum öðrum en að Hróðnýjarstöðum sem standa fyrir framkvæmdinni þar. Sveitarfélagið Dalabyggð ætti að endurskoða áætlun um framhald þeirra aðalskipulagstillagna sem hér eru til umsagnar.

Segja má að flestum ætti að vera ljós þau neikvæðu ásýndaráhrif sem sýnd eru í greinargerð þótt draga megi í efa að höfundar hafi lagt þar fram verstu sviðsmyndirnar.

Hljóðmegnun er þekkt vandamál meðal vindorkuvera. Fulltrúar beggja vindorkuvera að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum hafa þar sameinast um að nýta sömu myndrænu gögnin til að sýna fram á hvernig þeir telja að eigi að meta hljóðvist með skírskotun í myndræn gögn frá General Electric. Til að búa til samlíkingar á kynningarfundum með íbúum hafa báðir framkvæmdaðilar sýnt staka glæru einmitt frá GE sem sýna eiga á myndrænan hátt hvernig hljóðvist er í nálægð vindorkumannvirkja. Þar kemur fram að hljóðstyrkur næst hverjum vindorkuveri sé ámóta og hávaði frá garðsláttuvél og eftir því sem lengra dregur frá 4 – 500 metra fjarlægð falli hljóðið niður í hljóðstyrk eins og frá suð frá ískáp. Enn og aftur er farið fram með mjög villandi upplýsingar. Í fyrsta lagi er fráleitt að halda því fram hljóð berist ekki lengra frá vindorkuverum meir en 4 – 500 m og þar að auki virðast hljóðvistarfræðingar fyrirtækjanna ekki gera ráð fyrir að hljóð berist betur með vindi, en ætla má þó að fulltrúar fyrirtækjanna séu að velja svæðin einmitt fyrir hvað þau séu vindsækin. Reyndar kemur þó fyrir í öðrum gögnum hjá framkvæmdaaðilum að samkvæmt „hljóðburðarfræðingum“ má komst hjá ónæði með því að staðsetja þær í 2 km fjarlægð frá hýbýlum fólks3.

Þaðer svo auðvitað mjög sérstakt að mati Landverndar að bera saman hávaða frá garðsláttuvélum inn í þéttbýli og sambærilegan hávaða uppi á heiðum þar sem fólk fer beinlínis í þeim tilgangi að sækja í kyrrð og ró. Útivistarfólk og aðrir sem almennt vilja kjósa friðsemd og ró á heiðum uppi verða því að taka með í reikningin að upplifunartilfinningin verður á pari við áreitið sem menn eru að sækjast eftir að skilja eftir í þéttbýlinu. Hver vill hafa hávaða á pari við 40 – 60 garðsláttuvélar dreifðar á gríðarstóru svæði yfir sér í gangi allan sólarhringinn upp til friðsælla heiða allt árið, þ.e. ef menn vilja notað viðmið þeirra sem standa að áformuðum framkvæmdum.

Þessi leið sem framkvæmdaðilar nota annars til að reyna að smætta áhrifin eru því ekki til þess fallinn að auka á trúverðugleika.

Víðerni

Eitt það helsta sem íslensk náttúra hefur til að bera og er til þess fallin að halda sérstöðu sinni eru óbyggð víðerni – svo virðist sem fulltrúar vindorkuvera beri ekki skynbragð á gildi víðerna sem þó eru ennþá talin ein af helstu einkennismerkjum íslenkrar náttúru og hálendis. Það ætti í öllu falli út frá skilgreiningu óbyggðra víðerna að hafna vindorkuverum á Íslandi á þeim grunni að landið skortir hvorki orku auk þess sem að nóg er af henni eftir öðrum leiðum auk áðurgreindra tækniframfara sem hafa orðið í orkugeiranum sem þegar er til staðar til að ná fram meiri framleiðslu með uppfærslu á búnaði. Í ljósi þessa er rétt að minna á lög um náttúruvernd hvað þetta varðar.

Í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 eru óbyggð víðerni skilgreind sem: Svæði í óbyggðum sem er að jafnaði a.m.k. 25 km2 að stærð eða þannig að hægt sé að njóta þar einveru og náttúrunnar án truflunar af mannvirkjum eða umferð vélknúinna farartækja og í a.m.k. 5 km fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum, svo sem raflínum, orkuverum, miðlunarlónum og uppbyggðum vegum. Lögin um náttúruvernd 60/2013 tóku gildi í nóvember 2015 og þar með féllu úr gildi lög um náttúruvernd nr. 44/1999, þó með ákvæðum til bráðabirgða.

Í brottföllnu lögunum miðast afmörkun víðerna við fjarlægð frá þjóðvegum í stað uppbyggðra vega í nýju lögunum. Einnig voru víðernin skilgreind sem ósnortin en í nýju lögunum eru þau skilgreind sem óbyggð. Umhverfisstofnun kortlagði ósnortin víðerni árið 2009 í samræmi við þágildandi lög. Stofnunin hefur ekki gefið út nýja afmörkun í samræmi við núgildandi lög.

Vistgerðir og votlendi

Áformuð framkvæmdasvæði hafa fjölmörg og fjölbreytt votlendissvæði að bera með fjölbreyttum vistgerðum s.s. hallamýrar, flóar, flæðimýrar, rústamýrar. Jafnframt er að finna innan framkvæmdasvæðis vistgerðir með mjög hátt verndargildi sem þarfnist sérstakrar verndar samkvæmt vistgerðarkorti Náttúrufræðistofnunar. Votlendissvæði yfir 2 ha að stærð falla undir 61. gr. náttúruverndarlaga og skal því skoða svæðið sem slíkt og gera kröfur um framfylgd. Á fyrirhuguðum framkvæmdasvæðum eru votlendisvæði yfir 2 ha. sem ber að horfa sérstaklega til. Óheimilt er að raska þessum votlendum nema brýna nauðsyn beri til. Vindorkuver þar sem ekki er orkuskortur er ekki brýn nauðsyn.

Í tillögum greinargerðar vindorkusvæðis Sólheima segir hinsvegar að ekki standi til að fjalla um möguleg mengunartilvik á rekstrartíma, þrátt fyrir að á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði sé mikið um votlendi og vötn eins og framar greinir og úr þessu þarf að bæta. Þó sýnt sé fram á að stefnan sé að setja niður einstaka vindorkuturna utan eða í jaðri votlendis þá þyrfti einnig að meta möguleg áhrif þess að djúpur uppmokstur inn á votlendissvæðum fyrir undirstöðum vindorkuvera leiði ekki til þess að vatn muni renna frá votlendi í grennd í djúpa grunna vindorkuvera og kunni að þurrka upp nærliggjandi votlendi

Efnistaka og flutningar

Í töflu 4.2 vegna Sólheima kemur fram að ætlað sé að sækja efni til framkvæmdarinnar utan framkvæmdasvæðis, t.d. í Haug vestan Sellækjar. Sveitastjórn Dalabyggðar verður að gera kröfu á framkvæmdaaðila að þeir geri strax grein fyrir því hvar þeir fyrirhugi að taka efni, enda er líklegt að hvort verkefni um sig þurfi um hálfa milljón rúmmetra af efni til veglagningar, pallagerðar og jarðvegsskipta.

Jafnframt kemur fram að að steypa verði flutt frá steypustöð allt frá 100 til 170 km fjarlægð frá framkvæmdasvæði. Í ljósi gríðarlegrar fjarlægðar og fyrirliggjandi fjölda ferða vegna steypuflutninga og annarra vöruflutninga ætti því að gera skilyrðislausa kröfu á að viðkomandi sýni fram á hvernig flutningar allir og framkvæmd verði kolefnisjöfnuð.

Lokaorð

Markmið risavaxinna vindorkuvera að Hróðnýjarstöðum og Sólheimum við Breiðafjörð byggja á hæpnum forsendum þar sem landi og gríðarlega dýrmætu lífríki er ógnað ásamt því sem að fyrir liggur að mjög stór hluti samfélagsins, ekki síst nærsamfélagið, er mjög mótfallið þessum umdeildu áformum og inngripi í umhverfi, lífríki og samfélag Dalabyggðar. Stjórn Landverndar hvetur þá eindregið sem bera ábyrgð á framvindu málsins að stöðva öll frekari áform um stóreflis vindorkuver í landi Hróðnýjarstaða og Sólheima á Laxárdalsheiði hið fyrsta.

Virðingarfyllst,

Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landvernda

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira

Umsögn Landverndar um fimm virkjanakosti rammáætlunar

Það er áhyggjuefni að fjórir af fimm virkjanakostum hafi verið settir í nýtingarflokk, sérstaklega í ljósi þess að varúðarnálgun var ekki beitt sem skyldi.
Lesa meira

3. áfangi rammaáætlunar

Rammaáætlun fjallar um orkunýtingu og verndun landsvæða. Hún skal byggja á vísindalegri þekkingu um hvert svæði og taka tillit til vistkerfa, lífríkis, landslagsheilda, jarðfræði, umhverfisáhrifa ...
Lesa meira

Reglugerð um fiskeldi – í ljósi reynslunnar þarf að stórherða kröfur

Landvernd styður hverja þá breytingu sem setur sjókvíaeldi stífari ramma og skorður sem minnka hættu á stórslysum fyrir íslenska náttúru og vistkerfi. Landvernd sendi Matvælaráðuneytinu ...
Lesa meira
Stakihnjúkur og Tungnaá sem rennur frá vesturhluta Vatnajökuls, Hálendi Íslands - Þjóðgarður landvernd.is

Óbyggðanefnd – breytingar á lögum

Mikilvægt er að traust ríki um leyfisveitingar og aðrar stjórnsýslulegar ákvarðanir á þjóðlendum. Almenningur verður að geta treyst því að þeir sem fara með slíkar ...
Lesa meira

Svona hefur Landvernd áhrif

Landvernd hefur áhrif á stefnumótun og ákvarðanatöku í umhverfismálum með því að skrifa umsagnir, álykta um málefni tengd umhverfisvernd og náttúruvernd. Landvernd krefst þess að farið sé að lögum og hefur látið reyna á nokkur mál fyrir dómi.

Náttúruvernd er loftslagsvernd

Félagar í Landvernd láta sig náttúruna varða. Vertu með í Landvernd og hafðu áhrif.