Hvalfjörður er einn lengsti fjörður á Íslandi en þar er landslag fjölbreytt og náttúrufegurð mikil í návígi við höfuðborgarsvæðið. Innst klofnar fjörðurinn í tvo voga, Brynjudalsvog og Botnsvog. Fjörðurinn er djúpur og brattur, myndaður af ísaldarjökli síðasta jökulskeiðs, með formfögur fjöll og grýttar, vogskornar strendur. Dalirnir sem ganga inn af firðinum eru gróðursæl, skógi vaxin og vinsæl útivistar- og göngusvæði. Þar má nefna Glym í Botnsdal, Brynjudal, Botnsúlur, gönguleiðina Leggjabrjót, Hvalvatn, Múlafjall, Síldarmannagötur yfir í Skorradal og svo mætti lengi telja. Af þessum svæðum eru Brynjudalur, Botnsdalur, Hvalvatn og Glymur á náttúruminjaskrá.
Virkjunarhugmyndir
Zephyr Iceland ehf. hefur lagt fram matsáætlun fyrir u.þ.b. 50 MW vindorkugarði að Brekku í Hvalfjarðarsveit en fyrirhugað er að reisa 8-12 vindmyllur í um 647 m.y.s. á Brekkukambi. Ljóst er að ásýndaráhrif slíkrar framkvæmdar yrðu mjög neikvæð og myndu skerða víðerni á stóru svæði sem er vinsælt til útivistar, skilgreint sem mikilvægt fuglasvæði og að miklu leyti á náttúruminjaskrá.