Vegna gagnrýni sveitarstjórnar Skútustaðahrepps á Landvernd, í kjölfar umsagnar samtakanna um áform um Dettifossveg og ályktunar Húsavíkurbæjar um sama mál, vill Landvernd koma eftirfarandi á framfæri:
Landvernd telur mikilvægt að skoðanaskipti um ólík sjónarmið fari fram með málefnalegum hætti og leggur sitt af mörkum til þess að svo sé.
Landvernd hefur í umsögn sinni vegna áforma um Dettifossveg bent á að ferðamenn sækja svæðið fyrst og fremst vegna þeirra einstöku náttúru sem þar er að finna. Til langs tíma litið fara því hagsmunir náttúruverndar og ferðaþjónustu saman í þessu máli sem svo mörgum öðrum.
Til langs tíma litið fara því hagsmunir náttúruverndar og ferðaþjónustu saman í þessu máli sem svo mörgum öðrum.
Í umsögn sinni mæla samtökin með að vestan Jökulsár á Fjöllum verði lagður vegur sem miðast við náttúruvæna ferðaþjónustu en ekki uppbyggður heilsársvegur. Bent er á að uppbyggður heilsársvegur ætti betur heima austan megin. Þá gerir stjórn Landverndar athugasemd við þá ákvörðun Vegagerðarinnar að miða hönnun vegarins innan þjóðgarðsins við 90 km hámarkshraða og kynna ekki valkost með lægri hámarkshraða sem auðveldara væri að fella að landslagi og náttúru. Að miða veginn við 90 km/klst er og andstætt því sem lagt var upp með í matsáætlun.
Í þjóðgarðinum á Þingvöllum er lítið uppbyggður vegur sem fellur ágætlega inn í landslagið. Góð reynsla er af veginum á Þingvöllum og hefði verið full ástæða til þess að fjalla um sambærilegan veg sem valkost í mati á umhverfisáhrifum. Með slíkum vegi mætti að líkindum halda umhverfisáhrifum og röskun innan þjóðgarðsins vestan Jökulsár í lágmarki.
Að lokum tekur stjórn Landverndar undir sjónarmið Umhverfisstofnunar hvað varðar veglínu A á suðurhluta vegarins frá hringveginum að Dettifossi. Víðtæk samstaða hefur myndast um áform um að friða vatnasvið Jökulsár á Fjöllum. Því ber að staðsetja veginn utan marka væntanlegs þjóðgarðs þar sem það er vel mögulegt. Verðmæti svæðisins eru einkum fólgin í landslagi og jarðmyndum og því ber að miða vegstæðið við það að þessum verðmætum verði ekki spillt.
Fh. Landverndar
Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri.