Umsögn Landverndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum (EES-reglur, plastvörur) 720. mál. Send Nefndarsviði Alþingis 22. maí.
Landvernd þakkar veittan frest til þess að skila umsögn um ofnagreint mál. Stjórn Landverndar styður heilshugar innleiðingu í íslenskan rétt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2019/904 frá 5. júní 2019 um að draga úr áhrifum tiltekinna plastvara á umhverfið. Þessi lagabreyting og bann á þær einnota plastvörur sem um ræðir, yrði mikið framfaraskref fyrir íslenska náttúru sem og lífríki á hafsvæðum í kringum Ísland. Landvernd hefur kynnt sér lagafrumvarpið og gerir eftirfarandi athugasemdir.
Ganga þarf lengra og banna þarf fleiri einnota plastvörur
Landvernd telur að ganga þurfi enn lengra í banni á einnota plastvörum og bendir sérstaklega á einnota bleyjur, tíðavörur, tóbaksvörur og veiðarfæri úr plasti eða sem innihalda plast.
Nýjar lausnir þarf í stað einnota plastbleyja
Hvert ár fæðast um það bil 5.000 börn á Íslandi. Samtals nota þessi börn líklega 50.000 bleyjur dag hvern.1 Mikill hluti þessara barna notar einnota bleyjur sem innihalda plast. Stjórnvöld í Vanúatú í Kyrrahafi bönnuðu einnota bleyjur í desember 2019 vegna umhverfissjónarmiða. Sígarettur eru á topp-10 lista yfir plastúrgang sem finnst á evrópskum strandsvæðum. 4,5 trilljón (þúsund billjarðar) sígarettustubbar enda í náttúrunni árlega og þeir leka nikótíni og þungmálmum og verða svo að örplasti. Finna verður lausn á þessum gríðarlegu vandamálum sem tengjast plastmengun frá einnota vörum og merkingar á umbúðir eru ekki endanleg lausn. Framleiðendur verða að fá strangt aðhald sem hægt er að veita með banni á plastefnum í þessum vörum og hvatningu á umhverfisvænum lausnum.
Veiðarfæri eru mest áberandi á ströndum Íslands
Veiðarfæri og aðrar plastvörur sem tengjast sjávarútvegi eru meirihluti af því plasti sem finnst á ströndum Íslands. Mjög áríðandi er að taka á þeim vanda og hvetur stjórn Landverndar Alþingi til þess að setja nú þegar í gang starfshóp sem skoðar hvernig megi draga úr þessari plastmengun. Þá vill Landvernd að útgerðum verði gert að taka þátt í hreinsun stranda á Íslandi.
Landvernd hvetur til þess að farið verði hið fyrsta í samráð við hagsmunaaðila í sambandi við útfærslu á tilskipunum á framleiðendaábyrgð á m.a. bleyjum, tíðavörum, tóbaksvörum og veiðarfærum sem innihalda plast.
Virðingarfyllst,
f.h. stjórnar Landverndar
Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri