Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála hefur hafnað kröfu Landverndar og Náttúruverndarsamtaka Suðurlands um ógildingu á framkvæmdarleyfi til efnistöku úr Ingólfsfjalli. Efnistaka er þar með áfram heimiluð í samræmi við framkvæmdarleyfi sem sveitarfélagið Ölfus gaf út 11. maí s.l.
Efnistaka í Ingólfsfjalli hefur þegar sett sinn svip á fjallið.
Áður en lögum um mat á umhverfisáhrifum var breytt hefði ekki verið hægt að fara gegn niðurstöðu Skipulagsstofnunnar nema að undangenginni stjórnsýslukæru til umhverfisráðherra. Úrskurður nefndarinnar sýnir að náttúruvernd stendur höllum fæti eftir lagabreytinguna þar sem vægi niðurstöðu Skipulagsstofnunar var breytt í álit í stað úrskurðar eins og áður var. Landvernd varaði á sínum tíma við breytingum á löggjöfinni og nú hefur komið í ljós að varnaðarorð Landverndar voru á rökum reist.
Úrskurðarnefndin tekur undir sjónarmið Landverndar um að á köflum hafi röksemdafærsla bæjarstjórnar Ölfuss verið ónákvæm og stundum jafnvel óviðeigandi. Um þetta segir í úrskurðinum:
„Enda þótt fallast megi á það með kærendum að í sumum liðum í röksemdafærslu bæjarstjórnar Ölfuss gæti ónákvæmni og að aðrir liðir eigi jafnvel ekki við, þá þykir ákvörðun bæjarstjórnar Ölfuss nægilega rökstudd einungis með tilvísun til jákvæðra efnahagslegra áhrifa, sem gagna nýtur um í málinu, og með ábendingu um hve huglæg þau umhverfisáhrif eru sem Skipulagsstofnun leggur til grundvallar niðurstöðu sinni.“
Megin rök sveitarfélagsins fyrir útgáfu framkvæmdaleyfisins er meintur efnahagslegur ávinningur af efnistökunni. Í kæru sinni dró Landvernd röksemdafærslu sveitarfélagsins um efnahagslegan ávinning í efa m.a. þar sem ekki hefði verið lagt mat á umhverfiskostnað. Úrskurðarnefndin tekur í sama streng og bendir á að ákjósanlegt hefði í því samhengi verið að leggja mat á þá hagsmuni sem í húfi eru með kostnaðar ábatagreiningu. Í því samhengi segir í úrskurðinum:
„Úrskurðarnefndin telur að, þar sem á vegast annars vegar náttúruverndarsjónarmið og hins vegar hagsmunir sem eiga rót í efnahagslegum ávinningi, væri ákjósanlegt að leggja hlutlægan mælikvarða á þá hagsmuni sem í húfi eru með kostnaðar-ábatagreiningu. Úrskurðarnefndin ætlar að niðurstöður slíkrar greiningar hefðu lagt traustari grundvöll að ákvörðun bæjarstjórnar í málinu. Er raunar að því fundið í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) um stöðu umhverfismála hér á landi frá árinu 2001, hve slíkum aðferðum hafi sjaldan verið beitt hérlendis.“
Sveitarfélagið leggur áherslu á að réttum málsmeðferðarreglum hafi verið fylgt og leitað allra lögbundinna álita áður en leyfið var gefið út. Þá vísar sveitarfélagið til þess að í stjórnarskrá segi að sveitarfélög skuli sjálf ráða málefnum sínum eftir því sem lög ákveði.
Samantekt,
Bergur Sigurðsson,
framkvæmdastjóri Landverndar.
Gögn málsins:
Hér má nálgast úrskurð nefndarinnar í heild sinni.