Vistheimt með skólum byggir á endurheimt vistkerfa, reynslunámi og vísindalegri aðferð. Verkefnið er liður í að efla þekkingu og getu grænfánaskóla til að takast á við flóknari umhverfismál og lögð er sérstök áhersla á þátttöku nemenda í rannsóknum og túlkun þeirra.
Þátttökunám og vísindalegar rannsóknir á vettvangi
Vistheimt með skólum hefur verið starfrækt frá 2013 í samstarfi við Landgræðslu ríkisins og grænfánaskóla.
Aðgerð sem styður við lífbreytileika og vinnur gegn loftslagsbreytingum
Megintilgangur Vistheimtar með skólum er að auka þekkingu og dýpka skilning, innan- og utan skólasamfélagsins, á mikilvægi vistheimtar sem aðgerðar til að takast á við landeyðingu, lífbreytileika og loftslagsbreytingar.
Fáir kennarar í grænfánaskólum á Íslandi hafa hingað til treyst sér til að vinna með þemu er tengjast lífbreytileika og loftslagsmálum. Þeir skólar sem taka þátt í vistheimtarverkefninu fá nú aðstoða frá Landvernd og Landgræðslu ríkisins við að búa til djúpstæða þekkingu kennara og nemenda á þessum flóknu umhverfismálum sem áhrif hafi út í nærsamfélag skólans.
Vistheimt stuðlar að endurreisn landgæða
Landgræðsla hefur verið stunduð á Íslandi í yfir 100 ár, en hún getur leitt til vistheimtar ef upprunalegt vistkerfi er endurheimt. Vistheimt stuðlar að endurreisn landgæða, gróðurs og jarðvegs, líffræðilegrar fjölbreytni og margvíslegrar vistkerfaþjónustu. Hún er jafnframt mikilvægur þáttur í mótvægisaðgerðum gegn loftslagsbreytingum því endurheimt gróðurs og jarðvegs felur í sér bindingu á kolefni, sem aftur dregur úr magni koltvísýrings í andrúmslofti.
Rannsókir á hvaða aðferðir henta hverju svæði
Landvernd, í samstarfi við Landgræðslu ríkisins, vinnur með grunn- og framhaldsskólum að langtímaverkefni um vistheimt og mikilvægi hennar við að endurheimta landgæði, líffræðilegan fjölbreytileika og draga úr loftslagsbreytingum, og kemur því inn á öll þessi veigamiklu umhverfismál.