Fréttatilkynning: ESA segir íslenska ríkið og ráðherra brotlega

Alþingi braut reglur EES samningsins. Landvernd.is
Í október 2018 breytti íslenska ríkið lögum um fiskeldi – en það tókst ekki betur en svo að breytingin brýtur í bága við átta greinar í reglum EES um mat á umhverfisáhrifum. Þessi ólög voru síðan notuð til að veita fiskeldisfyrirtækjum starfsleyfi án umhverfismats. Landvernd kvartaði vegna málsins til ESA sem tók undir sjónarmið Landverndar. Þrátt fyrir bráðabirgðaúrskurð ESA voru starfsleyfi viðkomandi fiskeldisfyrirtækja ekki afturkölluð, sem geir málið allt mun verra.

Eftirlitsstofnun EES-samningsins (ESA) hefur komist að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi gerst brotlegt við átta greinar í reglum EES um mat á umhverfisáhrifum þegar það breytti lögum um fiskeldi í október 2018.

Þá átelur stofnunin íslenska ríkið og sérstaklega fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra Guðmund Inga Guðbrandsson og fyrrverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra Kristján Þór Júlíusson, fyrir að bregðast ekki við bráðabirgðaúrskurðinum, fyrir að nota hin röngu lög til þess að veita starfs- og rekstrarleyfi til fiskeldisfyrirtækja án umhverfismats og fyrir að gera brotin verri með aðgerðaleysi sínu þegar leyfin voru ekki afturkölluð.

Íslensk stjórnvöld hafa nú tvo mánuði til að bæta ráð sitt og breyta þeim ólögum sem samþykkt voru á Alþingi í október 2018. Landvernd kærði afgreiðslu málsins til ESA í lok árs 2018.

Með þessu staðfestir ESA og bætir í bráðabirgðaúrskurð sinn frá í apríl 2020. Skv. bráðabirgðaúrskurðinum braut íslenska ríkið gegn fjórum greinum EES reglna um umhverfismat en niðurstaðan nú er að átta greinar reglnanna hafi verið brotnar.

Tregða íslenskra stjórnvalda til að fylgja ákvæðum alþjóðlegra samninga um umhverfisvernd og að hunsa bráðabirgðaúrskurð ESA mun að óbreyttu leiða til þess að íslensk stjórnvöld verða enn einu sinni að standa frammi fyrir EFTA dómstólnum.

Nánar:

Alþingi braut reglur EES samningsins.

Íslandi er gefið til 15. mars 2022 til þess að laga löggjöfina þannig að hún sé í samræmi við EES reglur. Að öðrum kosti verður Ísland dregið fyrir EFTA dómstólinn, í annað sinn á stuttum tíma vegna brota landsins á reglum EES um mat á umhverfisáhrifum. ESA tekur sérstaklega fram að ný lög um mat á umhverfisáhrifum sem tóku gildi 1. september 2021 taki ekki á brotum Íslands nú. Landvernd hefur einnig kvartað til ESA vegna þessara nýju laga sem ekki uppfylla ákvæði EES samningsins þegar kemur að umhverfismati sem grundvelli ákvarðanatöku í umhverfismálum, hlutleysi leyfisveitenda og markmiðum um hátt verndarstig umhverfisins.

Skyndilagasetning um fiskeldi er brot á  EES samningnum

Í október 2018 breytti Alþingi lögum um fiskeldi með frumvarpi sem samþykkt var samdægurs og eftir afar takmarkaðar umræður á Alþingi. Landvernd kvartaði til ESA í nóvember 2018 vegna lagabreytinganna og sendi einnig kvörtun ásamt 6 öðrum umhverfisverndarsamtökum til eftirlitsnefndar Árósasamningsins í febrúar árið 2019 sem enn er til meðferðar hjá nefndinni.

Brot á átta greinum Evróputilskipunar um umhverfismat

Lögin um rekstrarleyfi til fiskeldis brjóta í bága við greinar 2, 4-9 og 11 í Evróputilskipun um umhverfismat.  Brotin felast í að útiloka almenning frá umfjöllun um bráðabirgðaleyfin og í að gera almenningi ókleift að kæra þau. Sömuleiðis eru brotin á ákvæði um að skyldu til að gilt umhverfismat liggi fyrir þegar veitt eru rekstrar- og starfsleyfi fyrir leyfisskyldar framkvæmdir og starfsemi.

Rekstrarleyfi veitt án umhverfismats og aðkomu almennings

Með hinum ólögmætu ákvæðum í íslenskum lögum frá í október 2018 var sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimilað að gefa út bráðabirgðarekstrarleyfi til 20 mánaða til fiskeldisfyrirtækja. Ekki er gert ráð fyrir því að slík bráðabirgðaleyfisveiting fari í umhverfismat eða að almenningur og samtök almennings geti komið sjónarmiðum sínum að áður en leyfi er veitt. Lögin útiloka enn fremur að leyfisveitingin sé kærð til óháðs og hlutlauss aðila á borð við úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Almenningur verður að koma að ákvörðunum um umhverfið

EES-reglur gera ráð fyrir aðkomu almennings við ákvarðanatöku við umhverfismat í samræmi við ákvæði Árósasamningsins sem Ísland hefur innleitt. Reglurnar fela ekki aðeins í sér lýðræðislegan rétt almennings heldur stuðlar þær líka að faglegri og skynsamari ákvarðanatöku til langs tíma.  Það er því allra hagur að farið sé eftir reglum um umhverfismat og aðkomu almennings að opinberri ákvarðanatöku. Án aðkomu almennings eru áhrif hagsmunaaðila á ákvarðanatöku í umhverfismálum mjög sterk og mikil hætta á því að hátt verndarstig umhverfisins verði ekki meginmarkmið heldur efnahagslegur ábati hagsmunaaðila.

2021 12 15 Letter of formal notice – Complaints regarding environmental impact assessments in the field of fish farming license

Ert þú í Landvernd?

Taktu afstöðu með náttúrunni og gakktu í Landvernd